Örfáir punktar um klifur Í þessari grein ætla ég örlítið að fjalla um klifur, einvörðungu klettaklifur og fjallar þetta eiginlega meira um búnað og tryggingar en klifrið sjálft.

Algengasta klifuraðferðin er líklegast sú er kölluð er sportklifur, þar sem að einstaklingurinn klifrar í “litlum vegg”, tryggður í línu.

Tryggingarnar geta verið tvennskonar, svokallað Toprope eða þar sem að viðkomandi tryggir á meðan hann klifrar. Að sjálfsögðu þarf ég ekki að taka það fram að viðkomandi er aldrei einn, alltaf er einhver sem tryggir línuna.

Toprope er hægt að útfæra á tvo vegu. Að sá sem tryggi sé fyrir ofan og tryggi ofan frá og hins vegar að sá sem tryggi sé fyrir neðan og línan myndi V á hvolfi. Ég hef aldrei orðið vitni að fyrri aðferðinni, bara lesið um hana og ætla því ekki að tala um hana. En ef einhver “kann” þá aðferð væri ekkert verra ef að hann fræddi mig og aðra.

V-á hvolfi. Þetta er að sjálfsögðu bara hægt þar sem hægt er að fara yfir klifurvegginn og koma fyrir tryggingum. Þegar tryggingin er sett upp þá er siglína yfirleitt bundin í bolta eða í “slinga” sem eru utan um traustverðar fyrirstöður. Alltaf skal tryggja í tvo eða fleiri bolta/traustverðar fyrirstöður. Síðan er oftust notuð karabína sem klifurlínan er síðan hengd í. Ef einhver hætta er á að siglínan nuddist við skarpa brún er hægt að redda því með að klæða hana í teppi eða eitthvað ámóta. Kosturinn við toprope er sú að ef tryggingar eru rétt settar upp þá er þessi aðferð nánast áhættulaus. Klifrarinn fellur og línan grípur í um leið.

Að tryggja meðan klifrað er: Þessi aðferð er notuð þegar um klifurleiðangra er að ræða. En í sportklifrinu er hún meira svona smækkuð útgáfa. Þetta fer þannig fram að klifrarinn tryggir í bolta(ef leiðin er boltuð ;)) eða þessháttar tryggingar er hann hefur komið fyrir. Klifrarinn smellir svokölluðum tvisti(tvær karabínur festar saman) í boltann/trygginguna og smellir línunni í hina karabínuna. Klifrarinn klifrar síðan upp fyrir trygginguna og er í raun í frjálsu falli þangað til að hann tryggir næst. Falli klifrarinn fellur hann því tvöfalda þá vegalengd sem er í trygginguna fyrir neðan.
Þessi aðferð er þó einvörðungu bara á færi þeirra sem eitthvað kunna m.ö.o. byrjendur ættu að halda sig við toprope.


Til að ná betri árangri í klifrinu er algengt að klifrarar klæðist svokölluðum “túttum”. Túttur eru í raun bara skór úr gúmmíi sem valda því að fóturinn er örlítið krepptur innan í skónnum og eykur þetta grip og takfestu fótanna alveg gríðarlega.
Auk þess er notast við kalk. Kalk er í raun bara til þess að ná betri gripi á fingur og er heppilegt við sveittum fingrum(minna grip).

Munurinn á siglínu og klifurlínu er sá að klifurlínu teygist örlítið og gefur eftir þegar að fallið er í hana, en siglínan ekki. Siglínu er því ekki hægt að nota í klifri, nema til þess eins að tryggja, en klifurlínu er hægt að nota í sigi.

Tryggingar sem hægt er að nota í seinni aðferðinni eru margar. Eru þær flestar þannig að tryggingunni er stungið innan í sprungu og einhvernveginn krækt í þrengsta part sprungunnar. Einnig eru til tryggingar(sem ég man ómögulega hvað heita í augnablikinu(en ef að þú hefur séð vertical limit þá veistu hvað ég á við)) sem virka á þann veg að þær eru togaðar aftur þeim stungið inn í sprungu eins langt og þær komast. Tryggingunni er síðan sleppt(hleypt fram) og spyrnir hún þá í veggina hvoru megin við sig og heldur alveg þangað til hún er losuð með sömu aðferð og hún var fest með.

Ég vil bara taka það fram að ef að þú kunnir ekki að klifra áður en þú last greinina, þá kanntu það ekki eftir að hafa lesið hana. Þetta voru bara nokkrir punktar sem vert er að hafa í huga þegar að klifrað er.
Ef þig hins vegar langar að læra klifur þá get ég bara bent þér á björgunarsveitir eða isalp, eða svipaða útivistarklúbba.

Takk fyrir lesturinn.