Saga Chevy smallblock vélarinnar. Þegar Chevrolet hóf að smíða bíla þá voru þeir knúnir af sex strokka 4.9L (299 rúmtommu) vélum. Bílarnir gátu náð 105 km/klst hraða “án áreynslu” og hröðun var frá 0 km til 80 km/klst (0 til 50 mph) á 15 sekúndum sem þótti gífurlegt upptak á þeim tímum. Nú þykir þetta ekki merkilegt upptak en á þeim tímum (1912) voru Chevrolet bifreiðar með hraðskreiðustu götubifreiðum.

Á upphafsárum Chevrolet var mikið unnið að rannsóknum og þróun tileinkað því að framleiða aflmikla vél fyrir lítinn pening. Fyrsta V8 vél Chevy var kynnt til sögunnar 1917. Þessi 90° ventla í strokkloki hönnun var sett í D útgáfu Chevrolet bílanna sem var síðasta útgáfa af upphaflegu hönnun lengri gerða bílanna. Ekki er ólíklegt að í ´strokklokaloki´ þessa mótors hafi verið upphleypt Chevrolet vörumerki eins og þeirra vélar hafa verið þekktar fyrir.

Átta strokka vélin var einungis í framleiðslu í um 2 ár og hætti Chevrolet framleiðslu þeirra til að hanna fjögurra strokka vél. Það var síðan ekki fyrr en 1929 sem sex strokka vél sá dagsins ljós og V8 vél kom ekki til sögunnar á ný fyrr en hin goðsagnakennda Chevrolet small block var kynnt árið 1955 eða 36 árum seinna.

Eins og flestir Chevy áhugamenn vita þá hafði tilkoma Chevy ´55 mikil áhrif á bílaheiminn þegar hann birtist og að miklu leiti var það vegna hinnar nýju 265 rúmtommu (um 4.35 Ltr)vélar undir húddinu. Vélin var tæknilegur hornsteinn sem breytti ásýnd Chevy á einni nóttu. Nýja vélin var spræk, mjúk, sterk og tók lítið pláss og umfram keppinauta sýna þá var hún mjög létt. Vélin varð þekkt sem Músin (The Mouse motor) og henni jókst afl nokkuð hratt fyrstu árin. Í upprunalegu útgáfu sinni skilaði hún 180 hestöflum en það jókst strax næsta ár í 211 hestöfl í 1956.

Árið 1957 var vélin búinn að stækka að rúmtaki í 283 rúmtommur (um 4630 rúmsentimetra – 4.6 Ltr) og ekki nóg með það þá var vélin líka boðin með beina innspýtingu sem aukabúnað. Með þeim búnaði náði vélin því afreki sem svo margir framleiðendur höfðu reynt að ná en það var eitt hestafl á rúmtommu! Það tókst með 283 Fuel injected vélinni sem var 283 hestöfl.

Síðar komu útgáfur af Small block vélinni sem voru stærri að rúmtaki. Vélar eins og 302 vélin og hin öfluga 350 vél héldu á lofti merkjum Chevrolet með léttar og áreiðanlegar en öflugar vélar.

Um 1970 kom síðan á markað Big block (Rat engine) frá Chevy sem var 400 rúmtommur og síðar voru einnig small block vélar sem voru breyttar fyrir keppnisbíla smíðaðar af stærðum frá 365, 377, 383 og 406 Small block og einnig var 400 cid Small block í boði beint frá Chevy t.d. í Blazer og Suburban.

Árið 1976 kom á markaðinn 305 vél frá Chevrolet sem svar við kröfum markaðarins um eyðslu granna vél og kröfum yfirvalda og minni útblástur mengandi efna frá vélum. 305 vélin var boðinn í flestum útgáfum Chevrolet bíla með vissum undantekningum þó s.s. Corvette og Police Interceptor bílar sem voru með öflugum 350 vélum.

Í byrjun 1990 kynnti Chevrolet til sögunnar svokallaða aðra kynslóð Small block (Gen II) vélarinnar. Sú vél er þekkt sem LT1 og seinna LT4. Vélin var með vélahluta sem ollu minna viðnámi, bakrennslis kælingu og endurhönnuð strokklok ásamt öflugu kveikjukerfi. Þessi vél var fyrst kynnt í Corvette og afkastaði þá 300 hestöflum en var kynnt 1993 í Camaro Z28, Impala SS og Police Interceptor Caprice.

Chevrolet kynnti einnig til sögunnar nýja útgáfu af Chevrolet Corvette í 1990. Sú útgáfa hét Corvette ZR1 og var hönnuð sem samstarfsverkefni á milli General Motors og Lotus. Vélin hét LT5 og var með 4 yfirliggjandi knastása, 32 ventla og 16 kveikjukerti og framleiddi 375 hestöfl. Árið 1993 var vélin endurbætt og framleiddi þá ótrúleg 405 hestöfl.

Mynd: Corvette ZR1

Það var ekki litið framhjá pallbílum Chevy þó ekki væri eins tekið eftir því. En margir 1500 og 2500 bílar voru pantaðir með togmikilli 454 big block vél. Ein útgáfa bílanna var kynnt sem nokkurskonar sportbíls útgáfa (performance version) og var kallaður 454 SS.

Undir húddi 454 SS bílsins var 454 rúmtommu Mark V Big Block V-8 en þrátt fyrir glæsilegt útlit og stóra vél að rúmtaki þá voru hestafla tölurnar ekki í samræmi enda vélin hönnuð sem trukkamótor. Bíllin gerði samt keppinautana órólega og hann dugði mjög vel til þess að flytja rusl á haugana án þess að finna fyrir hlassinu.

Mynd: Chevy 454SS

Í dag eru Vortec og LS sería vélanna að sýna frábær afköst og mjög ásættanlega eldsneytiseyðslu sérstaklega þegar tekið er tillit til afkasta vélanna.

Öflugasta verksmiðju framleidda Chevy small bock vélin í dag er LS7, 427 rúmtommu (7.0 Ltr) vél sem er með stimpilstangir úr titanium, þurrpönnu olíukerfi, og blokk og heddi úr áli. Sú vél framleiðir 505 hestöfl af verksmiðjugólfinu og er í boði í 2006 Corvette Z06.

Vélin dugar til að skutla Corvettunni úr 0 til 100 km hraða á 3.5 sekúndum og fer kvartmíluna á 11.50 sekúndum og áfram í 315 km hámarkshraða sem gerir Corvettuna einn öflugasta sportbíl okkar tíma ef ekki þann öflugasta sérstaklega þegar litið er til verksmiðju fjölda-framleiddra bíla auk þess að Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA) hefur mælt eyðslu þessa bíls í þjóðvegaakstri sem 9.04 Ltr/100km sem verður að teljast frábært afrek fyrir vél sem býr yfir þessari orku að geta skilað af sér yfir 500 hestöflum með því einu að stíga aðeins fastar á bensíngjöfina.

Við enda árs 2005 höfðu um 90 milljón eintök af Chevy small block vélinni verið framleidd. Vélin á sér einstæða og frábæra sögu og virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að hún komi til að eiga sér frábæra framtíð með stöðugri og þrotlausri þróunarvinnu GM sem vinnur stöðugt að nýrri tækni til að vera skrefi á undan keppinautunum með vél sem verður jafnvel knúinn af tilbúnu eldsneyti s.s. Methanól eða álíka.

Ég vona að lesendur hafi haft ánægju að lestri greinarinnar, ég geri mér grein fyrir að hún fjallar ekki beinlínis um jeppa en á þó við þar sem fjöldamargir jeppar eru með þessa vél og þó jepparnir heiti Wyllis eða Toyota eða eitthvað annað þá eru þeir örugglega orðnir betri bílar við það að fá Chevy vél undir húddið ; )

Höfundur er eigandi tveggja small block Chevy véla í Corvettu og Suburban.
Chevrolet Corvette