Hér kemur framhald af ritgerðinni minni, hún er 10 bls. og því sendi ég hana inn í þónokkrum pörtum enda nenni ég sjálf ekki að lesa svo langar greinar. Ég vona að þið hafið gama að!

Áður en heimurinn varð til lifði gyðja myrkursins sem hét Díana. Í byrjun voru allir hlutir inn í henni. Hún skipti sér seinna í karlmann og kvenmann og í myrkur og ljós. Ljósi hluti Díönu var bróðir hennar Lúsifer. Gyðja myrkursins elskaði og þráði guð ljóssins en Lúsifer hafði ekki áhuga á gyðju myrkursins. Díana sótti á hann á hverri nóttu en hann lét ekki undan. Hún komst að því að Lúsifer átti fallegan kött sem svaf alltaf við hliðina á honum. Hún sannfærði köttinn um að skipta um ham við sig eina nóttina. Þá fæddist Aradía sem var dóttir gyðju myrkursins og guðs ljóssins. Aradía var fyrsti nornin. Díana sendi hana til jarðar til að kenna mönnum galdra. Þetta markaði upphaf svartagaldurs.

Kettir fóru illa út úr þessu tímabili þar sem vanþekking og fáfræði mannanna á umhverfi sínu fékk að njóta sín. Talið er að ástæðan fyrir því að kettir voru hataðir var það að kettir líta ekki undan þegar horft er á þá, heldur stara beint í augu þér. Þá fór ímyndunaraflið strax af stað og örlög katta á miðöldum voru ráðin. Í Evrópu einni saman voru 200.000 meintar nornir deyddar og var aðalástæðan fyrir kærunum sú að þær áttu ketti enda var miljónum katta fargað á þessum tíma. Ekki munaði miklu að köttum væri útrýmst í Evrópu. Í framhaldi af því kom mikil rottuplága sem dreifðu hinum ógurlega sjúkdómi Svarta-Dauða sem drap um 1/4 íbúa Evrópu eða 25 miljónir manna á árunum 1347-1351 . Merkilegt er að Innocent VIII páfi skipaði spænska rannsóknarréttinum 1484 að kæra og drepa alla ketti sem hann náði í undir því yfirskini að kettir væru illir og handbendi Satans. Kettir hafa alltaf farið sínar eigin leiðir og eru mikil næturdýr og því voru nornir samtengdar köttum því þær fóru einnig út á næturnar, enginn vissi hvert en fólk gat samt ímyndað sér það. Ýmist var haldið að kettirnir væru þjónar norna eða að þeir væru nornirnar sjálfar í kattaham.

Kettir eru ekki nefndir í biblíunni og kristið fólk var mjög tortryggið gagnvart því atriði og tengdi ketti gjarnan við heiðni. Köttum var kennt um allt sem fór úrskeiðis eins og að dreifa sjúkdómum og ef matur rotnaði. Sérstaklega voru svartir kettir hataðir þar sem svart er litur djöfulsins og voru þeir kettir sem voru svo óheppnir að vera svartir tengdir mikilli illsku. Kettir urðu tákn um leyndardóm, myrkur og mikil ill völd. Ef svartur köttur gekk um herbergi þar sem sjúklingur lá sem dó seinna var kettinum kennt um það.

Margar sögur eru til um það að menn hafi skaðað ketti og seinna hafi konur birst með sömu sár og kettinum voru veitt. Ein slík saga er mjög áhugaverð og fjallar um nornina Sybil frá Bernshawturni. Hún var mjög sjálfstæð kona og hafnaði öllum karlmönnum sem biðluðu til hennar. Hún gerði samning við sjálfan Satan um sölu sálar sinnar til hans og eftir það eyddu hún dögum sínum í göngur um kletta og hamra Burnley en á næturnar dansaði hún með nornum í Lancashire. Einn biðill hennar vildi ekki sætta sig við að fá hana ekki og elti hana eitt sinn þegar hún var í ham hindar og króaði hana af með brjáluðum hundum. Hún varð að lofa að giftast honum en það hjónaband gekk ekki vel. Innan árs var hún aftur farin að dansa með öðrum nornum á næturnar en í þetta sinn í formi hvíts kattar. Sybil og nornasystur hennar skemmtu sér við það að eyðileggja uppskerur og akra þangað til eitt sinn að aðstoðarmaður malarans vaknaði við hávaðann í þeim á meðan þær voru í myllunni. Hann rýkur fram með hníf í hendi og stakk og stakk hnífnum í dýrin sem flýðu í ofboði. Morgunninn eftir finnst Sybil í rúmi sínu og hafði annar handleggur hennar verið skorin af. Á sama tíma er aðstoðarmaður malarans að berja á útidyrnar, bálreiður með handlegg Sybillar í poka.

IceCat