AAAAAAAAAAAAAAAAAA!!! Já! Sæluvíman er yndisleg. Tónlistarþörf minni hefur verið fullnægt út í ystu æsar!

Í gær var ég á tónleikum með margverðlaunaða sænska tríóinu E.S.T. á NASA. Ég ætlaði að vera sniðugur og mæta hálftíma fyrr, en þá var slatti af fólki mætt. Staðurinn var fljótur að fyllast. Strax í fyrsta laginu fékk ég gæsahúð og gat ekki beðið þar til lagið var búið, mér fannst ég verða að eyðileggja æðarnar í höndunum mínum með klappi.

Þetta voru alls ekki bara jazz-tónleikar. Þarna mátti heyra drum'n'bass, hrátt aggresíft fönk, klassík, techno, heavy metal og Sigur Rós-lega tónlist. Hljóðfæraleikurinn var framúrskarandi hjá öllum. T.d. ætlaði höfuðið á mér að springa af undrun þegar bassaleikarinn setti effekt á kontrabassan og spilaði á hann eins og rafmagnsgítar. Þvílíkt og annað eins hardcore metal gítarsóló sem hann tók þarna. Á meðan sló píanóleikarinn nokkrar nótur á flyglinum og dempaði þær með því að nota vinstri hendina til að ýta á strengina. Bassaleikarinn spilaði oft á kontrabassan með boga og einhverjum effekt. Surgandi nasty hljóð sem komu út úr þessum bassa!

Trommarinn, Magnus Östrom, fékk líka sína athygli. Trommuleikurinn einkenndist mikið af hröðum drum'n'bass töktum sem ég hélt að aðeins væri hægt að búa til í tölvum. Sérstaklega var flott þegar hann spilaði stórfurðulegt intro á trommusettið og notaði delay effekta. Þetta með tístudúkkuna verður eitthvað sem ég gleymi ekki.

Í hléinu hitti ég svo góðvin allra MR-inga, jarðfræðingin, rithöfundinn og lífsspekúlantinn Guðbjart Kristófersson. Hannn sagði: „Hva ert þú ekki í stúdentsprófum?“ Ég sagði: „Nei ég er á tónleikum.“ Hann sagði mér svo að sonur hans væri að flytja E.S.T. inn til landsins í samvinnu við Listahátíð. Merkilegt.

Píanóleikarinn, sjálfur Esbjörn Svensson, er næstbesti píanóleikari sem ég hef séð. Hraðar hendingar og frumlegar hugmyndir í improviseringum. Mér fannst flottast þegar hann var einn að spila. Hann notaði báðar hendurnar mikið. Oft elti eða speglaði vinstri hendin það sem hann var að gera í hægri. Hann notaði stundum einhvern skrítinn effekt á flygilinn sem ég skil ekki hvernig virkar. Í einu laginu setti hann pappírsörk ofan í flygilinn til að fá fram sérstakt hljóð. Í síðasta laginu fyrir uppklapp sást að þessi gaur er með tvískiptan heila. Hann spilaði bassalínu í vinstri hendi og gat improviserað frjálst með vinstri. Þarna hefur hann greinilega lært af meistaranum, Keith Jarrett. Sumir vilja meina að Esbjörn Svensson sé næsti Keith Jarrett. Ég er ekki á því. Hann gerir vissulega margt svipað og Keith, en stíllinn er allt öðruvísi. Esbjörn Svensson verður ekkert annað en næsti meistari Esbjörn Svensson.

Eftir tónleikana seldu þeir diskana sína fram í anddyri og árituðu þá. Ég keypti tvo diska og þakkaði þeim fyrir á sænsku þegar þeir árituðu diskana mína.

En eins og ég segi, þá er varla hægt að kalla þetta jazz. Þetta eru bara þrír gaurar, píanisti, bassaleikari og trommuleikari sem eru að búa til stórkostlega óflokkanlega tónlist.

Þeir komu sífellt á óvart þarna í gær. Algjörlega næstbestu tónleikar sem ég hef farið á. (bestu: Keith Jarrett Trio í Antibes árið 2005) Bassaleikarinn er besti bassaleikari í heimi.. Jaco Pastorius hvað? Dan Berglund er miklu betri en þetta rafbassafrík. Þeir spiluð í 2,4 klst. og aldrei leiddist mér. Ég vildi að fleiri hefðu orðið vitni að þessu. En þröngsýnin ræður ríkjum eins og venjulega. Þeir spila aftur í kvöld, 26. maí, en mig grunar samt að það sé uppselt. Fyrir áhugasama þá sakar ekki að reyna að kaupa miða í anddyrinu.

Þú þarna. Þú hefðir átt að mæta.