Alltaf annað slagið er að koma upp sú umræða hér á huga.is, hvort kettir eigi að ganga lausir eða ekki og hvort það eigi að leyfa hunda í þéttbýli. Þetta er allt spurning um hvernig við viljum hafa umhverfið sem við búum í. Mannveran er ein af mörgum tegundum dýra sem búa hérna á jörðinni. Við mennirnir erum jú ansi dómerandi en mér finnst samt að við verðum að taka tillit til og bera virðingu fyrir náttúrunni. Í dag erum við að berjast við allan þann skaða sem við höfum gert náttúrunni með mengun á síðustu öldum. En hvernig er það með dýrin… viljum við hafa önnur dýr á jörðinni??
Ég hef tekið eftir því, að það er að alast upp kynslóð sem fær aldrei að komast í návígi við dýr. Ég veit um dæmi þar sem 5 ára krakki varð alltaf logandi hræddur þegar hann sá hund/kött úti á götu og þurfti að taka stóran sveig framhjá… er þetta eðlilegt? Hræðsla við dýr er auðvitað eðlileg ef viðkomandi hefur aldrei fengið að kynnast þeim.

Fyrir mitt leiti finnst mér það hafa gefið mér mjög mikið að hafa fengið að umgangast og eiga gæludýr. Ég fór í sveit á sumrin og fylgdist með sauðburði, fór og gaf hestunum brauð og þess háttar. Ég hef átt fiska, hund og nú á ég ketti. Mér finnst ofsalega notalegt þegar ég er ein heima að hafa kisurnar mínar til þess að kúra hjá yfir sjónvarpinu og tala við. Nú hljóma ég kannski eins og gömul kona sem á einga vini eða ættingja bara ketti. En það er nú einmitt það… það er til svo rosalega mikið af einmanna fólki sem á engan að. Einn hundur getur skipt sköpum fyrir gamla mannin sem er komin á eftirlaun, á enga ættingja til að heimsækja, en getur þó alla vega farið einu sinni á dag út að ganga með “elsta vin mannsins”… hundinn.

Segjum sem svo að nú væri árið 2030. Það væru mörg, mörg ár síðan öll gæludýr hefðu verið bönnuð í þéttbýli. Fólkið sem býr í borginni þekkir ekki einu sinni hugtakið gæludýr… þau dýr sem það sér þegar það fer í sunnudags flugbíltúr út úr bænum, finnst því vera sjónmengun. Það fær hreinlega hroll við tilhugsunina að koma nálægt þessum ferfætlingum. Í sunnudags-dagblaðinu í þessari framtíðarsýn, kom grein um fuglavandamálið. Í þessari grein var verið að ræða hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að fuglarnir flygu yfir borgina og drituðu út um allt og kom þá helst til greina að setja upp stór net upp í loftinu við bæjarmörkin til þess að veiða þá. Nú og svo væri líka bölvuð hávaðamengum af þessum skógarþröstum þegar þeir syngja á sólríkum sumarmorgnum.

Þetta er nú kannski alger vitleysa sem ég er að skrifa núna. Sumir myndu nú kannski halda að þetta væri nú eitthvað sem myndi aldrei geta orðið. En hvað veit maður!?
Mín skoðun er sú að ég vil hafa dýr í kringum mig. Ég vil ekki þurfa sýna barnabörnunum mínum myndir af ketti í bók og reyna að útskýra tilgang hans… ég vil að þau komist að því sjálf.