Sjálfskipt eða beinskipt?

Menn hafa oft deilt um hvort væri betra í jeppa að hafa venjulegan gírkassa eða sjálfskiptingu. Ég ólst upp við það viðhorf að jeppar ættu að vera beinskiptir. Minn fyrsti jeppi var því beinskiptur en síðar komst ég að því að sjálfskipting getur verið góður kostur fyrir jeppa. Nú hef ég átt sjálfskiptan jeppa í um það bil 5 ár og er hæstánægður (dettur ekki í hug að skipta yfir í beinskipt).

Hér á eftir kemur upptalning á helstu kostum og göllum hvors kosts fyrir sig.

* Beinskiptir bílar eyða minna

* Gírkassi er hagkvæmari en sjálfskipting þar sem að nokkuð afl tapast í túrbínunni (torgue converter)

* Gírkassi sem fær venjulegt viðhald ætti að öllu jöfnu að endast lengur en sjálfskipting en það má búast við að þurfa að skipta um kúplingsdisk og pressu nokkrum sinnum yfir líftímann

* Það myndast meiri hiti í sjálfskiptingu en gírkassa en það er hægt að vinna á móti því með góðum kæli

* Það er auðveldara að keyra jeppa með sjálfskiptingu í ófærum en beinskiptan jeppa

* Það er hægt að bæta og breyta sjálfskiptingum til að láta þær vinna betur í ófærum

* Sjálfskiptingar þola betur of há drifhlutföll þar sem að túrbínan margfaldar torkið (myndar einskonar niðurgírun)

* Það er hægt að ýta beinskiptum bíl í gang

* Hægt er að gíra beinskiptan bíl niður (reyndar hægt með flesta sjálfskipta líka en fæstir þora því)

* Hröðun tapast ekki á milli gíra í sjálfskiptingum eins og þegar skipt er um gír í gírkassa

* Með sjálfskiptingu er hægt að einblína á bremsur og bensíngjöf meðan maður þarf einnig að hugsa um kúplingu ef bíllinn er beinskiptur

* Skipting er miklu fljótari að skipta en maðurinn og engar líkur á að þú hittir ekki í gírinn

* Í hálku er hægt að gefa aflið hægt og rólega með sjálfskiptingu meðan það krefst meiri færni að taka eins mjúkt af stað á beinskiptum

* Ef keyrt er yfir erfitt landslag þá fer sjálfskiptingin betur með drifrásina þar sem að túrbínan heldur ekki eins fast og kúpling

* Þú getur (oftast) treyst því að gírkassi haldi sig í þeim gír sem þú settir hann í en sjálfskipting vill ráða því sjálf hvort hún fari upp í næsta (reyndar lítið mál að eiga við það)

* Sjálfskiptingar eru taldar betri ef það þarf að draga mikla þyngd (annað en það sem flestir Íslendingar halda)

* Ekki er ráðlegt að kúpla þegar þú ert staddur í miðri á þar sem að þá getur vatn komist á milli og þú ert strand meðan hægt er að skella í R og bakka uppúr hylnum ef bíllinn er sjálfskiptur

***
Hvernig á að bæta sjálfskiptingu:

Versti óvinur sjálfskiptinga er hiti. Ef vökvi í skiptingu fer yfir 275 gráður F þá ertu í vanda. Skipting í lagi ætti ekki að vera heitari en 225 gráður þó álagið sé mikið. Það er talið að yfir 90% af sjálfskiptingum sem gefa sig geri það vegna of mikils hita. Því er ráðlegt að setja auka kæli við hana og ekki er verra að hafa hitamæli til að vita hvað er að gerast. Einnig er ekki vitlaust að fá sér dýpri pönnu til að hafa pláss fyrir meiri vökva. Það eru skiptar skoðanir á hvort gott sé að hafa shift kit en kostur þeirra er að þau skipta yfirleitt harðar (minni hiti) og oft eru hlutir í þeim sem eru sterkari en orginal búnaðurinn. Hægt er að kaupa ýmsa pakka til að gera skiptingar sterkari svo þær ráði við meira tog.

***
Hvernig er hægt að bæta gírkassa:

Það er nú ekki margt sem hægt er að gera við gírkassa. Það er þá helsta að nota betri kúplingspressu ef vélin er aflmikil og vandaðri kúplingsdisk. Það er einnig hægt að setja kæli við gírkassa en það er yfirleitt óþarfi (hef aðeins heyrt um það í keppnisbílum).

***
Og hvort er þá betra? Ef þið hafið haldið að ég kæmi með eitt ákveðið svar þá höfðu þið rangt fyrir ykkur. Hvor kostur hefur sína sterkleika og veikleika og eru þeir því misgóðir eftir aðstæðum. Einnig skiptir smekkur miklu máli. Ég myndi segja að ef vélin er með lítið rúmtak að þá ættum menn að halda sig við gírkassann en ef vélin er stór þá sé sjálfskipting góður kostur.

JHG