Hæ kisuhugarar

Jæja nú er ég að passa 5 ketti frá 4 heimilum í viðbót við þá 5 sem ég á sjálf. Ég verð að segja að þetta gengur betur en ég þorði að vona. Fyrstu tveir kettirnir sem eru báðir kettlingar (Rósa og Hrefna) eru alveg komnar inn í hópinn. Hinar þrjár kisurnar eru ekki lengur í herbergjunum. Ég hafði tvær í tveim mismunandi herbergjum í nokkra daga, þangað til þeir sýndu áhuga að fara út úr herbergjunum. Sú fyrsta sem kom út var Leia. Hún hvæsti á hina kettina en var samt furðuróleg. Það vantaði líka sannfæringarkraftinn í urrið og hvæsið, og svo var hún mjög róleg þess á milli. Var ekkert hrædd að fara um allt húsið og skottið hennar var upprétt með krók í endanum sem er merki um að þeir séu afslappaðir. Hún slapp reyndar út af algerri slysni á laugardaginn, og allir sögðu að ég myndi aldrei sjá hana aftur, en hún kom á sunnudagskvöldið og var hin brattasta. Svo slapp hún út í gær aftur, og kom aftur um kvöldið. Alger escape artist. Þegar hún kom inn í gær þá setti ég á hana ól, með nafnspjaldi, og tók bjölluna af ólinni, því ég er á þeirri skoðun að ef ég sjálf hefði svona bjöllu alltaf um hálsinn þá yrði ég brjáluð á henni á endanum, þannig að ég geri köttum ekki þann óleik að hengja hávaða um hálsinn á þeim. Það eru líka minni líkur á því að þeir reyni að taka ólina af sér. Svo hleypti ég henni út í morgun, þar sem hún kemur alltaf aftur og það er líka svo lítið af bílum hérna á Eyrarbakka og umhverfið er náttúrulega paradís fyrir ketti.

Önnur kisan, Mía er líka komin úr herberginu sínu. Hún er líka mjög róleg og sýnir öll merki um að hún sé óhrædd. Það hefur reyndar verið smá samstuð við Vicky (bengalköttinn minn) en ekkert alvarlegt. Henni langar mjög mikið út, en þar sem hún er sótt á föstudaginn þá hef ég hana inni.

Nýjasta kisan heitir Dimmalimm og hún var í herbergi bara í einn dag. Hún er mjög róleg orðin og er mjög aðlögunarhæf. Hún vildi reyndar bara blautmat heima hjá sér, en hún er byrjuð að borða þurrfóðrið sem ég er með og virðist líka vel.

Það er í rauninni ótrúlegt hvað öllum kisunum kemur vel saman. Ég veit eiginlega ekki af hverju en ég held að það sé út af því að mínir kettir taka svo vel á móti nýjum köttum.

Kveðja
Heiðrún og 10 ketti