Jæja þá er stundin runnin upp. Eftir tveggja ára bið er Waitsarinn loksins búinn að kæta mann aftur.

Í þetta skiptir er um að ræða 16 laga stykki þar sem hann fær hjálp frá hinum ýmsu snillingum úr öllum áttum. Til að nefna þá helstu eru Brain (f.v. trommari úr Primus ásamt ýmsum verkum með Zorn svo eitthvað sé nefnt) og Les Claypool, (höfuðpaur Primus)honum innan handar ásamt því að sonur hans Casey Waits sér um plötuspilarana. Þarna getur vel verið að fólki bregði, plötuspilara!! Jamm mikið rétt platan er nefninlega uppfull af alls konar scratsi og látum.

Eins og gefur að skilja er platan öllu frábrugðnari öðrum plötum Waits og er hún einkar torkennileg. Svipar ekki tónlistarlega til neinna annara plata Waits en þó er hún svipað skrýtin, ef svo má að orði komast, og Bone Machine. Ég held að það geti enginn lýst plötunni jafnvel og Waits sjálfur en hann sagði að hún væri kúbverskt fönk með munnslagverki! Ég læt restina liggja á milli hluta.

Hingað til hefur Waits verið duglegur við að sitja á sínum stað á bakvið píanóið en ekki lengur. Hann spilar nær eingöngu á gítar á plötunni ásamt því að taka í hristur eða eitthvað sem hann kallar Chamberlain, hvað sem það nú er.

Ætli það sé ekki best að segja að platan sé algjör skyldueign fyrir áhugamenn um Waits eða bara aðra tónlistaráhugamenn, Maður verður svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. En ef þú ert ekki enn búinn að kynnast Tom Waits þá er þetta frekar erfiður byrjendagripur, og vænlegast væri að byrja bara á byrjun eða einhversstaðar á miðjum ferlinum.

Annars eiga allir að hlaupa út í búð og ná sér í Real Gone!!

Amen