Áður en við vitum af verður kominn vetur. Ég er einn af þeim sem á stærri jeppa en bílskúr þannig að viðhald jeppans á sér stað utandyra. Það er óviðjafnanlegt að gera við utandyra að vetri til, kaldur með frosna putta. Því er það einmitt nú, snemma hausts, sem rétti tíminner til að undirbúa jeppan fyrir veturinn (ef þú ert ekki þegar búinn að því).

Hér á eftir fylgja ráðleggingar sem ég fékk meðal annars að láni á http://www.chuckschevytruckpages.com/winter.html ásamt gáfulegu innleggi undirritaðs :)

Vetrarundirbúningur:
Smyrja framendann (hjöruliðskrossa ofl.) og athuga með slit, skipta um olíu á mótor og smursíu.
Ekki er vitlaust að smyrja fleira fyrst maður er hvort sem er orðinn skítugur. Gott er að smyrja við allar hurðir, alla lása og ekki má gleyma lásnum við húddið.

Skipta um kerti og athuga þræði (og mætti jafnvel skoða kveikjuhamarinn og lokið). Ef kveikjan er í góðu lagi þá þarf yfirleitt ekki að hugsa mikið um hana (auðveldarar að lifa eftir að maður hætti að þurfa að hugsa um platínur)

Ef frostlögurinn er farinn að verða ryðlitur þá er kominn tími að skipta um hann, frostlögur endist ekki endalaust (þó margir haldi það) og eftir nokkur ár fer hann að missa eiginleika t.d. til að forða mótornum frá ryði. Ef þú veist ekki hve gamall frostlögurinn er þá er heillaráð að skipta um hann og skola út kælikerfið. Besta blanda hefur reynst 50% af hvoru, frostlögur er ekki eins góður til að flytja hita eins og vatn svo það borgar sig ekki að nota aðeins frostlög.

Á norðlægum slóðum er það svo nauðsynlegt að láta mæla frostþol kælivatnssins. Það hafa ófáir bílaeigendur komið að vélum sínum frostsprungnum af því að þeir gleymdu þessu smáatriði.

Athuga viftureimar og hosur, skipta um þær eða herða eftir því sem ástæða er til. Ég lenti í því í miklu frosti um miðjan nóvember að viftureim slitnaði, lenti á hinni og skellti henni útaf. Eina sem ég fann var smá kippur í stýrið þegar vökvastýrið datt út. Leit strax á hitamælinn og sá að vélin byrjaði strax að hitna. Þarna sat ég strandaður í kolniðarmyrkri (við endann á Úlfarsfelli) og var að verða of seinn í skólann. Varð að skilja trukkinn eftir og koma síðar. Ég varð því að skipta um viftureimina í hörkugaddi við fjölfarna umferðaræð, mæli ekki með því!

Athuga bremsur, olíu á drifum, millikassa og gírkassa.

Fara yfir öll ljós, ekki slæmt að athuga líka vasaljósið sem ég setti í hanskahólfið um árið og treysti á að sé í lagi þegar á þarf að halda (fátt leiðinlegra en vasaljós án rafhlaðna þegar á reynir).

Þrífa allar rúður og bílinn að innan, skemmtilegra að gera það núna en þegar frostið byrjar að bíta.

Spreyja silikoni á alla hurðarlista (alltaf gaman að koma að frosinni hurð)

Kíkja við á næstu bensínstöð og láta þá athuga rafgeyminn undir álagi.

Nú er rétti tíminn til að setja tvær rúðusköfur í bílinn, af hverju tvær spyr kannski einhver, hafið þið einhverntíma lennt í því að brjóta sköfu á versta tíma (og þurft að nota geisladiskahulstur til að bjarga ykkur ;-)

Setja ísvara í bensíntankinn, ágætt að losna við rakann.

Ekki er svo vitlaust að skella vélsleðagalla, húfu, vettlingum, teppi og kuldaskóm útí bíl, aldrei að vita hvenær maður fer lengri leiðina heim :)

Góður spotti eða stroffa til að draga hina upp ;)

Eflaust er margt sem vantar í þessu upptalningu en þá er bara að bæta því við…..

Þó þetta virðist vera langur listi þá tekur þetta ekki langan tíma, hægt að dunda sér við þetta á laugardagseftirmiðdegi.

Og fyrir ykkur sem eruð svo heppnir að koma jeppunum ykkar inní skúr þá er samt ágætt að fara yfir þessi atriði, skemmtilegra að gera þetta í hitanum í skúrnum en uppá fjöllum í kafalsbyl.

JHG