Sælir, nú langaði mig svona m.a. til að reyna að pumpa smá lífi í Jeppadálkinn hér að spyrja ykkur hvað hefði verið eftirminnilegasta eða bjánalegasta jeppaferð sem að þið hefðuð farið í, t.d. þar sem einföldustu hlutir klikka og gera ferðina eftirminnilega. Svona til að byrja þá segi ég frá “jeppaferð” sem að ég og bróðir minn fórum í fyrir tæpu ári síðan á minni fyrstu jeppadruslu.

Við bræður fórum upp í bláfjöll að prufa drusluna. Þetta var Ramcharger á 44" sem mér hafði áskotnast tiltölulega ódýrt og við urðum að prufa hann, þannig að við truntuðum upp í bláfjöll og keyrðum eftir línuslóða með allt á fullu. Bíllinn var að virka helvíti vel í þeim litla snjó sem var og allt gekk eins og í sögu. En þá byrjaði föndrið, þá kom það í ljós að bensíndælan var orðin mjög döpur og hún náði ekki bensíninu upp, og rafgeymirinn var eftir því dapur og við urðum rafmagnslausir stuttu síðar lengst uppfrá í bláfjöllum. Við vorum ekki forsjálli en svo að við höfðum ekki einu sinni skrúfjárn með okkur hvað þá annað.
Við urðum að hringja í bæinn og fá félaga okkar til að koma og bjarga okkur með verkfæri og start. Svo í ofanálag vorum við það illa klæddir líka að við urðum að eyða þeim klukkutíma sem það tók strákana að koma og bjarga okkur í að labba upp á bláfjallaafleggjarann. Þetta reddaðist nú allt á endanum, en þetta var nú ekki alveg skemmtilegasti hlutur í heimi þegar á þessu stóð, en svona uppákomur gera það víst að maður man eftir þessu og að maður lærir hvað er gott að hafa með í ferðir, þó stuttar séu.

Þetta var mín bjánalegasta reynsla af jeppamálum í ferð, og nú vonast ég til að aðrir sjái sér fært að deila með okkur sínum reynslusögum.