Úff púff…
Það er greinilega ekki auðvelt mál að eignast kettlinga! Eftir miðnætti í gærnótt þá virtist sem allt væri að fara í gang hjá Snældu kisunni minni. Líknarbelgir, vatn og slím fóru að birtast og átti ég þá ekki von á öðru en ég yrði orðin kettlingaamma áður en dagur rynni. En svo fór nú ekki. Eftir miklar rembingar, más og blás var bara allt í einu allt stopp og kisa varð hin rólegasta á ný. Mér leist ekki á blikuna þegar 2-3 tímar höfðu liðið í þessu kæruleysi svo að ég hringdi í dýralækni (sem var merkilega fersk í símann miðað við að klukkan var að nálgast 5 að morgni til :D) Hún ráðlagði mér að bíða bara fram á morgun sem ég og gerði. Ætlaði að næla mér í smá blund í rúminu mínu en var strax sótt af kisu sem gerði mér það alveg ljóst að ég átti að vera hjá henni. Ég náði því bara í sængina mína og aukasængina og kúrði á gólfinu fyrir framan fataskápinn þar sem hún hefur bæli sitt. Um 10 leytið í gærmorgun fór svo aftur að bera til tíðinda.. meiri belgir og meira slím og vatn. Eftir töluverð átök birtist svo skott (!) í miðju sullumbullinu. Ég dró því þá gáfulegu ályktun að kisulingurinn hlyti að snúa öfugt. Snælda mín rembdist og rembdist en ekkert gekk, því ákvað ég að ónáða dýralækninn aftur og hún ráðlagði mér að setja hana bara í kassa og koma með hana. Ég gerði það, þrátt fyrir kröftug mótmæli kisu sem ætlaði EKKI að fara úr bælinu sínu og í einhvern kassa. Ég skellti henni útí bíl og lagði af stað, ekki leið þó á löngu þar til ég heyrði mjög skerandi tíst í kassanum og viti menn, kettlingurinn var kominn í heiminn! Ég bjallaði í dýralækninn enn á ný og hún sagði mér að fara bara heim aftur, nú hlyti þetta alltsaman að ganga. Við kisa fórum þá heim og ég beið spennt eftir restinni af kisulingunum. En ekki gekk það nú svo auðveldlega. Þegar liðið höfðu næstum 5 tímar og ekki höfðu enn komið fleiri kettlingar ákvað ég að hringja enn einu sinni í dýralækninn. Hún sagði mér að koma bara með kisu og ég stakk þeim mæðginum eða mæðgum aftur í kassa og brunaði niðreftir. Þar fékk Snælda mín sprautu til að flýta þessu aðeins og aðeins um 45 mínútum eftir að við komum heim kom annar kettlingur í heiminn. Það gekk fljótt og vel fyrir sig, annað en kettlingur númer þrjú sem kom með skottið á undan eins og sá fyrsti. Það tók langan tíma og mikil átök að koma því greyi í heiminn og í fyrstu hélt ég að hann væri dáinn. Mér tókst þó að koma smá lífi í hann en var viss um að hann væri lamaður þar sem hann hreyfði sig ekki bofs. En smám saman færðist örlítill kraftur í þennan litla búk og hann fór aðeins að sprikla og gefa frá sér það veikasta og krúttlegasta hljóð sem ég hef nokkurntíma heyrt. Ég er samt ekki viss um að hann muni lifa af, hann er svo máttlaus og framtakslítill, leitar ekki að spena eða neitt eins og hinir. Hann virðist þó aðeins vera að taka við sér núna, virðist allavega sjúga smá ef ég legg hann á spenann. Ég ræddi þetta við dýralækninn og hún ráðlagði mér að gefa honum pela ef hann fer ekki að verða duglegri við þetta. Sá fjórði kom svo hratt og vel og mikið óskaplega var Snælda ánægð þegar þessu var lokið. Þeir eru allir voðalega fallegir og sætir. Sá fyrsti er mjög líkur Snældu nema aðeins meira dökkt í honum en henni. Númer tvö er alveg dökkur (veit ekki enn hvort hann er svartur eða grár) nema með hvítt trýni og hvítt á maganum. Sá þriðji, þessi veikbyggði, er svart- og hvítflekkóttur og jafnvel smá bröndóttur. Fjórði er svo svartur á baki og höfði með hvítar framlappir og hvítan kvið. Ég hef ákveðið að leyfa þessum dúllum að lifa þannig að ef ykkur vantar lítinn sætan kettling þá vitiði við hvern þið eigið að tala :) Ef þið hafið áhuga endilega sendið mér póst á netfangið cometomaria@hotmail.com.