Sæl verið þið öll, jeppafólk. Það er svo komið eftir að hafa “hlustað” hér í dágóðan tíma að ég get engan veginn orða bundist yfir því sem menn skrifa hér, um og yfir þá sem hér pósta. Þegar áhugafólk um jeppa hittist hér á vefnum til að bera saman og ræða áhugmálin, bílana, útbúnað og fleira, þykir mér lágmark að bæði þeir sem skrifa og þeir sem gefa álit gæti hófs og vandi mál sitt til að þeir sem hér eru af sönnum áhuga og á réttum forsendum njóti vefsins. Mér þótti afar gaman að ramba á þetta góða “jeppasvæði” til að hella úr skálum mínum yfir jafningja en komst að því mér til hrellingar að orðalag eins og “ríddu þér” ??? og “ömurleg gein” (er það ekki hinna ágætu stjórnenda að halda vefnum málefnalegum?) ennfremur skítkast á við “rífandi kjaft á þessum 35´´ fólksbíl þinum” og “þú ert fífl” er hér við lýði. Inn á milli er sem betur fer að finna fólk sem hér er statt til að deila áhugamáli en ekki til að senda inn slakar greinar um Range Roverinn hans pabba síns (ekki hætta að skrifa stráksi, gerðu það bara miklu betur og kannaðu það sem þú lætur frá þér) eða vera með ruddaskap. Reglulega virðast koma hér inn hugrakkar sálir sem reyna að hífa upp skrifin og það er vel! Einnig ber á því að fólk hvetur aðra til að vera duglegri að senda inn greinar og spjall, en hver ætti að hafa lyst á því þegar mistök og staðreyndavillur mæta ekki leiðréttingum og verða þannig að nýjum spjallþráðum, heldur ruddaskap og leiðindum frá botnlausum besservisserum? Rífum þetta nú upp úr drunganum og gerum þetta svæði að spjalli sem kemur okkur að notum. Ég hlakka mikið til að ræða hér kosti og galla þessa og hins í sportinu og fá ferðasögurnar beint í æð. Kveðjur að sinni og spörkum nú í bykkjuna, HHS