Hæ Kisuhugarar

Ég á 5 ketti núna. Tvo venjulega húsketti úr Kattholti, eina heyrnarlausa norska skógarkattalæðu og tvær Bengal læður. Ég hef fengið hreinræktuðu kettina gefins, enda tekið þau að mér þegar þeir voru orðnir fullorðnir. Yngsti kötturinn sem ég hef fengið er Snælda úr Kattholti sem var 6 mánaða þegar ég fékk hana. Hinir hafa verið frá 1-5 ára gamlir þegar þeir komu til mín, og það hefur yfirleitt ekkert verið planað, bara svona lent hjá mér.

Í lok júní þá fæ ég afhentan 6. köttinn sem verður minn síðasti í bili. Þennan kött valdi ég sjálf og borgaði fyrir þannig að þetta er eiginlega draumakötturinn. Hann er af tegundinni sem mig hefur alltaf langað í og ég fékk að velja hann fyrst allra úr 7 kettlinga goti. Hann er kolsvartur og verður örugglega stórglæsilegur.
Þið getið skoðað mynd af honum og hinum köttunum mínum á þessum link:
http://www.dyrarikid.is/gallery/AlbumSkoda.aspx?A=2817

Tegundin sem hann er af heitir Maine Coon og er upprunalega bandarísk. Þessir kettir eru upprunalega frá norðvesturhéruðum Bandaríkjanna (New England og Maine). Saga þeirra er mjög merkileg og nær aftur um meira en 250 ár. Það er talið að síðhærðir kettir hafi blandast við stóra ketti á þessu svæði og hörð veðrátta þar hafi ollið því að kötturinn varð stærri og sterkari og þróaði með sér feld sem þoldi útiveru vel. Þeir eru með þrennskonar hár í feldinum. Undirhár sem eru dúnkennd, svo venjuleg hár og yst svokölluð “guard” hár sem eru góð til að hrinda frá vatni og snjó. Líkt og norskir skógarkettir eru þeir með sumar og vetrarfeld. Þeir eru mjög góðir veiðikettir sem sést á því að t.d. hafa þeir extra löng veiðihár sem eru nauðsynleg til að þreifa fyrir sér í myrkri, svo eru þeir með lengri vígtennur til að geta haldið bráðinni betur.

Þessir kettir eru mjög mannelskir, enda hafa þeir búið innan um fólk næstum alla sögu þeirra, og hafa verið mjög nytsamir rottu-og músaveiðikettir. Þeir voru hátt elskaðir af eigendum sínum í norðvesturríkjunum, og sumir kattanna voru þegar komnir með ættartölur fyrir 150 árum síðan. Það var líka vinsælt að sýna sinn “coon” kött á “state fair” sýningum löngu áður en fyrsta kattarsýningin var haldin 1895 í NY. (Þessar upplýsingar fengust á síðunni www.verismocat.com sem er með myndir af rosalega fallegum maine coon köttum).

Sem sagt þetta er köttur sem er líkur norska skógarkettinum í útliti og sögu. Reyndar verða þessir kettir mikið stærri heldur en norsku skógarkettirnir og ekki óalgengt að högnarnir séu allt að 10 kíló eða meira.

Þessir kettir eru einnig mjög blíðir og rólegir. T.d. voru einu alveg rólegu kettirnir á síðustu kattarsýningu einmitt Maine coon kettir. Þeir elta mann víst eins og hundar og eru mjög trúir eigandanum. Þeim kemur einnig vel saman við önnur dýr og sagði ræktandinn mér að þeir sýndu aldrei aggressívitet við aðra ketti, heldur fara burt frá hvæsandi ketti og reyna aftur síðar að verða vinur þeirra.

Ég get varla beðið eftir að fá litla Krumma minn, enda hef ég beðið eftir honum síðan frá því áður en hann fæddist.

Kveðja
Heiðrún