Unimog Í tilefni þess að ég var að kaupa mér Mercedes Benz Unimog trukk þá datt mér í hug að skrifa smá grein um þau farartæki.

———-Fyrstu áætlanir um smíði fjölnotatækis með fjórhjóladrifi eru gerð af Daimler Benz árið 1942. Það tekur þó nokkur ár til viðbótar þar til frumsmíði slíks tækis verður til. Unnið er við rannsókanir og kannanir á gerð slíks tækis til 1946 þegar fyrsta frumgerð verður til. Jafnframt verður til nafnið Unimog sem stendur fyrir Universal Motor Gerät eða Fjölnota vélknúið tæki.

Fyrstu áætlanir um not fyrir þetta nýja tæki voru að það kæmi sérlega vel að notum við ýmiskonar landbúnaðar vinnu og væri einskonar fjölnota traktor og var því útbúið með aflúttaki til að knýja ýmiskonar tæki s.s. sláttuvél eða önnur heyvinnu og uppskeru tæki.

Síðan að framleiðsla Unimog hófst hefur tækið verið notað í flestallt sem hægt er að ímynda sér að nota slíkt fjölnotatæki til. Verktakar, bændur, bæjarfélög, herir og slíkir hafa notað tækið frá upphafi til dagsins í dag til að sinna sínum verkefnum. Hver man ekki eftir appelsínugulu Unimog 416 bæjarbílunum sem Reykjavíkurborg hafði í þjónustu sinni í mörg ár. Þeir bílar er enn í notkun hjá ýmsum aðilum.

Meðal tækja sem tengd eru við eða hafa verið sett á og knúinn af Unimog eru:

Krani
Spil
Sláttuvél
Sópur
Snjóplógur
Snjóblásari
Slökkvibíll
Vegavinnutæki
Járnbrautavinna
Ferðabíll
Flutningabíll
Fólksflutningabíll
Grafa með skóflu

Unimog hefur verið í stöðugri framleiðslu hjá Mercedes Benz frá 1946 og var framleiddur í Gaggenau verksmðjunni til 2002 þegar að framleiðslan var færð til Neu Wörth.

Vélarafl þeirra var frá 46 hestafla bensínhreyflum í byrjun til fleiri hundruð hestafla trukka í dag. Þeir sem hafa fylgst með Paris-Dakar rally í sjónvarpi hafa líklega séð Unimog fylgdar trukka þar sérútbúna til hraðaksturs með 5 punkta Recaro rally stólum.

Það sem hefur talist sérkenni Unimog er að þeir eru alltaf á stórum hjólbörðum með öflugar niðurgíraðar hásingar. Niðurgírun á hásingu þýðir að miðja hásingu kemur ekki í miðju felgu hjólanna eins og venjan er heldur er á enda hásinganna niðurgírun þannig að hásing er ofar miðju og því sérstaklega hátt undir hásingar og miðju bílsins. Einnig er drif gírun bílanna sérstaklega lág en það má segja að þeir komi með frá verksmiðju innbyggðan skriðgír þar sem bíllin rétt mjakast áfram í lægsta gír sem kemur sérstaklega vel við akstur í erfiðum skilyrðum eða við vinnu þar sem þess þarf. Að grunni til er gírkassi með sex gíra áfram og 2 gíra afturábak með vendigír. Fjöðrun er gormafjöðrun á öllum hjólum.
Ég vona að menn séu einhvers fróðari um þessa skemmtilegu bíla eftir þessa lesningu. Það er mikið til af síðum á netinu um þessa bíla þar margir áhugamenn eru um þessi tæki.
Chevrolet Corvette