Sá langi tími sem kettir eyða í undirbúning
mökunar, maraþonkynsvall þeirra og tilhneiging
þeirra til að stofna til skyndikynna, hafa
stuðlað að því að þeir hafa löngum verið
taldir lostafullar skepnur. Vissulega vara
samfarir katta oft í margar klukkustundir
samfleytt og geta jafnvel haldið áfram,
með smáhléum, í nokkra daga.Í þessum efnum
ríkir undantekningarlaust “dömufrí” meðal
katta. Það eru læðurnar einar sem ráða
ferðinni. Leikurinn byrjar með því að
breima læða kallar til sín alla högna
sem eru í kallfæri. Að sjálfsögðu renna
þeir einnig á lyktina af sérlega kynæsandi
“ilmvatni” læðunnar og hlýða tælandi kalli
hvar sem þeir eru staddir í grenndinni.
Högninn sem hefur yfirráð á svæðinu,
sem læðan hefur valið fyrir forleikinn,
hefur auðvitað forskot á keppinauta sína,
þar sem þeir aðkomnu veigra sér við að
fara inn á ókunnar slóðir. Þó gefa þeir
sig að lokum ljúfri freistingunni á vald
og ráðast inn á bannsvæðið. Þessi óleyfilega
innrás leiðir að sjálfsögðu til þess að
slagsmál brjótast út milli vonbiðlanna.
Vælið og skrækirnir sem þessu fylgja eru
oft ranglega skilin sem tjáning
kynferðislegrar alsælu en í rauninni
bera þau aðeins vott um “réttláta reiði”.
Það líður þó yfirleitt ekki á löngu þar til
athygli högnanna beinist aftur að aðalatriðinu,
dömunni, og þeir láta keppinautana lönd og leið.
Högninn sem verður að lokum fyrir valinu er
ekki endilega sá sem ræður ríkjum í hverfinu;
það er læðunnar einnar að velja sér elskhuga.