Seiðandi jazz og flottur rythmi á Hróarskeldu Á Hróarskeldu voru 6 svið; Orange, Arena og Odeon voru með stærri númerum og Organge stærstu, en Pavilion og Metropol með minni böndum sem maður hafði kannski ekki heyrt um. En það sem mér fannst skemmtilegast var Ballroom. Þar var mikið af jazzi, funki, reggí og bara öllu sem fær mann til að dansa (enda heitir þetta Ballroom). Ég sá ýmislegt skemmtilegt þar og það sem stendur uppúr var finnska hljómsveitin The Five Corners Quintet.

Ég var orðin þreytt á föstudagskvöldið eftir að hafa kíkt á Rufus Wainwright og Bob Dylan (sem var hundleiðinlegur) og rölt um svæðið. Ég var nærri því búin að ákveða að fara heim að sofa en langaði að vera aðeins lengur til að sjá þessa finnsku hljómsveit sem ég hafði heyrt um, þótt þeir væru kl. 2, og ég sé ekki eftir því! The Five Corners Quintet eru allt öðruvísi live heldur en í stúdíói. Þeir spila seiðandi jazz með flottum rythma sem getur komið hverjum sem er á hreyfingu og eru rosalega skemmtilegir live. (Meira að segja ég sem dansa ekki oft varð að hreyfa mig í takt við tónlistina). Live nota þeir engar tölvur eða DJ eins og diskunum þeirra. Ég hef ekkert hlustað á þá nema smá brot úr lögunum á einum diski, svo ég get lítið sagt um það en þeir eru örugglega ágætir.

Ég var fremst og gat þess vegna fylgst með tónlistamönnunum. Í kvintettnum voru trommur, píanó, kontrabassi, saxófónn og trompet eða flugelhorn til skiptis.

Trommarinn, Teppo Mäkynen, er greinilega aðalmaðurinn í sveitinni. Mér finnst skrítið að hann sé ekki frægari, kannski af því hann er Finni og heitir asnalegu nafni, en hann er besti trommari sem ég hef séð og örugglega með þeim bestu í heiminum. Ég skil ekki alveg hvernig hann fór að því að gera það sem hann gerði. Hann spilaði ótrúlega flókna rythma og þótt ég hafi ekkert vit á trommum sá ég að hann var mjög góður. Á milli laga spilaði hann oft sóló og missti aldrei taktinn (sem margir trommarar gera). Mér fannst sérstaklega flott einu sinni þegar hann spilaði einhvern takt í bassatrommu og hi-hat (og það var ekki tómlegt) og svo byrjaði hann að klappa með og fékk alla í salnum líka til að klappa. Þótt ég sé ágæt í svona rythma gat ég ekki klappað með því það sem hann spilaði truflaði mig. Ótrúlegt að hann hafi sjálfur getað hugsað um þetta allt í einu. En eins og ég segi hef ég ekki mikið vit á trommum.

Ég tók nú ekkert sérstaklega eftir píanóleikaranum, Mikael Jakobsson, en hann var örugglega ágætur í því sem hann var að gera þótt hann hafi örugglega verið fínn. Hann var samt ekkert mikið að sýna sig, spilaði bara rétta hljóma í réttum rythma.
Ég hef líka lítið vit á bössum en Antti Lötjönen leit allavega út fyrir að vera góður á kontrabassa. Hann var allavega kynntur sem “the backbone of the band” Bassi er auðvitað mjög mikilvægur.

Saxófónleikarinn Timo Lassy og trompet/flugelhornleikarinn Jukka Eskola spiluðu sóló til skiptis. Þeir voru báðir mjög góðir þótt mér finnist Jukka Eskola betri. Kannski af því mér finnst flugelhorn alveg æðislegt hljóðfæri (trompet reyndar líka) og það passar svo vel í svona tónlist. Þeir spiluðu hlið við hlið laglínur en svo á meðan annar spilaði sóló fór hinn eitthvað bakvið, það hefði auðvitað verið hálf kjánalegt að standa fremst á sviði meðan annar var að spila geðveikt sóló. Ég pældi reyndar ekkert í því hvernig sólóin þeirra voru, mér fannst bara öll tónlistin svo flott í heild að sóló voru bara lítill partur af þessu, bara krydd, en ekki aðal hlutinn af tónlistinni.

Ég veit í rauninni eiginlega ekkert um þessa hljómsveit, nema það sem ég sá og heyrði þessa 2 klukkutíma á tónleikunum. Ég hef eitthvað reynt að finna um þá á netinu en þar sem þeir eru ekkert svo frægir gat ég ekki fundið margt merkilegt. Ég fann samt official síðuna þeirra, www.thefivecornersquintet.com. Svo er líka hægt að hlusta á brot úr lögunum á einni plötunni þeirra bæði á síðunni þeirra og á lytteposten.dk En allavega fannst mér þetta frábær hljómsveit og heillaði mig svo algjörlega þarna um kvöldið að ég fann ekkert fyrir hálsrígnum sem ég fékk við að stara upp á sviðið :P Ég verð að segja að ég naut þessara tónleika nærri því jafn mikið og Roger Waters, þótt ég sé algjör Pink Floyd-fan og þekki öll lögin. Það er bara svo gaman að heyra eitthvað nýtt sem maður fílar :)

Takk fyrir mig og fyrirgefið ef þetta er eitthvað ruglingslegt hjá mér (ég er hvort sem er ekkert frábær penni og nenni ekki að reyna að gera þetta betur)

Meðfylgjandi mynd er af nýjasta disknum þeirra (held ég), Chasin' the Jazz Gone By