Smá reynslusaga af fallegum villiketti.

Ég hef alltaf verið mikill kisumaður, og eftir því sem ég eldist því vænna þykir mér um ketti og því meira fara hundar í taugarnar á mér. Þannig er ég bara. Ég er leiður á þessu sífellda gjammi í blessuðum hundunum. Mér hefur líka alltaf fundist samband hunds og manns minna mig á samband þræls og húsbónda, fremur en nokkuð annað. Jæja, en þetta er bara minn smekkur. Ekkert flóknara en það. En ég er kominn út fyrir efnið. Hér kemur sem sagt sagan af villikettinum og mér:

Ekki fyrir alls löngu síðan, bað nágrannakona mín mig að líta eftir villiketti sem hún var vön að gefa að borða. Hún átti innikött sjálf, og gaf þessu dýri að borða öðru hvoru út í garðinum sínum. Hún var að fara í burtu í tæpa tvo mánuði til að aðstoða foreldra sína í veikindum þeirra.

Ég tók vel í það, og daginn eftir keypti ég kattamat til að geta staðið mig í stykkinu. Blessuð læðan áttaði sig fljótt á því að matarúthlutunarnefndin hafði fært sig um set; þ.e.a.s. yfir í næsta garð. Ég keypti blómapott úr leir fyrir matinn og glerskál fyrir vatnið og gaf henni reglulega að borða í garðinum og passaði að hafa ferskt vatn handa henni þegar hún kæmi í fæðuleit.

Hún var afar vör um sig og passaði sig, lengi vel, að koma ekki nálægt mér. Ég ályktaði sem svo að reynsla hennar af mannfólkinu hlyti að hafa verið erfið því að traustið var veikt þó svengdin væri mikil.

Smám saman fór hún að taka fleiri “sjensa” og eftir allnokkra daga tókst mér að snerta hana í örstutta stund.

Þetta var í sumar. Núna er hún fastagestur hjá mér og dvelur stundum hjá mér nokkra sólarhringa í senn þ.e.a.s. inni í íbúðinni hjá mér. Hún er viðkvæm og mér virðist henni stundum dreyma illa. Hún sefur í besta stólnum mínum (ég setti handklæði yfir hann og passa að bælið hennar sé ávallt til reiðu þegar hún þarf á að halda) og hún er farinn að treysta mér. Ef hún vaknar við illan draum þá hleypur hún til mín mjálmandi og stekkur í fangið á mér. Það þykir mér afar vænt um enda fær hún alla mína hlýju þegar þannig stendur á. Svo róast hún og sofnar í fanginu á mér. Blessuð skepnan :) Í gærkvöldi hoppaði hún í fyrsta skipti upp í rúm til mín og kúrði hjá mér drykklanga stund. Hún fékk auðvitað blíðu og strokur í ábót.

Stundum hverfur hún í allt upp í sólarhring en kemur alltaf aftur til að fá umhyggju og eitthvað í svangin.

Ég hélt að það væri ekki hægt að vinna traust villikatta á þennan hátt. Það kom mér skemmtilega á óvart. Hefur einhver annar, sem les þetta, náð að hæna til sýn villikött/ketti? Það væri gaman að heyra fleiri sögur.

Kveðja,

Hlynu