Mig langaði bara til að segja ykkur frá henni Vænu minni. Þetta er löng saga sem hefur engan tilgang annan en að heiðra kisuna mína, svo þið þurfið ekkert að lesa hana frekar en þið viljið.

Systir mömmu átti kisu, sem hét Dýra en hún kom í pössun til okkar kettlingafull. Enginn man alveg nákvæmlega hvenær þetta var og þar af leiðandi hvað Væna er gömul en við munum að hún fæddist um páska og að það hefur verið í kringum 1987-89, þannig að hún er um það bil 13-15 ára gömul.

Dýra átti fimm kettlinga, sem fengu nöfnin:
Viskí: af því hann er svartur og hvítur og það er til viskýtegund, sem heitir Black and White.
Marco Polo: af því hann var alltaf að fara í leiðangra og týnast inni í skáp og svoleiðis
Valla: af því hún var minnst og var því nefnd eftir minnsta fjölskyldumeðliminum
Tarsan: af því honum fannst svo gaman að fara upp í stofugardínur og sveifla sér þar.
Væna: af því að hún hafði engin áberandi karaktereinkenni eins og hinir kettlingarnir og við sögðum alltaf „komdu hingað væna mín“ og allt í einu var þetta bara orðið nafnið hennar.

Amma fékk Tarsan og vandi hann af því að klifra í gardínunum en hann var síðan keyrður niður einn slæman vetrardag.
Pálmi frændi fékk Viskí og þeir eru enn bestu mátar þó að Pálmi hafi þurft að láta hann frá sér til ömmu, vegna þess að hann er sjómaður, sko Pálmi ekki Viskí!
Valla fór til besta vinar Völlu
Marco Polo var gefinn einhverjum ókunnugum og fékk nýtt nafn.

En enginn vildi Vænu! Ástæðan var sú að rófan á Vænu lá einhvernveginn upp að bakinu á henni og því var Væna litla hálfvansköpuð. En falleg er hún engu að síður. Enn þann dag í dag horfi ég á hana og hugsa hve falleg hún er. Hún er hálfur norskur skógarköttur og loðin eftir því, með rauða húfu á höfðinu og svo er feldurinn brún-rauð-grá bröndóttur. Hún er mjög smávaxin og hefur alltaf verið og eyrun eru alltaf eins og á kettlingi, (þið vitið svona sperrt upp í loftið og krúsídúlluleg) þannig að mér finnst eiginlega alltaf eins og hún sé bara kettlingur.

Væna er ekki sérstaklega gælin köttur og hún vantreystir fólki og hleypur í burtu við hið minnsta. Hún snýr til dæmis aldrei baki í neinn þegar hún borðar og leggur líka alltaf eyrun niður þegar hendi er haldið fyrir ofan höfuðið á henni og henni er meinilla við að það sé haldið á henni. Hún þarf alltaf að geta fundið að hún geti farið þegar hún vill og því liggur hún yfirleitt við hliðina á þeim, sem klappar henni í stað þess að liggja í kjöltunni eins flestir aðrir kettir.

Þetta eru afleiðingar af því að þegar hún var hálfstálpuð þá þvældist hún inn í hús hjá kattahatara, sem misþyrmdi henni og næstum því sleit af henni vinstri afturlöppina. Einhvernvegin skreið hún heim og vældi fyrir neðan gluggann minn þar til ég fór út og sótti hana. Fyrir hálfgert kraftaverk þá lifði hún þetta af en til þurfti stóraðgerð og langan tíma í sjúkralegu.

Enda þótt hún sé ekki sérlega gælin þá er hún samt alltaf góð og klórar aldrei, ekki einu sinni þegar farið er með hana til dýralæknis, þá vælir hún bara og hjúfrar sig upp að mömmu sem alltaf neitar að vera í hönskum, því hún veit að Væna klórar aldrei og það hefur hún heldur aldrei gert, þrátt fyrir að hún hafi fengið margar sprauturnar í bossann.

Væna er rosalegur veiðiköttur og þó hún sé nánast með kúabjöllu í ólinni þá tekst henni að veiða fugla og mýs eins og ekkert sé.
Einu sinni var hún algjör plága því hún fór alltaf út og veiddi ánamaðka (þvílíkt stórar beitur) og kom með þá inn í lafandi í munnvikinu og skildi eftir á gólfunum þar sem maður steig á þá, ýmist slímuga eða hálfþornaða, berfættur eða á hvítum sokkunum. Svo skildi hún ekkert í skömmunum og fór móðguð í burtu.

En nú held ég sé mál til komið að ljúka sögunni af henni Vænu minni.
Gaman væri kannski að fá lesa kattasögur frá öðrum.

Gerdam