Þegar sett eru stærri dekk undir bíl en gert var ráð fyrir af framleiðanda verður yfirleitt að hækka bílinn með einhverjum hætti. Þetta þarf ekki að gera ef dekkin eru ekki mjög stór en betra er að hafa meira pláss en minna sér í lagi þegar verið er að þvælast um í snjó þar sem mishæðótt er og ójafnt. Ekki þarf svo sem stór dekk til að upphækkun sé eftirsóknarverð. Gott getur verið að lyfta bílnum aðeins svo hann eigi síður á hættu að draga einhvern hluta undirvagnsins í lausum snjónum og þannig orðið vanhæfari til snjóaksturs en ella.

Aðallega voru farnar tvær leiðir í fyrstu. Annars vegar að hækka bílinn á fjöðrum eins og sagt er og hinsvegar að hækka hann á “boddýi” þ.e. að hækka yfirbyggingu bílsins á grindinni. Til að byrja með voru flestir bílar hækkaðir á fjöðrum og var þá fjöðrin færð upp á hásinguna og síðan settur klossi á milli hennar og fjaðrar allt að 4 tommu þykkur. Þetta varð til þess að bíllinn varð mjög háfættur en stór dekk sluppu undir. Á móti kom hinsvegar að hann missti aðra eiginleika svo sem stöðugleika. Þyngdarpunkturinn færðist upp og hann varð mun valtari. Hin leiðin sem menn fóru var að setja 1 til 3 tommu fiber kubb undir festingar á yfirbyggingunni og lyfta henni. Aftur færðist þyngdarpunkturinn, að vísu ekki eins mikið en þetta breytti útliti bílsins nokkuð. Í seinni tíð hefur verið farin sú leið að hækka lítillega á fjöðrum, sömuleiðis á “boddýi” og klippa síðan úr.
Að klippa úr merkir hreinlega að klippa úr hliðum bílsins og rýmka þannig fyrir stærri dekkjum. Þegar það er gert þarf ekki að hækka eins mikið því dekkið rekst ekki í hjólhólfið en það var aðalástæða mikilla hækkana í fyrstu. Síðan eru settir sérsmíðaðir brettakantar sem fela og tengja saman það sem undir er.
Mörgum finnst það skelfileg tilhugsun að taka flunkunýjan bíl og byrja á því að klippa úr honum hálfu og heilu hliðarnar en fyrir jeppamenn er það eins eðlilegt og að láta sérsauma á sig jakka. Það verður þeim mun fallegra sem það er betur gert.