Finnst fleirum en mér eitthvað athugavert við þetta:

“Franskur köttur aflífaður

Lögreglan á Blönduósi stöðvaði frönsk hjón á húsbíl við Þrístapa í Þingi á mánudag. Ástæða þessa var ekki of hraður akstur heldur það að með í för hjónanna var köttur. Þar sem ólöglegt er að flytja lifandi dýr inn í landið nema að undangenginni einangrun var haft samband við yfirdýralæknisembættið og í samráði við það var kötturinn aflífaður.
Frönsku ferðamennirnir, sem komu til landsins með Norrænu, tóku þessari niðurstöðu afar illa og neyddist lögregla til þess að handtaka þá og gistu hjónin fangaklefa lögreglunnar á Blönduósi þar til starfsmaður franska sendiráðsins kom og ræddi við þau daginn eftir.”
(Tekið af mbl.is)

Að hugsa sér barbarismann! Þarna eru ferðamenn, sem ég reikna með að hafi ekki vitað betur, og tekið gæludýrið sitt með sér í fríið í góðri trú. Löggan, takk fyrir, pikkar dýrið upp og drepur það!
Fólkið hafði komist þetta langt, þ.e. frá Seyðisfirði til Blönduóss og ef kötturinn hefur á annað borð borið með sér eitthvað smit þá var hann þó búinn að vera í landinu í a.m.k. 5 tíma (að því gefnu að þau hafi keyrt í einum spreng á húsbíl frá Seyðisfirði norðurleiðina).

Þegar fólk flytur inn dýr kemur það til Keflavíkur með flugi, er flutt til Reykjavíkur og þaðan er flogið með það norður. Ég veit ekki hvað gengur á þar, en eftir minni bestu vissu er enginn flugvöllur í Hrísey (leiðréttið mig endilega ef þetta er vitleysa), þannig að flytja þarf dýrið sjóleiðis frá Akureyri. Segjum sem svo að þetta tiltekna dýr beri með sér eitthvert ægilegt smit. Þá er nú aldeilis búið að þeyta því smiti út um allt í öllum þessum tilfæringum! Alveg örugglega meira en fólkið með kisuna sína í húsbílnum gerði.

Og ekki nóg með að dýrið sé myrt vegna fávisku eigendanna, heldur er þeim sjálfum stungið í steininn! Ég verð nú bara að segja fyrir mitt leyti að mér finnst afar skiljanlegt að fólkinu hafi orðið frekar illa við það að ferðafélagi þeirra hafi bara verið myrtur rétt si svona.
Hefði ekki verið hægt að bjóða þeim að stinga kvikindinu í einangrun þar til þau yfirgæfu landið?

Er þessi einangrunarstefna nú ekki full fasistaleg?

Leyfið mér aðeins að skálda smá sögu hérna:
Segjum sem svo að ég hafi búið í Þýskalandi, en sé að flytja heim aftur. Mér þykir afskaplega vænt um köttinn minn, en sé mér einfaldlega ekki fært að bunga út hundruðum þúsunda til að hafa hann með mér. Hann er því gefinn á heimili mikils kattaunnanda sem á tvo ketti fyrir. Þar sem ég vil njóta samvista við köttinn minn sem lengst þá er það mitt síðasta verk að fara með hann til þessa kattaunnanda á leið á flugvöllinn. Það er að sjálfsögðu mikið klapp og knús, og sömuleiðis heilsa ég upp á kettina sem fyrir eru á heimilinu. Svo er brunað á flugvöllinn, beint upp í vél og flogið heim til fallega Fróns.
Vinkona mín sækir mig til Keflavíkur og við förum beint heim til hennar, og kattanna hennar tveggja. Þeim klappa ég að sjálfsögðu og knúsa mikið.
Ég spyr bara: Skapa ég, með óþvegnar hendur í sama fatnaði og komst í snertingu við “óargaútlendingana”, eitthvað minni smithættu en franskur köttur í húsbíl? Ætti ekki bara að taka mig og aflífa sökum snertingar við mögulegt smit í útlöndum?

Hvergi þar sem ég þekki til tíðkast sams konar einangrun og gerist hér. Ég skil að vissu marki sjónarmið yfirvalda um að halda þurfi dýralífi og náttúru Íslands óspilltu og heilbrigðu, en væri ekki nóg að sýna fram á viðeigandi bólusetningar og almennt heilbrigði dýranna við komuna til þessarar paradísar sem landið okkar er? Varla eru þeir að hafa áhyggjur af því að stofninn Catus Islandicus útþynnist eitthvað, ella væru aðrar tegundir ekki leyfðar inn í landið, samanber með hross eða kýr.

Hvað ætla þeir eiginlega að gera næst? Stoppa hverja kríu eða lóu sem slysast inn yfir landið og aflífa? Setja upp eitthvað lífhvolf í kringum eyjuna, til að útlend skordýr komist örugglega ekki í snertingu við okkur?

Mér finnst að þessa stefnu verði að taka til endurskoðunar, þetta er löngu orðið úrelt og með auknum samgöngum í síðari tíð er ómögulegt að ætla sér að útiloka alla smithættu algerlega.

Frá ferðamannasjónarhorninu hef ég aðeins þetta að segja:

Ísland, sækjum það heim!