Sælir Félagar,

Að sjálfsögðu var uppteknum hætti haldið áfram síðustu helgi þar sem eitthvað hangs gengur víst ekki. Flestir vita sennilega að það er bara einn galli við Patrol, nei, ætli þeir séu ekki tveir, það eru annarsvegar framhurðarnar, þær eiga það til að byrja að láta braka í sér og ískra… frekar leiðinlegt. Hitt vandamálið eru driflokurnar, heldur stærra vandamál, þessar Auto lokur sem eru í Patrol virka því miður ekki neitt, eiga það til að skralla á öxli og valda leiðindum þegar ekið er í fjórhjóladrifinu. Útaf þessu bankaði eitthvað í framdrifinu þegar ég var að keyra á malbiki. Þess vegna var brugðið á það ráð að skipta um þær, setja í níðsterkar amerískar SUPERWINCH full metal driflokur sem pössuðu bara beint upp á öxulinn og það gekk líka svona glimrandi vel og virkar fínt.

Næst var farið í það að setja framan á bílinn eina af þessum ekta stóru Patrol hrossagrindum eins og einhverjir vilja kalla það, það auðvitað passaði bara beint undir, en þar sem ég er svo smámunasamur ákvað ég að færa grindina framar um 8mm. Með tilheyrandi veseni hafðist það nú að lokum, þá búinn að bora einhver göt og sjóða smá…… allir hafa nú gott af því, en í staðin leit bíllinn talsvert betur út.

Því næst, reyndar kominn sunnudagur, var farið í rafkerfið á bílnum. Ég ákvað það þegar ég keypti bílinn að hafa þetta bara almennilegt, ekki vera að tengja fram og til baka og eitthvað vesen. Þannig að ég kom fyrir 6 rofum inn í bíl, gekk mjög snirtilega frá þeim, eiginlega þannig að þeir sjást ekki nema að þú sért að leita af þeim því þeir eru svartir eins og mæla borðið, mjög pent þó ég segi sjálfur frá. Þá var bara að tengja þá, það var gert þannig að einn sver vír var settur inn og á alla rofana og svo komu 6 út, svo þurfti að tengja þennan eina á alla rofana þannig að úr varð þvílíka víraflækjan en það tókst að leysa úr henni og ganga frá þessu snirtilega. Að því loknu var lítið rústfrítt box sett ofan í húddið, ofan í boxið voru sett tvö öryggjabox sem vírarnir tengdust í. Þaðan lá leiðin í gegnum segulrofa og þaðan svo í þar til gerða aukahluti. Að þessu sinni tengdi ég bara framkastarana sem ég setti á grindina, tengdi þá reyndar á tvo vegu, þannig að ég gæti kveikt á þeim þegar ég vildi og þegar háuljósin er sett á, en það er þá allt klárt núna til þess að bæta við seinna, sem ég reikna með að gera.

Kveðja,
Otti Sigmarsson
“He's not the Messiah! He's a very naughty boy” - Terry Jones, Life Of Brian