Blessaðir allir kattahugarar

Ég bý á Eyrarbakka og á 5 ketti. Tveir eru venjulegir húskettir, síðan á ég eina norska skógarkattalæðu sem er heyrnalaus. Hún er heyrnarlaus því hún er hvít og það fylgir oft en ekki alltaf hvítum köttum heyrnarleysi. Tveir nýjustu kettirnir mínir eru tvær Bengal læður sem ég fékk gefins því ræktandi þeirra var að taka þær úr ræktun. Ein er koparlituð með dökkbrúnar doppur og skærgræn augu, hún heitir Vicky og er rúmlega eins árs. Hin er svokallaður snjóbengal, og er hún gráhvít með svartar doppur og blá augu og er 6 ára. Ræktunarnafnið hennar er icelandic princess of nátthagi, en við köllum hana alltaf Icy Spicy. Ég mæli með Bengal köttum. Þeir eru svo fjörugir og skemmtilegir. Meira að segja Icy gamla spicy er alltaf að leika sér.

Ekki allir kattareigendur gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fóðra kettina sína með gæðafóðri. Einkenni katta sem eru fóðraðir með vondu fóðri er mattur feldur, mikið hárlos, illa lyktandi skítur, lítill vöxtur og minni mótstaða móti sjúkdómum. Ég myndi segja að allar þær tegundir fóðurs sem fást í stórmörkuðum sé lélegt fóður. Ef þið trúið mér ekki prófið þá að lesa á pökkunum innihaldslýsingu. Flest þessi fóður eru með mikið af uppfyllingarefnum eins og ösku sem fer ómelt í gegnum meltinguna hjá köttunum og valda því að þeir borða og þar af leiðandi skíta helmingi meira heldur en með góðu góðri. Hráefnið í fóðri eins og Whiskas er líka mjög lélegt, eins og má lesa á innihaldslýsingunni og mikið af kryddi blandað í til að fá köttinn til að éta þennan mat.

Þá mætti halda að mikill verðmunur væri á gæðafóðri og stórmarkaðsfóðri, og halda margir að gæðafóðrið sé miklu dýrara. Það er ekki endilega satt. Ég kaupi fóður sem heitir Solid Gold og fæst í Dýrabæ í Hlíðarsmára 9, Sími 5533062. Ég kaupi alltaf stóra pokann sem er 6.8 kg og kostar fullu verði 3190 kr. Hann endist fyrir 5 fullorðna ketti í tæplega mánuð. Einnig er hægt að kaupa minni poka.

Ef ég myndi alltaf kaupa Whiskas þurrfóður, þá myndi ég kaupa einn poka í Bónus á hundrað kall og hann myndi endast í einn dag. Þá myndi ég eyða 3000 kr yfir mánuðinn, og talan myndi hækka ískyggilega ef ég myndi líka kaupa dósamat. Solid Gold er besti matur sem ég hef haft fyrir kettina mína. Allt hráefni í honum er umhverfisvænt og ég held að ég hafi aldrei haft eins glæsilega ketti. Ég byrjaði að kaupa matinn fyrir um 2 árum síðan og ég get svarið það að kettirnir mínir stækkuðu meira heldur en ég hafði búist við að þeir yrðu stórir. Feldurinn á þeim glansar og þeir fara mjög lítið úr hárum. Þeir verða aldrei leiðir á þessum mat, og hann er rosalega drjúgur. Ég held að ég gefi þeim um 250 grömm á dag, en það gerir 50 grömm á kött, og það er meira en nóg handa þeim.

Ég vona að þið skiljið hvað ég á við. Ég er ekkert að fordæma kattareigendur fyrir að gefa köttunum sínum Whiskas, ég er bara að benda á að maður sparar ekkert á því.

Einnig vil ég benda á aðra vöru sem Dýrabær hefur, en það er kattarsandur sem heitir Cats Best. Ég notaði alltaf Everclean kattarsand og hélt að hann væri sá besti þangað til að ég prófaði þennan.
Í fyrsta lagi er þessi kattarsandur úr umhverfisvænu efni, einhverskonar plöntufiberum svo maður getur sturtað honum í klósettið eða sett hann í safnhaug.
Í öðru lagi þá er hann mjög rakadrægur og klumpar alveg frábærlega, miklu betur en Everclean, sem oft varð bara að einhverri leðjudrullu.
Í þriðja lagi þá dregur hann miklu betur í sig lykt heldur en annar kattarsandur. Ég ætlaði ekki að trúa hvað það var lítil lykt af honum þegar ég mokaði úr honum í fyrsta skipti
Í fjórða lagi þá er hann miklu drýgri heldur en annar kattarsandur. Ég þurfti að bæta í sandkassana í fyrsta sinn, eftir að ég var búin að moka úr þeim klumpana á hverjum degi í heila viku
Í fimmta lagi þá er hann miklu ódýrari heldur en Everclean, sem kostar 1800-2200 kr, en Cats Best kostar hinsvegar fullu verði um 1100 kr. fyrir 10 ltr, sem ég tel að jafngildir einum og hálfum kassa af Everclean.

Ég vil einnig taka það fram að ég er ekki að auglýsa fyrir Dýrabæ. Ég er bara kattareigandi sem vil það besta fyrir kettina mína og það vill svo til að þær vörur fást í Dýrabæ.

Bestu kveðjur til ykkar allra
Heiðrún, Múddi, Snælda, Hvíta kisa, Vicky og Icy spicy