Það var föstudagskvöld, klukkan rétt að slá sex og nokkrir félagar í björgunarsveitinni Þorbirni voru að gera sig klára í að fara á fjöll. Það hafði verið ákveðið fyrir löngu að fara í ferð um þessa helgi og átti björgunarsveitin pantaðan skála í Hvanngili þessa helgi.

Rétt fyrir hálf sjö lögðu svo af stað 15 manns á sjö bílum. Fyrsta stopp var á Hvolsvelli þar sem fyllt var á olíutanka og steinolía blönduð við vegna þess hversu miklu frosti spáði, þá fengu flestir sér pylsur og rúmlega hálftíma síðar var lagt af stað inn Fljótshlíðina áleiðis inn í Hvanngil. Fljótlega eftir að ekið var af malbikinu komum við að á sem var alveg ísilögð, við bjuggumst nú alveg við því þar sem úti var um 15° frost. Eftir nokkrar tilraunir við rétta vaðið á ánni bakkaði fyrsti bíllinn upp úr þar sem ísinn gaf sig alltaf og fann annan stað yfir ánna þar sem hún var svo vel frosin að ísinn gaf sig ekki. Stuttu seinna komum við svo að annarri á en hún heitir Gilsá. Okkur leist nú ekki vel á hana til að byrja með, virtist vera mjög djúp og á báðum bökkunum voru þykkar og stórar ísbrúnir og því ekki auðvelt að komast yfir. Áin var einnig búinn að breyta farvegi sínum og skola veginum í burtu þannig að við áttum mjög erfit með að finna leið okkar. Eftir 6 ferðir yfir ánna og nokkrum stundum síðar fundum við svo veginn aftur en ekki vandræða laust. Það vildi svo óheppilega til að í síðasta vaðinu fór stýrisdælan í einum bílanna og fór dágóður tími í að reyna að laga það en á endanum var reimin skorin úr og þurfti bílstjórinn að gjöra svo vel að stýra hjálpar laust, svolítið erfitt en skárra en að skilja bílinn eftir.

Næstu kílómetra fór færið að þyngjast og þegar komið var við Einhyrning og Einhyrningsflatir var fyrsti bíll kominn í 6 pund og ekkert nema púður sjáanlegt. Hlíðin sem vegurinn liggur utan í rétt við Einhyrning var fær að þessu sinni en vanalega þarf að vara svolítið mikið úr leið til þess að komast þar framhjá. Eftir hlíðina þyngdist færið en meira og vorum menn komnir niður í 4 pund en ekki þótti ráðlegt að fara neðar þar sem steinar sáust hér og þar standa upp úr snjónum og sumstaðar inn í hjólförunum. Stuttu áður en komið var að markafljótsbrúnni lentum við í vandræðum sökum þess að ekki var hægt að fara út fyrir vegslóðann vegna stórgrýtis til hliðar við hann og þá reyndist okkur erfit að troða snjóinn sem var þegar í veginum, hann var heldur djúpur en við komumst aldrei upp á snjóinn til þess að komast á ferð. Eftir smá basl og nokkrar festur fundum við leið fram hjá þessu en klukkan var orðin rúmlega tvö um nóttina og margir orðnir verulega þreyttir og vildu komast í skála. En áfram héldum við og færið varð bara skemmtilegt, 60 – 70 cm djúpur púðursnjór. Allt gekk eins og í sögu þar til að við komum að Bláfjallakvísl, þar stoppuðum við í smá stund til að skoða vaðið vel og fundum við mjög gott vað þar sem hvorki áin var djúp né bakkarnir brattir. Um nokkur hundruð metrum seinna komum við að Kaldaklofskvísl en hún er þekktur vandræðagemsi og komumst við fljótlega að því. Ákveðið var að senda mann í flotgalla sem var meðferðis ásamt járnkalli út á ánna og kanna aðstæður. Okkur til mikillar skelfingar fór járnkallinn alltaf hæð sína niður um ísinn og þar sem klukkan var orðin fimm um nóttina var ákveðið að leggja sig í bílunum í einhvern tíma og sjá svo til um morguninn.

Klukkan níu næsta morgun voru allir komnir á fætur og menn farnir út að kanna ánna ennþá betur, eftir nokkra stund fundum við stað þó nokkuð ofar en göngubrúin, eiginlega alveg við gilopið þar sem áin var alveg frosin. En allstaðar annarsstaðar var hún opin að einhverju leiti. Eftir mikla athugun og prófanir var ákveðið að senda léttasta bílinn fyrst og fór hann yfir, því næst var þyngsti bílinn sendur yfir og komst hann yfir rétt eins og bíllinn á undan, auðvitað fóru allir sömu leið að lokum. Frá ánni var svo stutt í skálann í Hvanngili og héldum við beinustu leið þangað og þegar skálinn var opnaður sló klukkan tólf á hádegi. Ákveðið var að bíða með að kynda skálann og keyra frekar aðeins lengra í símasamband til að athuga með veðrið. Það leið ekki á löngu þar til það var komið á hreint og spáði alveg kolvitlausu veðri á þessum slóðum. Því var ákveðið að halda bara áfram inn í Álftavatn og þar í gegn og koma svo niður syðra-fjallabakið niður á Hellu. Stuttu eftir að þetta var ákveðið rifnaði dekk en til allrar lukku var varadekk á felgu með í för og var ekkert mál að bjarga því. Á meðan á þessu stóð voru einhverjir bílar að reyna að komast áfram en það gekk hægt, sáum við því fyrir okkur að við yrðum eitthvað fram á kvöld að keyra inn að Álftavatni og niður hinumegin og þannig myndum við lenda í óveðrinu og ekki sjá neitt. Færið kallaði eiginlega á 44” bíl eða bíl með lo gír og enginn svoleiðis var með í för. Eftir stuttan fund var ákveðið að snúa bara við og fara sömu leið til baka. Við vorum svo komnir niður á Hvolsvöll um sexleytið þennan sama Laugardag. Því miður var ferðin svona stutt en allir voru sammála því að þetta hafði verið frábær ferð og mikið ævintýri.

Otti S.
“He's not the Messiah! He's a very naughty boy” - Terry Jones, Life Of Brian