Djasstríó EST 25 og 26 maí kl. 21.00

Djasstríó Esbjörns Svenssonar, eða E.S.T. kemur fram á Listahátíð í vor og heldur tvenna tónleika í Nasa dagana 25. og 26. maí. Tríóið skipa sænskir tónlistarmenn sem flytja afar skemmtilegan og framúrstefnulegan djass sem þeir spila um þessar mundir fyrir áheyrendur um allan heim. E.S.T. var valið djassband ársins í Evrópu árið 2004, hefur verið forsíðuefni margra helstu djasstímarita heims og prýddu m.a. forsíðu hins virta bandaríska djasstímarits Downbeat sl. vor, fyrstir evrópskra tónlistarmanna.

E.S.T. þykir einstakt fyrirbæri í tónlistarheiminum; djasstríó, sem sumpart lítur á sig sem poppband sem leikur djass án þess þó að hampa einum meðlimi tríósins fram yfir aðra. Tríóið kemur ekki aðeins fram í djassklúbbum heldur einnig á helstu rokktónleikastöðum heims með tilheyrandi ljósasjói og reyk. Það sem einnig vekur sérstaka athygli er að tónleikagestir taka jafnan hressilega undir í lögum þeirra, eins og Bemsha Swing eftir Thelonius Monk en það er djasslag sem vermt hefur efsta sæti poppvinsældarlista. Oft má einnig sjá myndbönd með E.S.T. leikin á MTV.
Tónlist þeirra er skilgreind sem blanda af djassi, drum’n’ bass, rafrænni tónlist, fönki, poppi, rokki og evrópskri klassík. Það þýðir að aðdáendur þeirra eru jafnt ungir hipp hopparar og harðir djassunnendur á öllum aldri. Gagnrýnendur og áheyrendur eru sammála um að E.S.T. hafi glætt djassinn nýju lífi og sé tvímælalaust eitt frumlegasta djassbandið í heiminum í dag.
Tríóið skipa Esbjörn Svensson á píanó, Magnus Öström á trommur og Dan Berglund á bassa. Esbjörn og Magnus eru æskuvinir og hófu snemma að bralla sitthvað saman í tónlist. Tilraunamennska þeirra vakti athygli og varð mörgum tónlistarmönnum, bæði í Svíþjóð og Danmörku, mikill innblástur. Árið 1993 spratt tríóið fram fullskapað í framhaldi af kynnum þeirra við Dan Berglund og hver geisladiskurinn af öðrum leit dagsins ljós. Árið 1995 fór tónlist þeirra að seljast eins og heitar lummur og verðlaunin og viðurkenningarnar að streyma til þeirra. Árin 1995 og ‘96 var Esbjörn Svenson valinn djasstónlistarmaður ársins í Svíþjóð og 1998 lagahöfundur ársins. Ári síðar kom út sá geisladiskur E.S.T. sem vakti athygli umheimsins og á eftir fylgdu tónleikarferðir m.a. um Evrópu, Bandaríkin, Japan, Suður-Kóreu, Brasilíu og Nýja-Sjáland þar sem þeir léku fyrir hundruð þúsunda áheyrenda. Sem dæmi um viðtökurnar utan heimalandsins voru þeir valdir bestu alþjóðlegu listamennirnir af hinu virta franska djasstímariti Victorie du Jazz árið 2002, hlutu BBC-djasstónlistarverðlaunin sama ár og auk þess þýsku gagnrýnendaverðlaunin fyrir diskinn Strange place for Snow fékk. Árið 2003 var Seven Days of Falling valinn diskur ársins af The Times. Árið 2004 hlotnaðist þeim heiðurnafnbótin “djassband ársins í Evrópu” samkvæmt mati dómnefndar sem skipuð var fulltrúum 23ja Evrópuþjóða. Og eins og fyrr sagði varð E.S.T. fyrst evrópskra hljómsveita til þess að prýða forsíðu hins virta bandaríska djasstímarits Downbeat.

Geisladiskar E.S.T. eru nú orðnir ellefu talsins og kom sá nýjasti út í september sl. Ber hann heitið Tuesday Wonderland og opnar algerlega nýjar tónlistarlegar víddir inn í það sem meðlimir tríósins kalla undraland. Sá diskur er því að segja má beint framhald af Viaticum (frá 2005), þannig að Tuesday Wonderland hefst þar sem Viaticum lauk.

Staður: NASA við Austurvöll.
Dagsetning: 25. og 26. maí kl. 21.00.

Nokkrar umsagnir um E.S.T.:
"E.S.T. er heljarinnar band, eitt frumlegasta píanó-bassa-trommu tríóið í dag, og það langsamlega kraftmesta. Látið það ekki henda ykkur að missa af því sem verður vafalaust tríó aldarinnar, á meðan það er enn á uppleið.
The Times

Opinberun hátíðarinnar var sænski píanistinn Esbjörn Svensson.“ Downbeat

Í kvöld framkallaði E.S.T. 90 mínútur af svo spennandi og kjarngóðri tónlist að hér gæti verið á ferð djass framtíðarinnar. Áheyrendur frá Cambridge sátu eftir í senn ringlaðir og glaðir, uppveðraðir og mettir.“ Mojo

Esbjörn Svensson Trio stormaði inn í Queen Elizabeth tónlistarhöllina undir slíkum hljóðum og ljósum að sumir í salnum voru að velta því fyrir sér hvort þeir hefðu villst inn á tónleika með Pink Floyd…“ Jazzwise

Snilldarleg frammistaða.“ Independent

Aðeins sárafáar grúppur í núverandi djassdeiglu ná að leika af sömu innlifun og E.S.T." The Times


Heimasíða EST: http://www.est-music.com/

Ef þú vilt kaupa miða:
25 maí: http://www.artfest.is/default.asp?event_id=4128&page_id=6758
26 maí: http://www.artfest.is/default.asp?event_id=4129&page_id=6758