Blind Lemon Jefferson Eins og með marga af þessum gömlu blúsurum er það ekki alveg víst hvar og hvenær Lemon fæddist, en talið að hann hafi fæðst í bænum Couchman í Texas fylki árið 1893. Lemon varð mjög snemma blindur, jafnvel var hann blindur fá fæðingu, og fékk þá viðurnefnið “Blind”, vel ber að merkja að nafnið Lemon er alls ekki viðurnefni, það er skírnarnafn hans, og var nokkuð algengt nafn á þessum tíma.

Mjög lítið er vitað um æsku hans, enda voru svartir menn ekki á háum stalli í því þjóðfélagi sem þar ríkti, en um 1912 fór Lemon að spila opinberlega og ferðaðist mikið milli bæja og vakti fljótlega athygli. Árið 1917 flutti hann til Dallas og kynntist þar manni sem átti eftir að verða góður vinur hans, blús og þjóðlagameistaranum Leadbelly.

Hann fór síðan til Chicago þar sem hann tók upp sín fyrstu lög, undir nafninu Deacon L. J. Bates, fyrstu lögin sem hann gaf út undir eigin nafni voru “Booster Blues” og “Dry Southern Blues”, þessi lög urðu nokkuð vinsæl og gáfu honum tækifæri á að taka upp fleiri lög, “Got The Blues” og “Long Lonesome Blues” urði líka vinsæl og hann fékk samning hjá Paramount Records útgáfufyrirtækinu, aðstæður í hljóðverum fyrirtækisins voru vægast samt slæmar, og þessi lög eru mörg hver í afar slæmum gæðum, en vinsældir hans urðu til þess að hann gat tekið upp nokkuð af lögum sínum aftur og þá í betra hljóðveri.

Eins og með marga svarta tónlistarmenn þess tíma fékk Blind Lemon Jefferson ekki mikið borgað, en þó fékk hann inn vasapeninga sem gerðu honum kleift að lifa ágætlega, en Paramount hélt eftir stórum hluti af gróða hans, sem var nú bara “normið” á þeim tíma, þar var ekki fyrr en mun seinna, til dæmis með komu manna eins og Ray Charles að tónlistarmennirnir fóru að heimta stærri sneið af eigin köku. Lemon Jefferson var ekki ánægður með útgáfu fyrirtækið og árið 1927 flutti hann sig yfir til OKeh Records, en hann tók samt bara upp tvö lag hjá OKeh, lögin “Matchbox Blues” og “Black Snake Moan”, Matchbox Blues var síðan koverað af Bítlunum snemma á ferlinum í kántrí búning. Þessi singull varð vinsæll og þegar Lemon sneri aftur yfir til Paramount tók hann Matchbox Blues upp aftur, samt í verri gæðum, og gaf út undir merkjum Paramount. Það sama ár tók hann upp eitt sitt vinsælasta og þekktasta lag, “See That My Grave Is Kept Clean” ásamt trúarlegu lögunum “He Arose from the Dead” og “Where Shall I be”, ólíkt mörgum samferðarmönnum var Lemon ekki mikið fyrir það að taka upp trúarleg lög þó svo hann hafi gert það nokkrum sinnum. See That My Grace is Kept Clean var síðan endurupptekið og gefið út árið 1928.

Margar sögu eru til um hann, eins og vinsælt er að búa til um gamla blúsara, samanber “fund” Robert Johnsons við djöfullin. Sumir segja að Lemon hafi verið sífellt fullur og á kvennafari meðan aðrir gefa þá sögu hann hafi verið öðlingur og allt þar fram eftir götum.

Blind Lemon Jefferson lést í Chicago árið 1929, og eins og svo margir kollegar hans átti hann ekki krónu með gati. Margar sögur hafa spunnist um dauða hans, en líklegast er þó að hann hafi dáið úr hjartaáfalli eða orðið úti í blindbil, vinsælt er þó að segja að honum hafi verið eitrað, af afbrýðisömum elskhuga en margir taka það þó ekki trúanlegt, svoleiðis gerist bara í sjónvarpinu. Lík hans var flutt heim til Texas og hann var grafin í Wortham Black Cemetery (á þeim tíma voru sér kirkjur og kirkjugarðar fyrir svertingja), ósk hans um að vel yrði hugsað um gröf hans var hunsuð og var hún jafnvel ómerkt í fjölda ára en árið 1997 var settur nýr legsteinn við gröf hans og ætti því að vera hægt að koma auga á gröf hans, ef maður er í nágrenninu.

Blind Lemon Jefferson hafði mikil áhrif á aðra blúsara, en þó er hann oft vanmetin þegar talað er um gömlu blúsarana, ástæðu þess má kannski að einhverju leiti rekja hversu lélegt ástand var á hans upptökum. Líf Lemons er að mestu hulið, eins og áður sagði voru svartir tónlistarmenn virtir af hinum almenna listunnanda.

Þess má geta að hljómsveitirnar Blind Melon og Jefferson Airplane sækja báðar nöfn sín í Blind Lemon Jefferson, eða svo er sagt.