Saga sem mér var send í pósti….

Þetta byrjaði eiginlega allt með því að ég át gullfiskinn Ugga. Það var þannig að ég var eina húsdýrið á heimilinu. Jónbi litli keypti mig þegar ég var kettlingur af því að hann var ný orðinn 7 ára. Pabba Jónba leist ekkert á að fá kött inn á heimilið en hann fékk bara að reykja vindlana sína inni í stofu í staðinn. Ég og Jónbi vorum voða góðir vinir og lékum okkur oft saman með hnykli eða bréfi. Mér fannst voða gaman að tæta bréfið niður eins og pappírstætari. Jónbi átti alltaf nóg af blöðum sem á stóð Melaskóli og 3, 4 eða 5 efst í horni með rauðum stöfum, hvað sem það nú þýddi. Svo voru það þessi skrýtnu bréf sem komu inn um bréfalúguna. Þegar maður tætti þau í sundur þá komu út svaka flottir renningar út um allt, gulir, hvítir og bláir. Þessi bréf kallaði Nonni, pabbi Jónba, reikninga, að minnsta kosti þegar hann öskraði að helvítis kötturinn væri búinn að eyðileggja reikningana.
Einu sinni þegar Nonni kom heim þá hafði hann eitthvað skrýtið undir hendinni.
- Hæ, hæ. Vitið þið hvað?? ÉG vann páfagauk í bingói í vinnunni.
- Vá pabbi, má ég eiga hann.
- Nei, þú færð hann ekki, ÉG á hann.
Mér fannst persónulega ekkert varið í Kalla. Ég sá það í sjónvarpinu með honum Jónba að kettir eiga að éta fugla og fiska. Mér fannst það alveg sjálfsagt að éta hann.
- Kalli…….Kalli!!!?
- Hvað er að pabbi?!
- Ég finn ekki hann Kalla…hva?!!? Af hverju eru fjaðrir í kattarkörfunni??!
- Nú það er vegna þess að….
- Hann hefur ÉTIÐ páfagaukinn MINN!!!!!!
- Úbbs
Nonni varð alveg brjálaður út í mig. Hann réðst á mig og kreisti mig og píndi eins og hann ætlaði að fá mig til þess að skila Kalla. Sem betur fer kom konan hans heim, hún Auður, og stoppaði hann af þegar hann var búinn að binda mig við eldhúsið og ætlaðir að fara að skera mig upp. Nonni var lengi að ná sér eftir páfagauksmissinn.
Eitt kvöldið kom Nonni heim með voða stóran kassa í fanginu.
- Hei, vitið þið hvað?! Ég vann gullfisk í happdrættinu í vinnunni í dag.
- Vaaaúúúú!!! Má ég eiga hann!!!
- Nei, ÉG ætla að eiga hann.
- Ooo pabbi, en ég viiiil eiga hann!!
- Kemur ekki til mála.
Búrið sem fiskurinn var í var opið og óvarið fyrir þyrstum flugum og ryki til að setjast á vatnið. Þessi gullfiskur var mjög sólginn í flugur. Eitt sinn þegar stór og pattaraleg fluga settist á yfirborð vatnsins þá þaut hann af stað upp og gleypti fluguna. En hann fór allt of hratt því hann skaust upp úr búrinu og beint niður á gólf
- Hvað var þetta?
- Ég veit það ekki.
- Hei sjáðu pabbi, fiskurinn þinn er stokkinn upp úr fiskabúrinu sínu!
- Já, en skrýtið…hei…hei, farðu frá honum köttur…nei ekki, ekki borða gullfiskinn minn!!!
Ég, sem var voða lipur og snöggur köttur var nú ekki lengi að stökkva á fiskinn og éta hann. Eftir á að hyggja held ég að ég hefði átt að láta það ógert. Pabbi hans Jónba varð sturlaður og rauk út úr stofunni. Hann birtist aftur með riffilinn sinn sem hann geymdi í leigubílnum sínum ef einhver vildi ekki borga. Hann miðaði honum á mig og skaut. Ég kipptist allur við og stökk til hliðar. Skotið hitti löppina mína og gerði voða stórt gat á parketið.
- Hei, hvað ertu að gera pabbi?! Ætlar þú að drepa köttinn minn??!!!
- Já hvort ég ætla. Hann át gullfiskinn, gullfiskinn MINN!!
Þá kom Auður inn í stofuna eins og eitt stórt spurningarmerki í framan.
- Hvað varst þú að gera Nonni minn?!?!
- Ö…ég…öö…ekkert. Bara að reyna að drepa köttinn.
- Æ, auminginn! Hann er með gat á löppinni.
Auður sem er alveg ágætis hjúkka réðst á mig með sjúkrakassann og batt mig allan í sárabindum og límdi á mig plástra. Mér leið ekkert voða vel en reyndi að vera hetjulegur og harka þetta af mér. Um kvöldið var ég kominn með mikinn hita svo að Jónbi setti mig bara inn í ísskáp til að kæla mig niður. Það voru voða góðir ostar þarna inni, en ég hafði séð það í Tomma & Jenna að mýs borða bara ost en ekki kettir. Mig langaði til að prófa eitthvað nýtt svo ég fékk mér bita. Það hefði ég ekki átt að gera.
- Dæ, dæ….NEI hvað í andsk#§¤©Ñ¦¥@¤¢&%ç¡ Er kattar ófétið inni í ísskápnum og búinn að æla yfir allt. Aldrei getur maður fengið sér nætursnarl í friði (stuna). Hann hefur étið allan gráðsostinn sem átti að vera í veislunni á morgun. Sko nú gekkstu of langt!!!
Hann réðst á mig, algjörlega varnarlausan samanbundinn með sárabindum. Hann setti mig í poka og hljóp með mig út. Þar setti hann nokkra vel valda steina ofaní til mín. Ég fann ekki fyrir neinum óþægindum fyrr en ég skall á einhverju hörðu. Allt í einu fór vatn að flæða inn í pokann. Hann hafði þá hent mér í ána. Nú held ég að hann sé ánægður að hafa losnað við köttinn. Hann situr örugglega núna og reykir stóran vindil í nýja sófanum, sem hann neyddist til að kaupa þegar ég var búinn að klóra svo mikið í þann gamla að það var farið að sjást í gegnum hann. Jónbi situr líklega dapur í herberginu sínu að skoða myndir af okkur í sumri og sól. Hann gæti líka verið búinn að kaupa sér nýjan kött, hver veit? En eitt veit ég. Ég ligg hér á botni þessarar djúpu og straumhörðu ár eins og týndur sófi úti í endalausri eyðimörk fullri af vatni.

*tár*
lakkris