Sæl og takk fyrir góða síðu.

Mig langar til að segja frá minni kisu, henni Freyju.

Við fengum hana hér í Reykjavík í september 2001, en hún er fædd 26. júní sama ár, verður tveggja og hálfs árs Annan í Jólum. Hún er stór, vegur í dag 5 kg., samt er hún ekki feit. Hún er bröndótt og litirnir í henni eru margir, hún er grá, hvít, svört, rauðbrún og gul. Trýnið er múrsteinsrautt og hún er með svarta hártoppa uppúr eyrunum svipað Norskir skógarkettir, en samt er hún ekkert lík þeim. Augun er stór og talandi, blágræn og græn, tvílit. Þófarnir eru alveg svartir undir. S.s. mjög falleg stór kisa.

Freyja er mjög skemmtilegur inniköttur, fyrst og fremst er hún hlíðin, ef maður bannar eitthvað gerir hún hlutinn aldrei aftur, eða næstum aldrei, þetta kemur sérstaklega í ljós um jólin, hún var að vísu búin að gleyma jólunum í fyrra, en var fljót að læra að jólaskrautið er ekki hennar dót.

Við tölum saman með andlitshreyfingum og augntjáningu, t.d. lygni ég eða hún aftur augunum og hin svarar á sama hátt, þetta segir okkur að allt er í lagi hjá hinni.

Hún er ekki mikið fyrir að vera í kjöltu manns, en hún lúllar hjá manni, hún nuddar sér alltaf upp við mann til að snýkja gælur, mat og hreinan sand í kassann sinn. Hún mjálmar lítið.
Svo er eitt alveg sérstakt við hana, hún sækir. Já hún finnur dót á gólfinu, eða einhversstaðar, stundum bara pappírsvöndul, kemur með það til manns og biður mann að henda því, þá stekkur hún af stað og sækir dótið, kemur með það aftur og maður á að henda þessu aftur fyrir hana. Þetta er algjör uppáhalds leikur hjá henni. Eins leikum við oft við hana með leysergeisla, það finnst henni algjört æði, hún fattar um leið og maður tekur ljósið í hendurnar og veit þá að nú á að fara að leika.

Ég fór með hana á kattasýninguna 26. okt. s.l., þar kom hún mér algjörlega á óvart með því að verða húskattalæða nr. 3. Eins og ég nefndi áðan er hún stór og dómarinn gaf henni eftirfarandi umsögn: “ Big strong girl, very muscular”.
Ég var mjög ánægð með þessa viðurkenningu, sérstaklega þar sem ég fór á þessa sýningu aðallega til að hitta aðra kattaeigendur sjálfri mér til ánægju, Freyja var bara með til að ég gæti verið með.

Vonandi verðið þið ekki mjög leið á þessari lýsingu á henni Freyju minni.

Denna