Ég var að skrifa náttúrufræðiritgerð um stóra ketti og datt í hug að setja innganginn hérna, en hann heitir “Hvað er köttur?” Þetta er bara svona smá fróðleikur um þessi sætu dýr..;)

Tveir litlir kettlingar eru í fjörugum leik, þeir elta hvorn annan, hlaupa á eftir garnhnyklum og öðrum hlutum sem kastað er að þeim. Flestir dást að þessum litlu dúllum og finnst þeir ósköp sætir. En ef fylgst er vel með sjást merki þess að kettlingarnir litlu, þótt sætir séu, eru í raun frábær rándýr, og eiga eftir að þróa með sér snilldarlega veiðitækni. Þeir hafa mjög beittar klær og tennur sem geta orðið mörgum smádýrum að bana á augnabliki. Þeir eru bæði sterkir og liprir, og einnig frábærir í að læðast svo hljóðlega að þeir koma bráðinni algerlega að óvörum. Þeim sem sjá litlu kettlingana eru stór og grimm ljón ekki ofarlega í huga.
Þó eiga þessi dýr fleira sameiginlegt en þú heldur, þau eru nefnilega bæði
kattadýr eða kettir, eiga sömu forfeður og ótalmargt sameiginlegt, þar á meðal þessa frábæru rándýrs eiginleika. Einnig eru allir kettir með nætursjón, sjáöldrin í augum þeirra dragast saman á daginn í rifu eða þröngan hring til varnar ofbirtu. Á nóttunni víkka þau og hleypa þá miklu ljósi inn. Fyrir vikið sjá kettir jafn vel á nóttu sem á degi. Kettir hafa ótrúlega góð skilningarvit, og skynja umhverfi sitt mjög vel. Veiðihárin, sem er eitt af sameiginlegum einkennum allra katta, gegna einmitt mikilvægu hlutverki í skynjun katta.
Hægt er að líkja notagildi veiðiháranna við þreifara á skordýrum. Veiðihárin eru tvöfalt þykkari en önnur hár katta og ná þrisvar sinnum dýpra niður í húðina. Við rætur þeirra liggur fjöldi taugaenda og þannig tengjast þau taugakerfi kattarins. Veiðihárin gefa kettinum dýrmætar upplýsingar um vindátt, loftþrýsting og hvaðeina sem hann snertir, til dæmis þegar hann athafnar sig í gróðurlendi og þarf að fara hljóðlega um til að styggja ekki bráð. Fræðiheitið á veiðihárunum er vibrissae, sem er dregið af latnesku sögninni vibro sem þýðir að titra. Það gefur til kynna óvenju mikla næmni háranna fyrir titringi í lofti en hún veitir kettinum mikilvægar upplýsingar um nærliggjandi hlut, stærð hans og lögun án þess að kötturinn sjái hann eða snerti á honum.
Annað mikilvægt skynfæri katta eru eyrun, þau eru stór og standa upp úr höfðinu. Það auðveldar þeim að greina dauf hljóð. Lögun eyrnanna gerir köttunum kleift að nema hljóð út mörgum áttum. Einnig geta kettir snúið eyrunum í átt að hljóðgjafa.
Ekki má gleyma einu aðaleinkenni kattadýra, en það er langa rófan. Hún hjálpar köttunum við að halda jafnvægi á hlaupum og þegar þeir stökkva á bráð sína, en þetta er mjög mikilvægur eiginleiki rándýrs. Kettir nota líka rófuna til þess að tjá öðrum köttum tilfinningar sínar.
Kettir eru eins og fram hefur komið merkileg dýr, og alls eru til 38 tegundir kattardýra í heiminum. Kettir lifa villtir í öllum heimsálfum nema í Ástralíu og á Suðurskautslandinu. Þeim er venjulega skipt í litla ketti og stóra ketti. Til lítilla katta teljast húskettir og margs konar villikettir en stórir kettir eru tígrisdýr, ljón, hlébarði, snæhlébarði og jagúar.

Takk fyrir að lesa þetta(ef þið hafið nennt því)..segjið hvað ykkur finnst:)