Nú veit ég ekkert hvar þetta á best heima, á korki eða hér, en ég er að fiska eftir sem flestum svörum og vil fá sem flest álit á þessu, svo ég vona að mér sé fyrirgefið þótt ég klíni þessu hér.

Er einhver sem veit hvernig best er að kenna köttum hluti, öllu heldur venja þá við eitt og annað. Ég hafði hugsað mér að hafa köttinn minn innikött, hreinlega hans vegna, lífslíkur útikatta eru svo margfalt lægri, sjúkdómar tíðari, slagsmál, þjófnaðir, óprúttnir nágrannar, grimmir krakkar og fleira og fleira…

Á sama tíma er ég ögn hrædd um að veslings kvikindinu gæti leiðst óhugnanlega mikið að fá aldrei tilbreytingu í lífernið, og ég vil þess vegna kenna honum að ganga í beisli og vera í bíl. Ég veit um fólk sem hefur kisurnar sínar með í útilegu og hvaðeina, hefur þær bara í beislinu og í búri í bílnum og þess háttar. Er einhver þarna sem hefur reynslu af þessu?

Hvað finnst ykkur annars um að gera þetta? Ég verð að játa að mér finnst þetta vera dálítið þversögn við eðli kattarins, að vera í bandi, en veit að það er gerlegt. Ég vil hafa köttinn innikött, en hugsa samt að hann hefði gott af því að komast út í fríska loftið undir eftirliti mínu. Eins veit ég að ef kettir eru rétt vandir á að vera í bíl þá er það minnsta mál að taka þá með sér hvert á land sem er. En þá er líka spurningin: hvernig er rétt að fara að þessu eða er ég jafnvel ekki að gera honum neinn greiða með að vilja venja hann á þetta?

Ekki vildi ég lifa lífinu ef ég sæi fram á næstu 10-15 árin innilokuð í 100 fermetrum!

Öll álit vel þegin.