Jæja þá er ein kisan í viðbót farin heim til sín. Það var hún Leia sem fékk að fara út hjá mér. Hún vildi nú ekkert fara heim til sín, faldi sig undir sófa og blótaði. Eiganda hennar fannst hún vera bæði með betri feld og hafa aðeins fitnað, þó að hún hafi verið svona mikið úti. Þetta er bara maturinn sem ég gef þeim, kettirnir líta út fyrir að vera bónaðir eftir svona mánuð á honum.

Svo kom ein lítil kisa í gær. Það er hún Izma, og það gekk ekkert smá vel að koma henni saman við kettina. Hún var mjög róleg að hitta þá og ég var ekkert að loka hana inn í herbergi, og það er mjög lítið hvæst. Hún hvæsir aðallega á heyrnarlausa köttinn minn, finnst örugglega skrítið að hún sýni engin viðbrögð við því. Hún Izma er síðan búin að leika sér í dag, og núna sefur hún uppi á loftabitunum.

Svo lenti ég í smá vandræðum fyrir nokkrum dögum. Fór með 3 ketti í bólusetningu og heilbrigðistékk. Fannst einn kettlingurinn sem ég passa laslegur. Þá kom í ljós að heyrnarlausi kötturinn minn var kominn með eyrnamaura, og það var ekkert annað í stöðunni en að láta sprauta við eyrnarmaurum allt liðið. Og ég fór aftur heim og sótti restina af köttunum. Svo þegar ég hreinsaði eyru þeirra allra um kvöldið þá kom í ljós að það voru tveir af mínum köttum með þetta og þeir eru báðir innikettir, og mjög mikið fyrir gesti þannig að þessi sýking hefur örugglega komið með fólki. Það má nú segja að það er aldrei of varlega farið. Veit ekki hvort ég eigi að biðja fólk um að þvo sér um hendurnar áður en þeir klappa köttunum. Ég held að þá fyrst yrði haldið að ég væri brjáluð kattarkerling. Þessi eyrnamaurasýking hafði líka verið í mjög stuttan tíma því að ég tékka alltaf eyrun á köttunum reglulega og það var ekki komið mikill skítur í eyrun.

Fyrir þá sem vita ekki hver einkenni eyrnamaura eru, þá sést þetta inn í eyrum katta, sem kolsvartur eyrnaskítur, oft pirrar þetta kettina sem sækjast í að klóra inn í eyrum. Það er sprautað gegn þessu og það er mjög ódýr sprauta. Þetta er mjög smitandi og óþægilegt fyrir köttinn þannig að það verður að koma í veg fyrir þetta. Þetta heitir eyrnamaur, en mér skilst að þetta sé ekki maur heldur sveppasýking. Hann er algengari á sumrin, þannig að ég skora á alla kattareigendur að skoða eyrun á kisunum sínum.

Það var líka smá kisupartý hérna í gærkvöldi en ég sauð fisk fyrir allt liðið. Það er magnað að hafa 9 ketti að bíða eftir fiski, maður er rosalega vinsæll einmitt þá. Svo þurfti náttúrulega að setja þetta í 9 skálar, en það borðuðu allir í mesta bróðerni.

Sem sagt köttunum líður vel og ég verð að segja að það er mjög skemmtilegt að hafa svona marga ketti.

Kveðja
Heiðrún og kisustóðið