Ísl.meistaramótið í fjallabruni á Akureyri 26. ágúst Hér koma smá upplýsingar um íþróttina og Íslandsmeistaramótið sem haldið verður í Hlíðarfjalli fyrir ofan Akureyri laugardaginn 26. ágúst.

Um fjallabrun.

Fjallabrun, fyrir þá sem ekki þekkja til, er tiltölulega ný íþrótt á Íslandi. Fjallabrun eða Downhill á ensku gengur út á það að renna sér á hjóli niður mjög svo illfærar brekkur á sem skemmstum tíma. Brautirnar eru afmarkaðar og eru menn oft látnir hjóla yfir torfærur sem fáir kæra sig um að labba yfir. Reynt er að láta brautirnar reyna á bæði hæfileika manna og styrkleika hjólsins. Iðkendur fjallabruns eru skikkaðir til að nota hjálma eins og þeir sem mótorkross mennirnir nota. Einnig er sterklega mælt með að menn noti brynjur s.s. handa, axla, bak, brjóst og leggbrynjur.

En að brautinni sjálfri.

Eftir langt og strangt sumar er brautin nánast tilbúin, aðeins er eftir að fínpússa hana og gera klárt fyrir mótið. Brautin sjálf er 1250m og fellur um 230m. (Hægt er að sjá legu brautarinnar á meðfylgjandi mynd.) Töluverð undirbúingsvinna fór í að finna stað fyrir brautina og var þá haft í huga að brautin þufti helst að vera á snjóléttum stað og var mikið lagt í að spilla náttúrunni sem minnst. Öll brautin var mokuð með handafli og náttúran nýtt til hins ýtrasta án þess að raska henni þar sem hún var í góðu standi. Í brautinni er hátt í 20 stökk eða aðrar tegundir af hindrunum sem fær hjólið til að svífa um loftið. Smá kafli af brautinni lenti á mýri og var brugðið á það ráð að smíða brú yfir svæði þar sem mýrin var nánast ófær. Mjög breytilegt undirlag er í brautinni, allt frá grjóti yfir í mold og frá grasi yfir í möl. Vonum við að breytileiki brautarinnar bjóði öllum uppá eitthvað við sitt hæfi.

Mótið.

Eins og hefur komið fram þá verður haldið Íslandmeistaramót í fjallabruni um næstkomandi helgi (26. ágúst) á Akureyri og að sjálfsögðu kvet ég alla til að mæta á staðinn og verða vitni að skemmtilegri keppni. Æfingar munu hefjast kl. 10 en keppnin hefst kl.14. Stóla lyftan verður opin frá kl. 10 og eitthvað fram á daginn. Selt verður í lyftuna fyrir almenning, 200 kr. ferðin eða 1000 kr. dagurinn, tilvalið fyrir fólk að annaðhvort að nota tækifærið og fá sér gönguferð um fjallið eða jafnvel hjóla smá. Vert er að taka fram að einnig verður haldið götuhjóla og cross country hjóla keppni þessa sömu helgi.


Þannig að núna er bara að hysja upp um sig buxurnar og drífa sig norður (ef þú býrt ekki nú þegar fyrir norðan) og taka þátt í þessari hjólaveislu.

Á ekki að mæta? Og kannski aðaleg, á ekki að keppa?