Halló kattar áhugafólk, mig langar að skrifa smá grein(eða þá ef þetta lendir á korkinum þá kork)um það að eignast kött. Ég er 24 ára gamall og eignaðist minn fyrsta kött fyrir hálfu ári. Kærastan mín er voðalega mikill kattakona og hefur eiginlega alltaf átt ketti nema þá þegar við vorum að byrja að búa saman og leigðum hjá einhverju geðstirðu neðribreiðholtsuppapakki sem hataði ketti og leyfði þá ekki hjá sér. Svo tókum við þá ákvörðun að flytja og þegar við vorum kominn í nýja húsnæðið þá fengum við okkur ketti. Ég hef aldrei umgengist ketti nema eitthvað afskaplega takmarkað en var meira en til í að prufa og fengum við okkur 2 vini úr kattholti, læðu og fress sem náðu svona svakalega vel saman. Nöfnin branur og dimma voru ákveðin og fyrstu dagarnir með þau á heimilinu voru eitthvað sem ég á aldrei eftir að gleyma, ég kunni ekki neitt og vissi ekki neitt um ketti en sem betur fer var kærastan hjá mér alla daga því þetta var um sumar og við bæði í fríi út mánuðinn. Ef ég hefði verið einn með þau þá hefðu hlutirnir ekki gengið vel, ég gaf þeim til dæmis bara rækjur og mjólk í 2 daga og það var eins og einhver hefði gert loftárás á skítadallinn þeirra. Þau voru fljót að aðlagast og svaka stuð á heimilinu og ekki minnkaði stuðið þegar systir mín úr Reykjavík kom í heimsókn í mánuð með dóttur sína og kettina sína 2. Þá voru sem sagt orðnir 4 kettir á heimlinu og ein ofvirk stelpa sem vildi endilega fá að máta allt baby born dótið sitt á kettina og stemmingin var ótrúleg…eins og að horfa á sirkus á eigin heimili að fylgjast með þeim öllum. Allt gekk þetta þó vel og Brandur litli fressinn okkar og Púki,skógarköttur systur minnar urðu bestu vinir og var ekki lengra en 5 cm á milli þeirra allann mánuðinn. Læðan okkar hún Dimma og svo læða systur minnar hún Perla náðu hins vegar ekki vel saman og voru eiginlega bara sammála um að vera ekki að urra alltaf á hvor aðra en meiri vinátta varð ekki á milli þeirra.
Rétt áður en systir mín fór svo suður aftur urðum við fyrir áfalli þegar Brandur litli lenti í slysi og dó í örmunum okkar í stofunni. Fram að þeim tíma hafði ég bara hugsað um hvað þetta væru fyndinn og skemmtileg dýr en eftir það breyttist allt. Við grófum hann í risastóra garðinum okkar sem honum hafði fundist svo gaman að leika sér með vinum sínum Púka og Dimmu og svo fór systir mín með sína ketti aftur suður nokkrum dögum seinna. Það var erfitt að hugsa um Brand í marga daga á eftir og enn þann dag í dag fæ ég hnút í magann af því að hugsa um hann liggjandi þarna hreyfingarlausan og kaldan. Eftir að hafa séð hvað Brandur og Dimma höfðu dafnað vel og leið vel hjá okkur hugsuðum við um það hvort það væri ekki um að gera að taka að sér fleiri ketti úr því að við höfum aðstæður og aðbúnað til og höfðum því samband aftur við kattholt og fengum hjá þeim tvo gulbröndótta vini og félaga sem við kölluðum reyndar alltaf bræður þótt þeir væru það reyndar ekki þannig séð. Þeir komu útúr búrinu sínu pínkulitlir og vitlausir og ráfuðu um íbúðina og voru strax tilbúnir til að hoppa og skoppa útum allt og leika sér. Við byrjuðum hins vegar á að þrífa þá því þeir voru svo skítugir að það mætti halda að þeir hefðu verið með drullupoll í búrinu hjá sér og velt sér uppúr honum alla leiðina. Svo liðu nokkrir dagar og þeir voru svoldið skrýtnir, innst inni vorum við að vonast eftir að þeir yrðu alveg eins og Brandur var og ekki minnkaði það væntingarnar að þeir voru alveg eins á litinn og Brandur hafði verið. Eftir nokkra daga voru nöfnin Gosi og Pjakkur ákveðin og þeim leyft að fara svoldið um húsið og svona. Dimma var ekki allskostar sátt við þessa íbúa og tók uppá því að flytja í kjallarann hjá okkur og kom bara upp til að borða og knúsast í okkur. Gosi litli var reyndar veikur og versnaði eftir nokkra daga og gerði meðal annars flóttatilraun með því að stökkva útum glugga í 3 metra hæð og hlaupa um í garðinum þangað til ég náði honum eftir eltingaleik þar sem ég hljóp um á naríunum nývaknaður og nágrönnunum til skemmtunar. Dimma ákvað að flytja að heiman og fór til frænku minnar sem hafði fallið fyrir litnum á henni og því að hún væri svona sjálfstæð og vildi ekki vera að púkka uppá þessa karlaketti sem væru nýkomnir á heimilið hennar þannig að núna vorum við bara með þá tvo,Gosa og Pjakk. Þegar þarna var komið við sögu var kominn september og við að byrja að vinna aftur eftir sumarfrí og allt að komast á réttan kjöl eftir breytingar á húsnæði og flutninga auk parkettlagningar og eldhúsumbreytingar. Það gafst loks tími til að meðtaka allar breytingarnar sem líf okkar hafði tekið á stuttum tíma og ég var svo þakklátur því að hafa fengið að kynnast köttum. Mig grunaði ekki að ég gæti fundið svona mikil tengsl við svona litlar verur sem maður hefur vanalega bara séð og hugsað hvað þetta væru nú krúttleg dýr. Málið er nefnilega að þeir Gosi og Pjakkur voru á þessum tíma bara orðnir fullgildir fjölskyldu meðlimir og í rauninni ekkert öðruvísi en við að mörgu leyti, þeir lögðu sig alltaf á svipuðum tíma,borðuðu á svipuðum tíma og þegar við horfum á sjónvarpið á kvöldin til afþreyingar þá leika þeir sér saman til afþreyingar útí garði og vitleysingast þar saman. Pjakkur eignaðist kærustu sem fékk að koma í heimsókn með honum inn annað slagið og Gosi varð þá að finna sér eina líka og valdi sér skógarkött sem var að minnsta kosti 3 sinnum stærri en hann og var mjög fyndið að fylgjast með þeim leika sér útí garði. Svo leið tíminn og endalaus skemmtun og fjör hjá þessum köttum og þeir orðnir stærri og sterkari og farnir að hendast upp eftir trjánum í garðinum án nokkura vandamála. Mér fannst það yndislegt að sjá, þeir komu til okkar grindhoraðir og skítugir og nokkrum mánuðum seinna voru þeir þarna hlaupandi um í garðinum með þykkan feld og fullir af lífi og fjöri og það var allt okkur að þakka, þeir voru á okkar ábyrgð og við sáum um að þeim liði vel og það var svo góð tilfinning og maður finnur svo mikið stolt af hafa átt þátt í því að koma tveim lífverum til bjargar og veita þeim gott heimili og sjá að þeim leið vel. Stuttu seinna urðum við fyrir öðru áfalli þegar hann Pjakkur fór í heimsókn til kærustunnar nokkrum húsum frá okkur og þar dó hann þegar hann varð fyrir bíl. Ég man eftir þvi þegar hann og Gosi voru að fara útum gluggann saman þetta kvöld og ég hugsaði með mér hvað þeir væru agalega miklir vinir, fóru allt saman. Það var í seinasta skipti sem ég sá Pjakk lifandi og það er svo erfitt að hugsa til þess að ef maður hefði kannski ekki leyft þeim að fara út þetta kvöld þá væri hann hérna ennþá hjá okkur og myndi vekja okkur á morgnana með því að þvo okkur í framan og mala eins og traktor. Eftir á að hyggja þá vildi maður samt engu breyta, frekar viljum við að hann hafi allavegana fengið að lifa eins og hann gat og notið þess að vera til og vera frjáls frekar en að aftra honum frá því bara til þess að hann yrði eldri í árum talið, hann lifði vel og skemmti sér á meðan eins og hann gat og við gleymum honum aldrei. Við grófum hann við hliðina á Brandi litla og núna eru þeir saman að leika sér á himnum með uppáhaldsleikföngin sín sem við sendum með þeim. Það var líka viss huggun að vita að núna allavegana hefðu þeir hvorn annan til að knúsa. Dagarnir á eftir voru svo skýtnir og aftur rákumst við á það hvað kettirnir voru stór hluti af okkar lífi og skipta okkur miklu máli og það var mikið grátið og huggað dagana á eftir og Gosi litli var ekki skárri, lék sér lítið og borðaði lítið. Hann saknaði vinar síns og gerir ennþá. Þótt það sé kominn mánuður síðan þetta gerðist þá er hann stundum að leita ennþá. Þess vegna ákváðum við að halda áfram að reyna að gefa einhverjum tækifæri á ágætis lífi með okkur og fengum okkur litla kolsvarta læðu sem við fengum á dýralæknastofunni í garðabæ. Fyrstu dagarnir hennar gengu ekki vel, hún urraði og urraði á Gosa greyið en gaf sig vel að okkur reyndar og við vorum svo viss um að við hefðum gert þvílík mistök að fá okkur annan kött svona snemmt og hugsuðum að við hefðum átt að fá okkur frekar fress og frekar kettling og koll af kolli. Við prufuðum að auglýsa og athuga hvort einhver gæti gefið henni betra heimili því henni leið ekki vel með þennan ókunna fress á eftir sér alla daga og við vorum kominn með svo mikið samviskubit yfir þessu öllu að ég var að brotna niður bara.Við ákáðum að leyfa þeim ekki að sofa inni hjá okkur og lokuðum svefnherbergishurðinni okkar í fyrsta skipti í marga mánuði og þau voru ein í öllu húsinu. Sunnudagsmorguninn eftir og við vöknum, förum framúr opnum hurðina og fyrir utan situr kolsvarta litla læðan okkar og ég sver það en hún brosti til okkar og strauk sér upp við okkur og malaði og malaði. Allt í einu var komið á samkomulag og Gosi kom stuttu seinna og hoppaði uppí rúm til okkar og hann og Trítla sýndu okkur hvað þau eru þroskuð. Þau ákváðu að þau væru ekki bestu vinir en þau ætluðu að verða betri við hvort annað og sýna hvort öðru tilitsemi. Þau leika sér stundum saman, stundum sofna þau hlið við hlið og stundum fær Gosu að þvo smá á henni skottið áður en hún urrar á hann, það er samkomulag um að þola hvort annað og reyna að byggja á því og það nægir í bili því þau læra eins og við að umgangast hvort annað af virðingu og tilitssemi. Umfram allt hef ég lært að það að af köttunum mínum á þessum tíma að það á að bera virðingu fyrir öllu lífi og tilfinningum því jafnvel ólíklegustu lífverur geta breytt lífi þínu að eilífu, ég veit að kettirnir mínir hafa gert það og ég á aldrei eftir að horfa á kött sömu augum og ég gerði. Ef ég sé kött í dag hugsa ég um það að einhversstaðar er fjölskylda sem hann er partur af og þar inni eru fjölskyldumeðlimir sem hugsa um hann og passa. Kettir eru ekki bara krúttlegir, þeir eru fjölbreytilegir og gefandi, alveg eins og mannfólkið…með örfáum undantekningum þó.


Takk kærlega fyrir þennan vettvang handa okkur kattaráhugafólki og ég vona að þið hafið haft tíma og þolinmæði til að lesa þessa skrift en mér fannst bara eins og það gæti verið gaman að koma þessu frá sér á prent og leyfa öðrum að sjá og fá kannski smá nasarsjón af því lífi og gleði sem það veitir manni að opna hjarta sitt fyrir tilfinningum og ábyrgð.

Kveðja frá Magna, Tótu,Trítlu og Ofur-Gosa