FORMÁLI
Sóley er frænka mín og Tommi er sonur hennar og frændi minn. Sóley skrifaði söguna fyrir mig og hér kemur hún:

Undanfarna viku var kisa búin að vera rosalega góð við mig og Tomma. Alltaf þegar Tommi var á brjósti kom hún og kúrði utaní okkur og svaf uppí rúmi hjá okkur á nóttunni. Hún var líka mjög hrifin af Önnu. Þetta er allt mjög skrýtið af því að hún hafði ekkert verið hrifin af fólki áður.

Á mánudagsmorguninn, um kl. 8 (þegar kisa var komin 66 daga á leið) sat ég frammi í sófa á Álfhólsvegi og las. Hún kom til mín, hringaði sig á lærunum á mér og byrjaði að herpast öll til. Ég sá strax að hún var að fara að fæða, enda kom fljótlega smá blóð aftan úr henni. Mér fannst frekar ógeðslegt að fá allt blóðið og svona beint á mig svo ég setti teppi ofan í bala og lagði hana ofaní. Hún var ánægð með það en vildi að ég væri hjá henni og klappaði henni. Ég fór og fékk mér brauðsneið einhvern tímann í ferlinu og hún vældi á eftir mér og reis upp til að segja mér að koma aftur.

Um kl. 10 um morguninn kom svo lítill poki út sem sprakk og þá sást í trýnið á kettlingi. Stuttu síðar kom fyrsti kettlingurinn, hrikalega lítill og blautur en sætur. Kisa sleikti hann og þreif allt í kringum sig, át fylgjuna og slímið og allt sem fylgdi með bestu lyst (oj!). -Svo biðum við og biðum, kisa lagðist bara útaf með kettlinginn sinn og sleikti hann og gaf honum mjólk úr spenunum sínum og ekkert gerðist. Eftir 4 klukkutíma hringdum við í
dýralækni og spurðum hvort hún gæti virkilega verið bara með einn kettling. Hann sagði að það gæti verið en líklegast væri þó að hún ætti eftir að eignast fleiri og það gæti gerst eftir sólarhring þess vegna. -Við héldum áfram að bíða.

Kl. 8 morguninn eftir fór ég með kisuna og kettlinginn á dýraspítalann til að láta athuga hvort það væri nokkuð dáinn kettlingur eða eitthvað inni í henni. -Nei, svo reyndist ekki vera, hún var bara með einn kettling og það var líka alveg nóg.

Kettlingurinn er læða, bröndótt og hrikalega sæt. Hún er enn ekki farin að opna augun, skríður bara um og notar lyktarskynið til að finna spenana á mömmu sinni. Þegar mamma hennar fer frá henni til að pissa eða fá sér að borða vælir litla læðan hrikalega og kisa fer strax til baka til að hugga hana.

Það sem mér finnst skrýtnast er að hún hugsar líka um Tomma, sleikir á honum hausinn og er alltaf að strjúka sér utaní hann. -Dýralæknirinn sagði að þetta væri algengt, kisur hugsa saman um afkvæmi sín og hún lítur svo á að við séum saman í liði að ala upp börnin okkar, Tomma og litlu læðuna. -Ég má alveg taka litla kettlinginn hennar og knúsa hann og allt. -Mér finnst það náttúrlega dáldið skemmtilegt að vera svona vinsæl hjá Birtu.

Jæja, þá ættirðu að vera kominn með smá hugmynd um hvernig þetta var, mér fannst þetta alveg æðislegt fór að hágráta þegar kettlingurinn kom loksins, bara eins og fæðst hefði barn…

Heimild: Sóley Tómasdóttir frænka mín
Moo. Moo. Moo.