Já sælir kæru félagar. Samkvæmt dagatalinu á að vera komið sumar en það get ég ekki séð, sunnan kaldi og leiðindi hafa hrjáð okkur íslendinga(allavega mig) síðustu daga.

En það var nú ekki það sem ég ætlaði að fjalla um. Heldur ætlaði ég að fjalla um útbúnað á fjöllum. Það vill nú þannig til að í flestum sportum er menn mismunandi útbúnir og er jeppasportið þar engin undanteknin. Ég ætla að skrifa hérna stuttan lista yfir það sem ég tel nauðsynlegt eða sniðugt að hafa í bílnum þegar farið er á fjöll.

Skófla: Getur skipt sköpum að hafa þetta blessaða tæki með sér. Ef maður skilur hana eftir heim þá þarf maður undantekningarlaust að nota hana en ef hún er með eru minni líkur á því. Skóflan gerir lítið gagn ef þú ert fastur. Hún hjálpar þér að leysa bílinn á endanum en það getur tekið tíma, hinsvegar er gott að hafa hana ef einn úr hópnum affelgar til tæmis. Þá er gott að nota hana til þess að moka frá dekkinu svo að það sé auðveldara að koma því upp á aftur. Svo er hún líka góð í það að moka holu inn í skafl ef menn ætla að grilla, steikin er þá gjarnar kölluð skaflasteik.

Járnkarl: Getur einnig skipt sköpum ef menn eru að fara yfir ísilagðar ár, affelga eða bara eitthvað. Járnkarl getur, rétt eins og skóflan nýst í margt. Það þurfa ekki allir að vera með hann, en ágætt ef einn til tveir í hópnum séu græjaðir honum.

Kuldagalli: Mjög sniðugt að hafa svona meðferðis, sérstaklega ef maður er bara á gallabuxunum og í rólegheitunum inn í bíl þegar eitthvað kemur upp á. Félagi þinn missir nefið niður um ís og situr pikk fastur og er búinn að affelga í leiðinni. Ekki málið, þú skellir þér í kuldagallan og aðstoðar með hlýju brosi.

Drullutjakkur: Hefðbundinn tjakkur nema bara í stærri kantinum. Flestir þekkja nú inn á þennan grip og því óþarfi að ræða það frekar. Ágætt ef einn eða fleirri í hópnum séu útbúnir svona tæki.

Spil: Ekki skemmir fyrir þegar komið er á leiðarenda að taka einn olsen olsen. En ég er ekki að tala um þannig spil heldur togspil. Þetta eru alveg ótrúleg tæki og mjög gott að hafa þau meðferðis. Þau eru reyndar mjög dýr en það er sama. Spottinn virkar alltaf en spilið er gott til þess að draga upp MJÖG fastann bíl eða halda við bíl sem hefur td. affelgað eða eitthvað í miklum halla. Ég hef séð svona spil koma að góðum notum og rétt eins og með hin tækin er gott ef einn eða fleirri séu útbúnir svona græju.

Auka eldsneyti: Ef farið er í langferðir um hálendið borgar sig að hafa þetta með. Flestir þekkja nú sína bíla og vita hvað þeir þurfa að hafa mikið með sér í hvert skipti. En eins og flestir vita er ekki mikið um almennar hálendis bensínstöðvar á íslandi.

Sjúkra púði/kassi: Þetta er bráðnauðsynlegur hlutur. Fyrir stuttu var mikil umræða á f4x4.is um þetta og voru allir sammála um það að þetta væri þarfa þyngd. Þí að það væri ekki nema einn kassi af plástrum.

Fjarskipti: Allir eiga sína ferðafélaga og eru flestir með einhverja leið til að eiga samskipti við hvorn annan án þess að þurfa að stíga út úr bílnum. Flestir nota CB talstöðvar en VHF talstöðvar eru að koma inn í sí auknu mæli. Sérstaklega vegna mikilliar notkunar félaga 4x4klúbbsins hér á landi. SSB og UHF eru svo aftur á móti minna notaðar. Margir eru líka með NMT svo að eiginkonur og mömmur geti verið í góðu sambandi við þá.

GPS: Ef þú átt ekki GPS, kauptu hann þá. Ef þú hefur ekki efni á því, rændu honum þá. Þetta getur verið eitt af mikilvægustu tækjum bílsins og getur bjargað lífi þínu þegar veður er sem verst.

Varadekk: Ef þú ert á bíl sem er með stærri dekk 35" þá er nokkuð dýrt að vera með eitt varadekk, flestir eru þess vegna með tappasett og hefur það bjargað mörgum í gegnum tíðina.

Snjóankeri: Virkar einungis með spili, mjög sniðugt ef þú átt spil og gerir svolítið af því að ferðast einn.

Loft: Loft til þess að setja í dekkin eftir að þú kemur á þurrt er mjög mikilvægt. Án þess kemstu ekki í bæinn. Í dag eru flestir með dælur en margi halda sig ennþá við kúta. Ég sjálfur er með kút og er bara mjög sáttur við hann. Ef þú pumpar ekki í dekkin áður en þú hefur keyrslu á malbiki eða möl er hætta á því að dekkið hitni um of og rifni. Auðvitað þarf að hafa loftmæli líka til þess að hleypa úr til að byrja með.

Reipi: Þetta verður að vera með. Sama hvernig bíl þú ert á eða ferðafélagarnir þá getur alltaf eitthvað komið upp á þó svo að það sé ekki fest.

Slökkvitæki: Nauðsynlegt að einn í hópnum sé með slökkvitæki. Þú færð ekki skoðun á breyttan bíl nema vera með svona í honum en margir kjósa að taka það úr sökum plásss. Ég hef einu sinni lent í því að nota slökkvitæki og vill helst ekki lenda í því aftur. Það hefði farið mjög illa hefði það ekki verið með.

Jæja, ég held að þetta sé orðið gott í bili. Ég er nokkuð viss um að ég sé að gleyma einhverju en það má þá bíða til betri tíma.

Kveðja
Otti
“He's not the Messiah! He's a very naughty boy” - Terry Jones, Life Of Brian