RÚMENSKA sígaunahljómsveitin Fanfare Ciocarlia, sem er ellefu manna lúðrasveit, heldur tónleika hér á landi á Nasa 25. júní næstkomandi.

Hljóðfæraskipan er þrír trompetleikarar, klarinettleikari, saxófónleikari, tveir hornleikarar, tveir túbuleikarar og tveir leika á trommu og slagverk. Tónlist hljómsveitarinnar er þó ekki lúðrasveitatónlist eins og Íslendingar eiga að venjast, minnir frekar á geysifjöruga klezmertónlist; hefðbundin danstónlist til sveita í Rúmeníu og víðar á Balkanskaga þar sem mikil áhersla
er lögð á kraftmikla sveiflu, en hljómsveitir sem þessi eiga sér rætur í tyrkneskri hergöngutónlist frá því í upphafi nítjándu aldar. Mjög vinsælt er að leika slíka tónlist í brúðkaupum á Balkanskaga og algengt að hljómsveit leiki allan sólarhringinn þegar því er að skipta. Tónlistin gengur í arf því ekkert er upp skrifað heldur lærir hver nýr tónlistarmaður af ættmönnum sínum og hver kynslóðin af annarri heldur hefðinni gangandi.

Fanfare Ciocarlia hefur höfuðstöðvar sínar í þorpinu Zece Prajini, smáþorpi í Austur-Rúmeníu, steinsnar frá landamærum Rúmeníu og Modovu, en nafn þess þýðir tíu akrar. Íbúar eru um 400. Einn trompetleikara sveitarinnar, Costica “Cimai” Trifan, hefur lýst tónlistinni svo: “Fólki finnst oft að ég eigi heima á heimsenda ºþegar ég segist vera frá Zece Prajini, en þar, á jaðri heimsins, er einmitt rétti staðurinn til að leika tónlist.”

Á efnisskránni eru dansar frá Rúmeníu, Búlgaríu, Tyrklandi og Makedóníu; geamparale, sîrba, hora og ruseasca - fjölbreyttir taktar og stemningar. Alsiða er að taka lög upp úr kvikmyndum eða vinsæl dægurlög og færa í lúðrasveitabúning. Síðustu ár hefur Fanfare Ciocarlia verið á ferð og flugi, ferðast víða um heim til tónleikahalds og skemmtana, auk þess sem sveitin hefur leikið inn á fjórar breiðskífur og komið fram í kvikmynd sem gerð var um sveitina.