Nú er komið sumar og farið að hitna í veðri. Hlýnandi veðurfar hefur því miður ýmislegt í för með sér sem er miður skemmtilegt, og á ég þá við ýmis sníkjudýr sem fara að herja á útikettina okkar. Sumir sleppa við þetta sem betur fer, enda höfum við það dálítið gott hérna á hjara veraldar skordýralega séð. Ég hef búið á Ítalíu og Danmörku og þar er full vinna að halda dýrunum sníkjudýralausum um sumar.

Í Danmörku eru flær gríðarleg plága á dýrum. Ástæða þess er að þar eru tvær gerðir af flóm, annarsvegar svokölluð kattarfló sem er mjög aggresív og tímgast mjög hratt, og hundafló sem er aðeins rólegri og fjölgar sér ekki eins hratt og hin gerðin. Hundaflóin er sú fló sem er landlæg á Íslandi, en kattarflóin virðist ekki hafa numið land, og þá líklega út af óhagstæðara veðurfari. Þó að þær heiti kattar- og hundafló þá lifa þær jafnt á hundum sem köttum. Ég fékk að kynnast náið flóavandamálinu þegar ég bjó í Danmörku, því þar átti ég kött sem var útiköttur. Ég barðist við flærnar í tvö ár, með flóaólum, flóadufti og flóasjampói, en það virtist ekkert geta útrýmt henni alveg. Á endanum myndaði kötturinn ofnæmi gegn flóabitum. Það lýsti sér með því að þar sem flærnar bitu hann myndaðist kláði og hann olli því að kötturinn reif öll hárin á staðnum, þannig að það var orðið hræðilegt að sjá hann svo ekki sé minnst á óþægindin sem hann varð fyrir. Þá varð ég að grípa til sterkari miðla og keypti lyf sem heitir Advantage (svipað lyf til sem heitir Frontline). Þetta er svona krem sem maður smyr í húðina á hnakkanum á kettinum (svo hann geti ekki sleikt það af) og það fer síðan inn í húðina og heldur flóm alveg frá kettinum í ca. mánuð og þá setur maður nýjan skammt í hnakkann. Þetta hefur engin áhrif á köttinn (nema sumir geta sýnt óþol fyrir þessu lyfi) og þetta virkar ótrúlega vel, því eftir að ég byrjaði að nota þetta þá hurfu flærnar og hann var aldrei bitinn aftur.

Ég veit ekki hvort þetta fæst á Íslandi, það væri þá helst hjá dýralæknum. Annars er það ekki oft að maður heyri um að kettir séu með mikið af flóm á sér. Ég er með 3 útiketti og hef aldrei orðið vör við flær hjá þeim. Merki þess að kettir séu með flær eru ýmiskonar. Maður getur prófað að bursta í gegnum feldinn á þeim með flóakambi (eða öðrum mjög fíngerðum kömbum) og ef þeir eru með flær þá sjást þær í kambinum. Þær eru mjög litlar og svartrauðar á litinn og þær hverfa oft mjög fljótt af kambinum því þær geta stokkið mjög langt miðað við svona lítil skordýr. Oft er betra að sjá ummerki eftir flærnar, og það er skíturinn úr þeim, sem er eins og svartur sandur, en ef maður setur hann á pappír og vatn yfir þá verður hann eins og blóð, því flærnar nærast á blóði katta og skíta þess vegna blóðrauðunni. Flærnar sjálfar og ummerki þeirra er oftast að finna á baki kattanna og þá sérstaklega við skottið. Mín reynsla var sú að oft voru allar flærnar bara aftarlega á bakinu við skottrótina og hægt að finna mikinn flóaskít eftir þær þar.

Oftast verður fólk ekki vart við flær fyrr en þær byrja að ráðast á mann sjálfan. Þá á ég við þá reynslu sem er mjög algeng, að vakna á morgnana með flóabit, því kötturinn hefur legið í rúminu hjá manni og flær frá honum hafa ákveðið að smakka á manni. Þær bíta mann yfirleitt í fótinn eða fótlegginn en geta annars bitið mann hvar sem er. Bitið lýsir sér með því að það er smá punktur eins og bit og kringum það er bólga sem klæjar mikið. Bólgan og kláðinn aukast ef maður klórar sér mikið, þannig að maður verður að láta bitið alveg í friði. Ef maður lætur það í friði þá hverfur það eftir ca. einn dag, annars getur það tekið nokkra daga. Annars er þetta bit alveg óskaðlegt nema það veldur vissulega óþægindum. Ef maður heldur áfram að verða bitinn þá ætti að athuga köttinn hvort að hann sé með mikið eða lítið flóavandamál. Ef hann er með mikið af flóm þá þarf að taka á því með einhverju sem drepur flær, og þá best að fara til dýralæknis og biðja um flóaeitur (maður þarf ekki endilega að panta tíma hjá dýralækni, oftast best að fara á stórar dýralæknastofur og fá fólk í afgreiðslunni til að ráðleggja sér, eða fara í apótek og athuga hvort þeir eigi eitthvað sem er hægt að afgreiða án lyfseðils). Stundum við mjög slæm tilfelli þá þarf að eitra allt sem kötturinn hefur verið í, því þar geta verið flær og flóaegg. Ég þurfti að gera það í Danmörku, en ég hef ekki heyrt að þess hafi þurft á Íslandi, og ég vona að það hafi aldrei þurft og muni aldrei þurfa þess.

Annað sem getur herjað á útiketti á sumrin og stundum líka aðra árstíma er eyrnamaur. Það er pínkulítið kvikindi sem er glært og svipað stórt eins og punktur ->. Þetta sníkjudýr lifir í eyrum katta og getur valdið miklum óþægindum. Einkenni þess er oft auðvelt að sjá. Þ.e. innan í eyrunum þá myndast svört skán sem er svipuð eins og kaffikorgur. Auðvelt er að rugla því saman við einkenni eyrnabólgu (og dýralæknar ruglast oft á þessu), en munurinn er að í eyrnabólgueyrum er skíturinn í eyrunum svarbrúnn og vaxkenndari, en í eyrnamauraeyrum er hann þurrari og dekkri og oft hægt að sjá maurana skríða ofan á þessum skít. Kettir með eyrnamaura eru líka aumari og pirraðri í eyrunum og húðin undir skáninni er mjög rauð og bólgin. Eyrnamaurar geta smitast milli katta við snertingu og það verður að fara til dýralæknis til að fá meðferð við þeim, því þeir hverfa ekki af sjálfu sér. Ef maður gerir ekkert við þessu þá endar það með því að kötturinn klórar sár á eyrun og í verstu tilfellum getur hann misst heyrnina og ég veit um dæmi þess.

Það sem er algengast að kettir fái á sumrin eru innyflaormar. Þeir smitast t.d. við að borða sýkta fugla, mýs og skordýr. Einkenni innyflaorma eru margvísleg og misjöfn eftir tegund orma. Oftast verður fólk vart við það þegar kettir æla og í ælunni eru ormar, en þeir eru mismunandi í útliti, en yfirleitt alltaf hvítir eða drappaðir á litinn og geta litið út allt frá því að vera eins og hvítt hrísgrjón út í lengjur eins og spaghettí. Það er yfirleitt þumalputtaregla að ef það hreyfir sig þá er það ormur. Ormar geta líka verið í skít katta en maður er minna var við það því útikettir gera oftast þarfir sínar úti og hylja þær. Annað sem getur bent til orma er ef kötturinn byrjar að horast niður þó að hann fái nóg að borða, eða ef hann er með útþaninn maga en annars horaður. Innyflaormar geta orðið banamein veikburða katta og kettlinga ef ekkert er gert við því þegar kötturinn er undirlagður ormum.

Annars er ég ekki með mikla persónulega reynslu af ormum í mínum köttum. Ég ormahreinsa yfirleitt alltaf á haustin, og þá bara útikettina mína, svo fá kettirnir líka sprautu sem drepur innyflaorma um leið og ég fer með þá í árlega bólusetningu. Maður getur fengið töflur sem drepur innyflaorma í apótekum án lyfseðils og líka hjá dýralæknum (töflur sem maður fær þar þarf bara að gefa einu sinni í hvert skipti og eru mjög bragðvondar, en töflur sem maður fær í apótekum þarf maður að gefa í 1 + 3 daga, en þær eru bragðlausar). Munið bara að lesa vel leiðbeiningar með töflunum, því það er misjafnt hversu oft þarf að gefa þær og magn er misjafnt eftir þyngd kattarins. Sýnið ítrustu varkárni þegar kettlingum og kettlingafullum læðum er gefin ormalyf. Verið algerlega viss um að þau eru ætluð þeim, því ormalyf sem eru of sterk geta drepið kettlinga og fóstur, því þetta er í rauninni bara eitur til að drepa orma. Gefið köttum aldrei ormalyf ætluð öðrum dýrum, því t.d. ormalyf sem er ætlað fyrir fullvaxinn hund getur drepið kött því hundurinn er mikið stærri.

Þetta eru aðalmeindýrin á köttum á Íslandi. Ef þið vitið um fleiri sníkjudýr eða pöddur sem herja á ketti endilega látið mig vita og ég skal athuga hvað er vitað um þær. Annars datt mér í hug að skrifa um blóðmaurin ógurlega sem var skrifað um í DV og gerði heila kynslóð af dýraeigendum hysterísk, enda var greinin út í hött og frjálslega farið með staðreyndir. Þetta er sama padda og kallast skovflaad í Danmörku og er landlæg þar sem og í allri Evrópu, já og restinni af heiminum. Látið mig vita ef þið viljið fá að vita staðreyndir um þá pöddu, því hún virðist ætla að setjast hérna að.
Kveðja
Heiðrún