Sean Babtiste “Django” Reinhardt var Manouche-sígauni, fæddur í Lebieche í Belgíu þann 10.janúar árið 1910. Hann hélt þó mest til í Frakklandi.
Þegar hann var aðeins sjö ára að aldri var hann orðinn gríðarlega fær á svokallaðan banjó-gítar sem er sex strengja banjó sem er stillt eins og gítar en hefur þó hljóðeiginleika banjós. Níu ára að aldri kom Django fyrst opinberlega fram á dansstað í Rue du Lappe. Hann fór samt fljótlega eingöngu að spila á gítar og átti glæsta framtíð fyrir sér þegar hjólhýsið hans brann þegar hann var átján ára og hluti vinstri handar hans lamaðist. Slysið var mikið áfall fyrir Django og það eina sem hann hugsaði um var lamaða hendin þótt hann ætti líka á hættu að missa hægri fótinn við hné vegna brunans. Hann lá í langan tíma í rúminu í þunglyndi og kom engu í verk en þá kom yngri bróðir hans, Joseph, kallaður Nin-Nin, með nýjan gítar til hans og Django fór þá aftur að æfa sig. Hann kom öllum á óvart með því hversu fljótt og vel hann náði tökum á því að spila með tveimur fingrum og starfsfólk St. Louis spítalans gapti yfir þeirri hreyfigetu sem hann náði aftur í þessa tvo fingur. Í byrjun fjórða áratugar tuttugustu aldar kom Django aftur fram á tónlistarsviðið og þátt í þeirri góðu endurkomu átti snilldarfiðluleikari að nafni Stephan Grapelli. Django hitti hann fyrst þar sem hann vann sem píanisti við að spila undir þöglum myndum í kvikmyndahúsum og þótt að þeir hafi ekki byrjað samstarf sitt formlega þarna varð þetta kveikjan að því sem koma skyldi og að þeir þróuðu með sér gríðarfallegan gítar/fiðlu-hljóm.
Django og Nin-Nin bróðir hans unnu fyrir sér með því að spila saman á ýmsum klúbbum og ferðuðust um í hjólhýsum sínum. Þeir spiluðu valsa og tangóa fyrir dansi með mörgum þekktum tónlistarmönnum. Django leiddist hins vegar að spila alltaf laglínur beint eftir nótum því hann vildi spinna sínar eigin laglínur inn í lagið á staðnum en fylgja samt innihaldi lagsins.
Árið 1932 hófst nýr kafli í lífi Django Reinhardt. Þá kvaddi hann valsinn og tangóana því að djassinn togaði hann sterkt til sín. Django blandaði svo með sinni stórkostlegu víðsýni indverskum og kúbverskum áhrifum ásamt áhrifum frá sígaunauppruna sínum inní djassinn. Á einu kvöldi öðlaðist hann virðingu helstu djassara Frakklands, svo sem Pierre Revrdy, Robert Goffin og Desnos.
Grapelli snéri á þessum tíma heim til Frakklands aftur eftir að hafa verið með hljómsveitinni “Gregor and his Greogorians” í tónleikaferðalagi í Argentínu. Þetta var ballhljómasveit og tóku áheyrendur Grapelli illa þar sem sóló hans voru óvinsæl og fiðluleikur hans drukknaði oft í hljómi hinna hljóðfæranna. Einu sinni var kona meðal áhorfenda sem blés í dómaraflautu til að sýna fyrirlitningu sína á Grapelli í þessari hljómleikaferð.
Django Reinhardt vildi fá Grapelli til að spila með sér og það var ekki fyrr en hann hafði farið á nokkra tónleika þar sem að Grapelli var að spila að hann mannaði sig uppí að tala við þennan sjálfsörugga, hæfileikaríka fiðluleikara, um það að spila með sér. Þeir bjuggu yfir sama eldmóð og sömu ást á tónlist, þó sérstaklega djassi. Þetta var byrjunin á stórkostlegu, þó stormasömu “tónlistarsambandi” þeirra. Þegar Grapelli lítur aftur til þessa tíma í dag minnist hann eftirfarandi:

“Djassunnendur voru sjaldgæfir í París á þessum tíma og því hafði ég miklar efasemdir um að fara spila svo nútímalega tónlist á svo klassískt hljóðfæri sem fiðlan var álitin vera. Það var trú Djangos og snilli Djangos sem feykti burtu ótta mínum”
(uppruni óþekktur)


Grapelli dáðist nánast frá byrjun að Django, persónuleika hans, stíl og skrítinni dómgreind. Það hefðu varla geta mæst meiri andstæður en Django Reinhardt og Stephan Grapelli. Grapelli var stífur persónuleiki og menntamaður en Django var flakkari. Í byrjun samstarfs þeirra spiluðu þeir með hinum ýmsu tónlistarmönnum, þá helst stórsveitum þar sem að “brass” var ráðandi, en “brass” er málmblásturshluti hljómsveitar. Grapelli sætti sig við hófsama hlutverkið sem fiðluleikurum í djassi var ætlað á þeim tíma á meðan Django blómstraði.
Django Reinhardt varð ómissandi í hinum dæmigerða djassi Parísarborgar á árunum 1933 –1934 en það var stórsveit með píanói, “brassi”, bassa og söngvara. Árið 1934 kom athafnamaður að nafni Pierre Nourry að máli við Django því hann var að stofna hljómsveit undir nafninu “Hot Club of France”. Þetta var upphaf hins sögufræga kvintetts ”Hot Club of France”. Málin æxlaðust þannig að skiptingar á hljóðfæraleikurum voru tíðar í kvintettnum. Einu sinni voru þeir Django Reinhardt, Joseph Reinhardt, Stephan Grapelli, Roger Chaput og Louis Vola sendir til að spila á djasstónleikum sem voru haldnir á hóteli í Champs Elysées. Þegar þeir sátu í herbergi baksviðs byrjaði Django, eins og hann gerði svo oft, að spila melódíu, í þetta sinn úr laginu Dinah. Brátt byrjuðu hinir að spila með og Grapelli sagði síðar að þeir hefðu spilað þetta klukkustundum saman þetta kvöld, svo vel hljómaði þetta í þeirra eyrum. Þetta var hin raunverulega fæðing kvintettsins. Hugmyndin “djass án tromma og trompets” var það sem gerði kvintettinn svona sérstakan. En jafnvel þá gátu þeir ekki selt mikið af plötum þótt þeir bættu söngvurum inní til að gera tónlist sína seljanlegri. Þeir sem komu til að hlusta á þá féllu hins vegar kylliflatir fyrir þessum nýja hljómi þótt gagnrýnendur segðu tónlist þeirra vera of sígaunalega. Einn gagnrýnandi gekk jafnvel svo langt að kalla Django “trúð með mandólín” en brátt hölluðust flestir að því að kvintettinn væri hrein snilld. Kvintettinn náði þó hvorki hylli hreinstefnumanna í tónlist né almennings til að byrja með. Meðlimir kvintettsins neyddust því til að taka inn á milli lög sem almenningi líkaði vel en áttu ekkert skylt við djass bara til að geta haft tónlistina að sínu lifibrauði. En eins og allir vita þá er almenningur á ófyrirsjáanlegri hreyfingu í öllum sínum skoðunum og árið 1935 var Django Reinhardt orðinn aðalstjarnan í París. Hann dró að sér snillinga á borð við Louis Armstrong, Coleman Hawkins og Arthur Briggs sem komu til Frakklands og vildu spila þar með Django. Á árunum 1935 – 1936 fengu útgáfufyrirtækin Gramaphone, Swing og HMV, (His Masters Voice), mikinn áhuga á að taka upp verk Django og Hot Club of France. Verkin voru tekin uppá harðar 78 snúninga plötur. Þetta vakti mikla lukku meðal almennings og gerði samstarf Hot Club of France áhugaverðara fyrir meðlimina. Tímarnir í stúdíóinu átttu mikinn þátt í því að halda kvintettnum saman því á þessum tíma þótti mönnum mjög merkilegt og gaman að komast í stúdíó, alveg öfugt við það sem er í dag. Sala á plötunum jókst jafn og þétt og árið 1937 komu stórstjörnur á borð við Charles Delauny til Parísar í þeim tilgangi að taka upp með Django. Þetta var mikill annatími fyrir kvintettinn og gestasöngvarar voru tíðir. Á þessu tíma sætti kvintettinn mikilli gagnrýni frá djasshreinstefnumönnum vegna þess að ,,brassið” vantaði og sígauna- og þjóðlagaáhrif voru mikil í tónlistinni. Amerískum djassstjörnum var hins vegar alveg sama um þessa gagnrýni . Oft var það fyrsta sem þær spurðu þegar komið var til Parísar: “Hvar er Django að spila í kvöld?”. Svartur, menntaður fiðluleikari kom í stað Grapelli þegar kvintettinn gerði sína fyrstu atlögu að New York senunni. Kvintettinn skall eins og sprengja á Bandaríkjamenn. Ferskleiki hans og nýjungar gerðu það að verkum að kvintettinn vakti mikla athygli í þessari Ameríkuferð sinni. Í byrjun seinni heimstyrjaldar skipti kvintettinn tíma sínum niður á milli tónleika og upptökutíma. Kvintettinn fór svo í tónleikaferðalag um Sviss, Holland, Belgíu, England og Skandinavíu þar sem að tónlistarlegir sigrar blönduðust trylltum ærslum. Á ferðalaginu var það Grapelli sem þurfti að þola ábyrgðarleysi, kjarkleysi og óútreiknalegar skapsveiflur Django. Grapelli hafði lært að þekkja táknin. Þegar Django heyrði fugla syngja sagði hann: “Oh, vorið er minn versti óvinur”. Þegar laufin fóru að birtast á trjánum átti hann það til að láta sig hverfa uppúr þurru. Til að bæta fyrir ófyrirsjánleg hvörf Django þurfti Nin-Nin, bróðir Django, stundum að hlaupa í skarðið fyrir hann sem var mikil viðurkenning en kannski ekki endilega undir þeim kringumstæðum sem Nin-Nin helst vildi.
Árið 1939 gafst Django og kvintettinum tækifæri á því að fara í tónleikaferðalag um Bretland með Duke Ellington sem Django leit mjög upp til. En þá hvarf Django vegna annarra ástæðna en venjulega, almennt kall um herskyldu var borið út og Django flýði í skelfingu og skildi allan farangur og eigur sínar eftir. Hann og Grapelli hittust því ekki aftur fyrr en eftir frelsun Frakklands.
Á tímum hersetu í Frakklandi voru allir erlendir tónlistamenn sendir burt og kom Django með nýtt band á þessum tíma með dæmigerðri amerískri uppsetningu, jafnvel trommara, þótt hann hefði auðveldlega geta endurreist gamla kvintettinn. Þetta var tími mikilla peninga fyrir franska tónlistarmenn vegna einokunar á markaðinum og græddi Django mikið á tíma hersetunnar í Frakklandi. Á árunum 1942 – 1943 var Django sífellt að gæla við stórsveitarhugmyndina sem honum sýndist ekki svo fráleit á þessum tíma.
Django reyndi tvisvar á þessum tíma að flýja til hins hlutlausa Sviss en var sendur til baka í bæði skiptin vegna þess að hann var hvorki svartur né gyðingur og var því ekki talinn stafa bráð ógn af nasistum. Árið 1944 var Frakkland svo frelsað af bandamönnum. Django hitti hljómsveit hermanna og tók upp nokkrar plötur með þeim. Hann spilaði með þeim á einum eftirminnilegum tónleikum en þar spilaði hann órafmagnað, eins og venjulega, yfirgnæfði allt “brassið” og hreif fordómafulla bandaríska hermenn í salnum með sér. Menn sögðu að aldrei hefði hann spilað jafn vel á tónleikum og fengið jafn góðar undirtektir. Eftir stríðið var gleði mikil í Frakklandi og fólk reyndi að finna sér eitthvað til að gleðjast yfir og kom djassinn þar sterklega inní, djassplötur seldust í þúsundum eintaka og djassklúbbar voru yfirfullir nánast á hverju kvöldi. Þetta var sannkallað blómaskeið djassins í Frakklandi. En árið 1946 byrjaði að hægjast á hlutunum. Sala á djassplötum minnkaði og fjölmargir djasklúbbar lokuðu. Að ósk BBC, (breska ríkisútvarpsins), kom gamli kvintettinn þó saman aftur því hann naut enn mikilla vinsælda í Bretlandi. Meðlimir kvintettsins tóku upp “samtal” hljóðfæra sinna og var það töfrum líkast. Fróðir menn sögðu að það væri eins og samstarfið hefði aldrei hætt. Kvintettinn hélt góða tónleika í Bretlandi og nokkrum mánuðum seinna ákváðu meðlimir hans að stilla upp með hefðbundu trommu-, píanó- og bassa-setti.
Eftir tónleikaferðalag um Sviss bauðst Django síðan að fara í tónleikaferð um Bandaríkin með Duke Ellington. Tveggja fingra stíll hans dró vissulega að fólk en Django hafði ekki sjálfsagann í að ferðast með svona stórsveit. Þrátt fyrir góða tónleikasyrpu í New York náði hann ekki í samning í Kaliforníu eins og hann hafði vonast eftir og snéri bitur heim. “Bandaríkin, þar sem gítar hljómar eins og steikarpanna” voru nokkurn veginn orð hans eftir ferðina.
Þann 26. mars 1947 sameinaði Django aftur gamla kvintettinn og átti hann mjög gott tímabil. Þrátt fyrir þetta snéri Django sér meira og meira að því að mála, hugsanlega var hann enn bitur eftir Bandaríkjaferðina, og ef að hann fékk starfstilboð svaraði hann oft: ”Nei því miður, ég er að mála”.
Tímarnir voru að breytast og nú var að koma fram ný stefna í djassi, svokallað “Be-bop”, þar sem allt var spilað mjög hratt. Þessi stefna náði mikilli hylli almennings og þótt Django spilaði eitthvað af ,,Be-boppi” fann hann sig ekki alveg í frönsku djasssenunni lengur. Django og Grapelli komu því með alveg ferskan hljóm inn í kvintettinn, þar sem að hraðinn var aukinn í mörgum lögum og þessi Django stíll færður í “Be-bop fíling”.
Stuttu síðar, þann 16. mars 1953 varð Django Reinhardt bráðkvaddur. Þetta var mikið áfall fyrir tónlistarheiminn allan því að enginn getur ímyndað sér að fullu hvað Django hefði geta fært okkur ef að hann lifað lengur.



Aðeins um Stíl Django:

Stíll Django Reinhardt var vægast sagt sérstakur á þessum tíma. Hann var oft kallaður Franz Liszt gítarsins sem er alls ekkert vitlaust. Eins og ég hef sagt áður var hann aðeins með tvo nothæfa fingur á vinstri hendi en spilaði samt á gríðarlegum hraða og var með mikið af krómantík í sólóum sínum. Mikið af verkum píanósnillingsins Franz Liszt voru einnig mjög hröð og mikið af krómantík til dæmis í Mefisto Valsinum. Það sem er líka líkt með þeim er að þeir leituðu báðir í uppruna sinn. Django leitaði mikið í þjóðlög og sígauna melódíur en Franz Liszt leitaði í sinn fjarlæga ungverska uppruna eftir innblæstri. Django var einmitt gangrýndur fyrir að vera of “sígaunalegur” í djassi sínum enda ríktu miklir fordómar gagnvart sígaunum á þessum tíma í Mið – Evrópu og fólk var ekki móttækilegt fyrir svona nýju efni. Það sem gerir verk Django svona merkileg eru tengslin við eldri höfunda sem hafa greinilega haft áhrif á hann. Í mörgum lögum hans heyrast til dæmis mikil áhrif frá spænskum skáldum eins og Tarrega(d. 1809) og Grenados. Eitt skáld sem mér finnst að eigi að bera Django saman við bæði vegna þess sem Django á sameiginlegt með því og því sem er ólíkt er Spánverjinn Fernando Sor(d. 1839). Það sem er gaman við Sor er það sem gerir það að verkum að sumt fólk þolir ekki verk hans, þau eru alltaf mjög gleðileg. Hann samdi mikið í C- og E-dúr. Mörg af gleðilegri verkum Django eru einmitt í E dúr og það er mikið sambærilegt með melódíum þessara tveggja manna en melódíur Django voru auðvitað mun djassaðri og í ólíkum skölum. Til stuðnings þessu má nefna Etyde no4 eftir Sor og Swing no42. Í þessum verkum er mikið um að laglínur byrji á 5undar stökki svo 4undum tvisvar til þrisvar og síðan spiluð lengri leið aftur niður á við með styttri skrefum. Það var eiginlega alveg ráðandi að ballöður Django voru samdar í A-moll eða D-moll. Í melódíum þessara ballaða er krómantík og 4unda stökk allsráðandi. Eins og í Nuage sem er eiginlega stanslaus krómantík í gegn og í Blue drag þar sem 4unda stökk eru mikil í A parti en krómantík í B parti lagsins. Hann leitaði líka í Miðjarðarhafs-,,fíling” eins og ég hef áður sagt hérna og eitt besta dæmið um það er Swing 39 og Noto swing en melódíur þessara laga eru nánast bara skalar frá Miðjarðarhafsvæðinu sem eru spilaðir mjög hratt. Þetta virkaði mjög vel fyrir Django því að það er auðvelt að spila þessa skala á gítar þar sem maður þarf ekki að hreyfa sig mikið upp og niður eftir hálsinum og venjulegum manni nægir oftast að nota tvo putta á hvern streng.