Á að eyrnamerkja ketti? Eyrnamerking er varanlegt kennimark sem auðvelt er að framkvæma meðan kötturinn er í svæfingu t.d fyrir geldingu. Á köttum eru kenninúmer yfirleitt merkt í eyra. Kettir geta týnt lausum merkjum á hálsól, en eyrnamerking fylgir þeim ávallt. Einnig er hægt að örmerkja ketti. Það er örlítill kubbur, sem er settur undir húð. Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að kettir skulu merktir.

Þarf að hreinsa tennur katta? Hafi kettir slæmar tennur verða þeir andfúlir. Þar sem tannsteinn safnast á tennur katta með tímanum er algengt að gamlir kettir hafi slæmar tennur. Tannsteinn orsakar bólgu í tannholdi (gingivitis) og gómar dragast saman og minnka. Þetta veldur oft sýkingu í tannrótinni (periodontitis) og þar kemur að tennurnar losna og detta úr að lokum. Þar sem þetta er sársaukafullt fyrir köttinn er best að láta fjarlægja tannsteininn áður en tannholdið er orðið mjög bólgið. Vitaskuld tekur tannsteinn aftur að safnast á tennurnar eftir að þær hafa verið hreinsaðar og því er gott að gefa kettinum mat sem reynir svolítið á tennurnar og hægir á tannsteinsmyndun. Þurrfóður hentar vel í þessu skyni. Einnig gæti kettinum þótt gott að naga eitthvað hart, svo sem bita af steikarpöru eða þess háttar. Sjá nánar (enska)


Af hverju sjúga sumir kettlingar ull? Er það hættulegt?
Rétt eins og ungbörn þykir kettlingum gott að sjúga, jafnvel eftir að búið er að venja þá frá móður sinni. Sumir kettlingar taka upp á því að sjúga ýmiss konar efni, einkum ull. Þetta ætti helst ekki leyfa þar sem kettlingurinn gleypir þræði úr ullinni sem geta valdið harðlífi eða þarmastíflum. Best er að fjarlægja efnið sem kettlingurinn vill sjúga ef það er hægt. Því hefur verið slegið fram að kettlingar sjúgi fremur ull þegar þeir eru svangir eða ef þeir fá ekki nóg af *fíberefnum í mat sínum. Reynandi er að gera tilraunir með breytingar á mataræði og athuga hvort það kemur að gagni - stundum er gott að gefa þurrmat með öðrum mat til að bæta úr þessu. Hægt er að gefa aukaskamt af *fíberefnum, svo sem *hveitiklíð, blandað í matarskammtinn.


Kisa er farin að pissa utan kassans? Ef kötturinn er geltur, eru það oft mótmæli vegna einhverra breytinga í umhverfinu eða á heimilinu, sem orsakar breytingu á hegðun, oft til að fá athygli. Stundum getur þó verið um einhvern sjúkdóm að ræða. Ræðið við dýralækninn, það er oft hægt að meðhöndla köttinn.