Ágrip af hlustun Með þessari grein ætla ég að hvetja aðra til að senda inn greinar, ég sé fram á að fyrirhuguð greinakeppni fari ekki í gangið fyrr en eftir skólalok þannig að svona málamiðlunargreinar verða að duga í bili, það er nú ekki vandasamt né erfitt að skella saman í einn svona lista.

Vert er að taka fram að þessi listi (þetta er samt ekki beint listi) sýnir bara það sem passar inn á þetta áhugamál, í alvöru er minn playlisti allt öðruvísi, en ég villdi bara taka saman hvaða blús, jazz, folk og kántrí ég er að hlusta á í augnablikinu. Í þessu er enginn sérstök röð.

Muddy Waters – hann er mikið í spilaranum um þessar mundir, enda alger meistari á ferð, held nú að flestir taki undir það. Þau lög sem ég er þá helst að hlusta á eftir hann eru Got My Mojo Working og Rollin’ Stone Blues. Fyrrnefnda lagið er eitt hans þekktasta og þá sérstaklega í sviðsflutningi, lagið er frekar djassað, mjög einkennandi fyrir hinn svokallaða Chicagó blús. Síðarnefnda lagið er hinsvegar hefðbundnara (enda nokkuð eldra), lagið sem gaf stærstu rokksveit sögunnar nafn sitt hvorki meira né, lagið einkennist ef tveim riffum sem kallast á og Muddy Waters syngur um örlög sín eins og blúsurum einum er lagið.

Freddie King – annar blúsari sem er að koma sterkur inn, reyndar á ég bara tvö lög með honum hvers uppruni ég er óviss um. Þessi lög koma af einhverri blús safnplötu og eru bæði í læv útgáfum, hvort Freddie King samdi þau er ég ekki heldur viss um. Þessi lög heita The Moon Is Rising og Feelin’ Alright, þau eru nokkuð yngri en Muddy Waters lögin og eru rokkaðari með hammond orgelum og flottri hljómsveit. The Moon Is Rising byrjar á ærandi gítarriffum, sækir svoldið í ryþmablús í ætt við Chuck Berry, þetta er svosum ekkert spes blúslag í sjálfu sér, ósköp venjulegt (svipar mjög til listamanna eins og Buddy Guy og rafmagnaðann B.B. King) en það er flutningurinn sem er hér aðalsmerkið, rödd Freddie King sómar sér vel á stalli með röddum á borð við Howlin Wolf, djúp og svöl. Seinna lagið er í raun mun betra, sterk soul áhrif og lagið er mjög grúvað, þar leikur grípandi hljómborðið aðalhlutverkið, minnir svoldið á Booker T. & MG’s. Þetta er virkilega svalt lag, maður getur lítið annað en dillað hausnum í takt.

Bob Dylan – ég gæti nú skrifað margra blaðsíðna rigerð um það sem ég hlusta á með þessum mikla meistara, en það ætti kannski betur heima á Gullöldinni fremur en hér, því ætla ég að taka til svona það sem er hreint folk, kántrí eða blús.

Talkin’ John Birch Paraniod Blues – þetta lag fékk ég af “The Bootleg Series Vol. 6, Concetr at Philharmonic Hall” en það má líka finna á Bootleg Series Vol 1-3. Eins og nafnið bendir til er þetta “talkin blues” lag, svipað og Talkin World War III Blues og I Shall Be Free af The Freewheelin, form sem Dylan notaði mikið, byggist um á einföldum hljómgangi, kannski G-C-G-D-C eða álíka og textinn er einskonar saga, ekki beint sungin heldur kannski töluð. Jæja, John Birch var að mig minnir fyrsti kaninn sem var drepinn af Kommúnistum í Seinni Heimstyrjöldinni og er í dag til félag sem kennir sig við hann (The John Birch Society) og heldur fram hægri vængs áróðri gegn kommúnistum og þess lags. Eins og með önnur “talkin blues” lög er húmorinn í stóru hlutverki, ádeilan er vafinn kaldhæðnum húmor.

Man Of Constant Sorrow – Af fyrstu plötu hans, gamalt þjóðlag, sennilega samið snemma á 20. öldinni. Þarna syngur Dylan lagið með töluvert öðruvísi texta en áður hafði tíðkast, hvort textinn sé frumsaminn skal ég ekki segja. Þessi útgáfa var líka sunginn af Soggy Bottom Boys í myndinni O, Brother Where Art Thou?

Chimes of freedom – með þekktari lögum Dylans og eiginlega hans síðasti mótmælendasöngur, kom út á plötunni Another Side of Bob Dylan sem var síðasta platan áður en hann gerðist hálf elektrískur á Bringing It All Back Home. Þetta eru leyfarnar af Dylan-inum sem gerði The Times They Are A-Changin og The Freewheelin. Á sömu plötu kveður Dylan nefnilega “But I was so much older then, I’m younger than that now” og kveður þar með fortíð sína og heldur á ný listræn mið sem áttu eftir að skila honum plötunum Highway 61 Revisited og Blonde On Blonde áður en hann sneri aftur í einfalda blús og kántrí tónlist með John Wesley Harding og Nashville Skyline.

Love Sick – “nýlegt” lag með kappanum, kom út á kommbakk plötunni Time Out Of Mind (1997) sem að mínu mati er algert meistarastykki. Þarna sýnir Dylan að þótt hann sé búinn að missa þá litlu rödd sem hann hafði að þá er hann enn svalari en meðalmaðurinn. Ekki verða tekin fyrir fleiri Dylan lög hér, til þess er einfaldlega ekki pláss.

Hank Williams – kántrí goðið, nýlega hefur hann svoldið fallið í skuggan á því Johnny Cash æði sem gengið hefur yfir heiminn, en hann er svo sannarlega einn áhrifamesti kántrítónlistarmaður sem uppi hefur verið. Þvílíkt magn af lögum eftir hann sem eru nánast samtvinnuð kántríbransanum. Ævi Hanks var síst rólegri en ævi Cash sem nýlega verskuldaði heila kvikmynd, mér þætti vert ef gerð væri mynd um ævi Hank Williams. Þau lög sem eru hvað helst í uppaháldi með honum á augnablikinu eru Lost Highway, I’m So Lonesome I Could Cry og (I heard that) Lonesome Whistle, allt mjög angurvær og tja hvað “emó” eins og sagt væri kannski í dag, hehe.

Van Morrison og Them – þá er það smá Evrópa inn í blandið, Van Morrison hefur í dag áunnið sér á goða stall, en svoldið hefur verið litið framhjá bandinu Them en í því byrjaði Van af alvöru feril sinn. Bandið var týpístk 60’s blúsrokkband, höfðu þó eitt yfir aðrar svipaðar hljómsveitir á þeim tíma, Van Morrison, þvílíkur söngvari og þvílíkur skemmtikraftur. Eins og önnur bönd voru Them mikið í koverum og þá sérstaklega amerískum blús og héldu þeir nokkurri tryggð við blúsinn þó svo hann væri kryddaður upp með ískrandi gíturnum og magnaðir rödd Morrison. Lögin, spyrjið þig, jú ég er að koma að þeim, I Put A Spell On You kover af lagi eftir Screamin Jay Hawkins, ólíkt því sem menn kannast við úr útgáfum CCR af laginu er þetta lag mjög djassað, byrjar á seiðandi saxófóni og er í raun mjög rólegt og hvað á maður að segja, já bara seiðandi svo ég endurnoti orðið. (Get Your Kicks) Route 66, Rolling Stones og Chuck Berry hafa gert þetta lag frægt, eitt þekktasta lag bandarískrar tónlistar, en hér taka Van Morrison og félagar lagið lengra, gera það magnaðara og svalara. Seinasta lagið sem ég ætla að minnast á hér er samt ekki með Them heldur af sólóferli Van Morrison, TB Sheets, þetta er eiginlega soul lag, þó svoldið blúsað og inniheldur ýmis minni úr gömlum amerískum blúslögum.

Django Reinhardt – höldum áfram með Evrópskt, nokkuð öruggt að segja hann vera færasta gítarleikara sem hefur nokkru sinni spilað jazz lag. Ég á nú nokkrar tylftir af lögum með honum og get ekki bent á neitt eitt enda hljóma þau öll mjög svipað og ég get ómögulega munað titlana á lögunum og nenni ekki að fara í gegnum hvert og eitt einasta.

Booker T. & The MG’s – eitt þekktasta soul bandið, spiluðu svokallað Memphis Soul sem byggðist að mestu upp í kringum Stax útgáfufyrirtækið, nokkuð frábrugðið Motown soul tónlist eins og til dæmis Marvin Gaye spiluðu. Eins og með Django að þá finnst mér lögin öll frekar lík og ekkert stendur upp úr, nema kannski þeirra þekktasta lag Green Onions sem hefur einna helst unnið sér til frægðar að vera vinsælt auglýsingastef.

Woody Guthrie – ég er að hugsa um að enda þetta á Woody Guthrie, ædoli Bob Dylan. Einn virtasti folk tónlistarmaður Bandaríkjanna, á sama stalli og til dæmis Pete Seeger. “Maður getur hlustað á lögin og lært að lifa” eru orð sem Bob Dylan lét falla um Woody Guthrie (og nei Bob Dylan kann ekki íslensku heldur þýddi ég kvótið). Woody Guthrie er þekktur fyrir beinskeytta mótmælendasöngva og oft háðsfulla sýn á lífið. Lagið sem ég ætla velja fyrir þennan pistil er Mean Talking Blues, kaldhæðið lag þar sem Woody setur sig í gervi illviljaðasta manns jarðar og í svipuðu “talkin blues” formi og Dylan lagið hér á undan.
“I'm the meanest man that ever had a brain,
All I scatter is aches and pains.
I'm carbolic acid, and a poison face,
And I stand flat-footed in favor of crime and disgrace.
If I ever done a good deed – I'm sorry of it.”


Já, held ég endi þetta bara á þessum orðum. En þetta er nú aðeins brot af hinum raunverulega playlista, þverskurður af smekk mínum á blúss og jazz.