Leiðindagrein en samt skal hún koma.

Mál er þannig með vexti að ég skrifa þessa grein til að koma vonandi smá vitundarvakningu af stað hjá þeim fáum en stórhættulegu mönnum sem hafa aðgang að jeppum.

Nú vil ég ekki að þið misskiljið mig og haldið að ég sé að tala um alla jeppamenn landsins, því fer fjarri. Ég er að tala um nokkra einstaklinga sem setja svartan blett á alla jeppamenn. Oftar en ekki eru þetta ökumenn í yngri kantinum og helst til ákafir í að sýna og sanna getu sína og stóra og tryllitækisins.
Ég er ekki gamall, rétt orðinn 21. árs en samt hef ég nokkra reynslu í akstri breytts bíls enda átti ég einn slíkan í 3 ár. Mér ofbýður þó stundum við mönnum á mínum aldri (+ / - 10 ár), dæmi um slíkt og ekki það eina varð nú sl. laugardag við Gíga, ekki langt frá Skíðaskálanum í Hveradölum.

Ég var þá á gönguskíðum á Hellisheiðinni eins og margir aðrir og svo var fjöldi af vélsleðamönnum og jeppum á svæðinu. Ég var á þessum tímapunkti samferða nokkrum kunningjum mínum sem voru gangandi þarna þegar ungur maður kemur á jeppa að okkur. Við tökum eftir manninum og færum okkur úr slóðinni svo hann geti átt greiða leið framhjá. Viti menn, gefur maðurinn ekki í og tekur þessa ,,skemmtilegu” syrpu fyrir okkur þarna. Ekki tókst honum betur til en svo að hann missir rassgatið á bílnum úr slóðinni og skríður á góðri ferð í átt að mér og félögum mínum. Við áttum þarna fótum okkar fjör að launa en maðurinn fer yfir þann stað þar sem þrír okkar höfðu staðið vel utan slóðans. Hann hægði ekki á sér, hvað þá stöðvaði til að athuga hvort einhverjir hefðu slasast í þessu fíflalega uppátæki sínu. Nei, hann keyrði burt eins og ekkert hefði í skorist. Ég mátti hafa mig allan við að stilla sjálfan mig svo að hentugur hraunmoli hefði ekki fengið að fljúga á eftir honum.
(Þessi piltur hefur verið með slæmann hiksta á leiðinni heim til sín miðað við lýsingaorðafjöldann sem fékk að fjúka)

Þetta leiðinda atvik er ekkert einsdæmi því miður, því ég get ekki ímyndað mér að margir geri þetta að gamni sínu. Flestir ættu að geta verið mér sammála í því að það ættu allir að geta verið uppi á heiði eða hvar annarsstaðar í sátt og samlyndi en ekki leiðindum. Ég vil því beina því til allra sem lesa þetta og sjá svo eitthvað sem betur mætti fara uppi á fjöllum að þeir tali við og ráðleggi þeim sem kunna ekki að haga sér. Þó að það verði ekki til annars en að það verði komið í veg fyrir eitt slys þá er það þess virði.

Hafið svo gaman nú loksins þegar snjórinn lætur sjá sig