Margir hafa sent inn áhugaverðar og skemmtilegar greinir um sína uppáhalds jazztónlistamenn og ber að þakka fyrir það og vona ég sannarlega að þetta áhugamál lognist ekki útaf vegna of lítillar notkunar. Mig langar að bæta við greinasafnið og skrifa grein um einn af mínum uppáhalds jazz trompetleikurum, nefninlega Clifford Brown. Margir hafa sagt að Clifford hefði getað orðið einn af bestu trompetleikurum jazzögunnar hefði hann ekki dáið í bílslysi árið 1956 kornungur, aðeins 25 ára gamall. Hann hafði yfir að ráða alveg gríðarlegri tækni og hraða í spilamennsku sinni en um leið fullkomið vald yfir tóni og gat jafnt blásið af krafti og hraða sem og veikt og af tilfinningu og innlifun. Sumir sögðu að Clifford hefði alltaf blásið eins og hann væri að spila á sínum hinstu tónleikum, slík var tilfinningin og innlifunin í spilamennskunni.
Clifford Brown fæddist þann 30. október 1930. Hann hóf trompetleik er hann fékk trompet í gjöf frá föður sínum um það leiti er hann hóf nám í menntaskóla árið 1945. Árin á eftir þróaði hann spilamennsku sína út í jazz og var orðið nokkuð þekkt nafn á jazzbúllum í Philadelphia þar sem hann spilaði með mönnum eins og Max Roach, Kenni Dorham, J.J. Johnson og Fats Navarro. Einnig spilaði hann í metnaðarfullri skólahljómsveit Maryland Háskólans, og það var einmitt eftir eitt gigg með þeirri hljómsveit árið 1950 er hann lenti í sínu fyrsta af 3 bílslysum um ævina. Það dró úr honum kjark og vilja til að spila og þróa spilamennsku sína, og það tók rúmlega 1 ár og hvatningu frá Dizzy Gillespie til að hann hóf að leika aftur af alvöru. Eftir það hófst ferillinn af krafti og hann lék í hljómsveitum með Cris Powell árið 1951 til 1953 og eftir það túraði hann með Lionel Hampton um Evrópu haustið 1953. Eftir að hafa verið valin skæarasta nýja stjarnan af gagnrýnendum Down Beat árið 1954 stofnaði hann band með Max Roach er varði til dauðadags hans þann 26 júní 1956.
Clifford náði á sínum stutta ferli að heilla margar af skærustu stjörnum Jazzins þess tíma, og m.a. spilaði hann með Charlie Parker á tónleikum í Philadelphia árið 1951. Parker trúði varla sínum eigin eyrum er hann heyrði Clifford spila og sagði að héðan í frá væri ástæðulaust að taka trompetleikara með í ferðum til Philadelphia ef Clifford Brown væri í bænum.
Að hlusta á Clifford Brown er stundum eins og að hlusta á hríðskotabyssu, slíkur er krafturinn og hraðinn í mörgum sólóum hans. Maður hefur á tilfinningunni að hann hafi fullkomið vald yfir hljóðfærinu og geti gert algerlega það sem honum sýnist. Þetta heyrist vel í lögum eins og Cherokee og Take the A Train á plötunni “Study in Brown” sem var gefin út árið 1955. Einnig má heyra hve Clifford gat spilað af mikilli tilfinnigu í laginu Stardust er kom út um svipað leiti. Spilamennskan í því lagi er hreínt ótrúleg, og sólóið hrein snilld. Það er erfitt að líkja Clifford saman við einhvern annan trompetleikra, og má segja að stíllinn hans hafi verið að mörgu leiti einstakur. T.d. er hann mjög ólíkur spilurum eins og Miles Davis og Chet Baker, sem voru auðvitað snillingar, en með algerlega ólíkan stíl. Clifford gaf út nokkrar plötur á ferli sínum og kom einnig fram á plötum ýmissa annara jazzista. Ég sjálfur hef hlustað mest á “Study in Brown” er var gerð með Max Roach ofl., einnig hef ég hlustað á plötu er heitir bara Clifford Brown og var tekin upp á síðustu tónleikum hans árið 1956, sama kvöld og hann svo lést.
Um Clifford var samið lagið “I remember Clifford” af Benny Golson að ég held árið 1957.
Ég hvet alla sem ekki hafa heyrt í Clifford Brown að kynna sér hann frekar, þið verðið ekki svikin.
Gunnar Sigurðsson