Nina Simone Nina Simone eða að skírnarnafni Eunice Waymon, fæddist 21. febrúar 1933 í Tryon, Norður Carolinu og var sjötta af átta systkinum. Alin upp við gospel og trúartónlist, byrjaði hún frá unga aldri að spila á píanó. Þegar hún var aðeins 10 ára spilaði hún fyrist opinberlega, en það var á bókasafni. Þann dag fékk hún ekki aðeins að upplifa lof áhorfenda heldur einnig kynþáttafordóma, þar sem foreldrar hennar voru færð úr fremstu röð svo að hvítir menn gætu fengið sætin þeirra. Þetta atvik var mjög líklega ein af ástæðunum fyrir því að Eunice átti síðar eftir að berjast gegn kynþáttafordómum af miklum krafti.

Árið 1950 gafst Eunice tækifæri til þess að halda áfram í tónlistarnámi með styrktaraðilum í heimbæ hennar. Tónlistarskólinn Juilliard varð fyrir valinu en henni var svo síðar hafnað með námsstyrk til áframhaldandi háskólanáms, sennilega vegna þess að hún var svört. Árið 1954 má svo segja að líf hennar hafi tekið óvænta stefnu þegar hún fékk starf á bar í Atlantic City vegan þess að fjölskyldu hennar vantaði pening. Í upphafi hafði hún ætlað sér að vera píanisti en bareigandinn sagði henni að hún þyrfti að syngja líka. Hún var því óvart komin í skemmtanabransann og tók þá upp nafnið Nina Simone.
Þar með var ferill Ninu Simone hafinn og fljótlega var hún farin að spila á klúbbum og börum víða í Philadelphiu. Hún vakti víðsvegar athygli og fékk hún í kjölfarið að taka upp 14 lög hjá hjá Bethlehem Records árið 1957. Upptökurnar eru enn í dag til marks um það hversu hreinan hæfileika hún hafði sem píanóleikari, söngvari, útsetjari og lagahöfundur. Fyrsta plata Ninu var 11 laga platan Jazz as played in an Exclusive Side Street Club, og kom út 1958. Eitt laganna á þeirri plötu átti eftir að gera Ninu Simone fræga, söngleikjalagið I loves You, Porgy sem sló í gegn og seldist í milljónum eintaka. Fólk gat ekki gengið framhjá hæfileikum hennar lengur, Simone var rísandi stjarna, kom fram í Town Hall, Carnegie Hall og á Newport Jazz Festival meðal annars.

Vegna velgengi fyrstu plötu hennar fékk hún fljótt samning við Colpix (Columbia Pictures Records) sem hún var hjá þangað til árið 1964. Þar tók Nina Simone upp alls 10 plötur, 6 stúdíóunnar og fjórar “live”. Árið 1961 giftist Nina Simone manni að nafni Andy Stroud og ári seinna eignuðust þau dóttirina Lisa Celeste Stroud.
Árið 1964 hóf Nina samstarf hjá Philips og gaf út þar 7 plötur á þrem árum. Árið 1965, gaf Nina út lagið I Put a Spell on You sem er eitt af vinsælli lögum Simone fyrr og síðar. Á þessu tímabili samdi hún einnig sitt fyrsta lag til að mótmæla kynþáttafordóumum Mississippi Goddam! en það samdi hún útaf morðinu á Medgar Evers í Mississippi (júní 1963) og morðinu á fjórum blökkubörnum í Alabama (September 1963).

Árið 1966 skipti Nina yfir til RCA og var þar þangað til 1974. Maðurinn hennar sá um samningana og var einnig umboðsmaður hennar. Frá sumrinu 1968 þangað til enda ársins 1969, voru allar upptökur Ninu Simone pródúseraðar af manninum hennar, þó svo að gera má ráð fyrir að það væri í raun Nina sjálf sem stjórnaði flestu. Hjá RCA komu níu plötur og mörg vinsælustu lög Ninu Simone eins og lagið úr söngleiknum Hárinu Ain't Got No/I Got Life, og útgáfa hennar af To Love Somebody eftir Bee Gees.
Árið 1969 tók lífið nýja stefnu hjá Ninu en vegna kynþáttafordóma ákvað hún að flytja úr landi og fara til Afríku heimaland síns, auk þess sem hún ferðaðist vítt og dreyft um heiminn og kom fram. Árið 1970 skildi hún við eiginmann sinn og hóf að starfa sjálfstætt og vinna með bróður hennar Sam Waymon. Árið 1978 var Nina handtekin (en fljótt sleppt úr varðhaldi) fyrir skattsvik eða óborgaða skatta. Þrátt fyrir mótmælahug Ninu hélt hún áfram að gefa út plötur, oftar en ekki með lögum sem innihéldu pólitískan áróður eða skilaboð.
1987 komst Nina aftur í sviðsljósið með My Baby Just Cares For Me sem hafði þá þegar sigrað Evópu en Nina hélt áfram að koma fram þangað til hún lést. Á síðustu árum ævinnar var Nina margsinnis heiðruð og kom hún fram á ýmsum hátíðum, meðal annars á jasshátíð í Frakklandi 1997, tónlistarhátíð í Grikklandi 1998 og Guinnes Blues Festival í Dublin 1999. Þá var hún einnig heiðursgestur 1998 í áttræðisafmæli Nelson Mandela og 1999 fékk hún heiðursverðlaun fyrir gjöfulan tónlistarferil veitt í Dublin. Árið 2000 fékk hún einnig þrenn önnur heiðursverðlaun.
Nina Simone lést 21. apríl 2003 sjötug að aldri, eftir langvarandi baráttu við sjúkdóm. Ösku hennar var dreyft að hennar ósk vítt um Afríku. Í jarðarförinni í Frakklandi var hennar ekki aðeins minnst sem miklum listamanni, heldur einnig sem frelsishetju sem barðist fyrir réttlæti dekkra manna. Skilaboðin frá ríkisstjórninni í Suður-Afríku voru að hún hefði verið hluti af sögu landsins, það hryggði þau mjög að heyra fregnir af láti hennar og að þau myndu syrgja hana með miklum söknuði.

Nina Simone átti gjöfulan feril og gaf út alls 42 plötur á 36 árum. Alveg frá upphafi hafði Simone sungið djass, gospel, klassík, þjóðlagatónlist, blús, popp, og lög frá óperum og söngleikjum. Þótt hún hafi verið mest þekkt sem djasssöngkona vildi hún sjálf meina að það væri ekki rétt því það væri meira soul og blús í hennar flutningi en djass. Þeir sem kannast við lög Simone vita að röddin er einstök, breytist stundum frá fallegri og mjúkri yfir í hráa og beiska. Hún stoppar, öskrar, endurtekur og hvíslar orðin ef henni dettur í hug. Hún nær að heilla hlustandann með þessari tilfinningalegu og góðu túlkun sem gerir hana að einstökum listamanni með stórt hjarta.

“You want to know what my real hope is? I hope the music will make you make love a little bit. Then you get back to the business in hand—politics.” Nina Simone
www.rosin.blogdrive.com