Mig langaði til þess að vekja athygli fólks á félaginu Kynjakettir.
Kynjakettir, Kattaræktarfélag Íslands, var stofnað 5. apríl 1990 og verður því 15 ára í vor. Félagið er meðlimur í FIFé, sem eru alþjóðasamtök kattaræktarfélaga.

Félagið er fyrir kattaræktendur, kattaeigendur og bara allt áhugafólk um ketti. Í dag eru félagsmenn um 200.

Kynjakettir heldur sýningar tvisvar á ári, á vorin og haustin. Næsta sýning er einmitt helgina 12. og 13. mars í Reiðhöll Gusts.

Okkur í félaginu langar til þess að gera veg heimiliskatta nokkuð veglegan þetta árið og því hvetjum við ykkur endilega til þess að skrá kisu til sýningar. Að sjálfsögðu eru hreinræktaðir kettir áfram mjög velkomnir :)
Fyrir þá sem ekki eiga kisur eða hafa bara ekki áhuga á að sýna, þá ættuð þið endilega að koma og skoða. Það er svo gaman að sjá allar þessar ólíku kisur á einum stað!

Kynjakettir stuðla að fræðslu um ketti og á vegum félagsins er gefið út fréttabréf á hverju ári þótt fjöldi þeirra árlega sé nokkuð óákveðinn :) Í því er að finna ýmsan fróðleik um ketti, viðtöl við ræktendur, úrslit sýninga, skemmtiefni, myndir og fleira. Það er því virkilega skemmtilegt fyrir kattaáhugafólk, ég tala ekki um fyrst það er eina blaðið á Íslandi sem helgar sig köttum.
Ritstjórn tekur fúslega við öllum ábendingum um efni svo og myndum. Blaðið er einmitt að koma út um þessar mundir svo ef þið skráið ykkur í félagið þá fáið þið það sent í pósti á næstunni en blaðið er frítt fyrir félagsmenn. Það er einnig til sölu á kattasýningum og dýralæknastofum.

Á vefsíðu Kynjaketta er að finna ýmslegt efni svo og spjall, endilega kíkið á hana:

www.kynjakettir.is

Takk fyrir lesturinn!