Á framkvæmdastjórnarfundi ÍSÍ 1. nóvember sl. var samþykkt bókun vegna niðurskurðar RÚV (sjá frétt hér á fréttavef ÍSÍ frá 1. nóv.) og var bókunin send til útvarpsstjóra og útvarpsráðs RÚV.
Nú hefur borist svarbréf frá útvarpsstjóra, Markúsi Erni Antonssyni, þar sem hann lýsir áhyggjum sínum yfir þróun verðlagningar á íþróttaefni til flutnings í sjónvarpi og minnkandi áhorfi á landvísu þegar íþróttaviðburðir eru annars vegar. Hér á eftir fara valdir kaflar úr bréfinu, til upplýsingar:

“Það hlýtur hins vegar að vera sameiginlegt áhyggjuefni íþróttaforystunnar í landinu og Ríkisútvarpsins hvernig verðlagning á íþróttaefni til flutnings í sjónvarpi hefur þróast að undanförnu bæði er varðar útsendingar frá stórleikjum með þátttöku íslenskra íþróttamanna svo og hinum stærstu alþjóðlegu viðburðum.
Nú er svo komið, að Ríkisútvarpið sem er háð ákvörðunum stjórnvalda um rekstrarforsendur sínar á þess engan kost lengur að kaupa sýningarétt frá ýmsum þessum viðburðum í því skyni að gefa almenningi kost á að fylgjasst með þeim í opinni dagskrá eins og það hefur jafnan leitast við. Réttindi til sýninga frá kappleikjum með þátttöku Íslendinga eru söluvara í höndum erlendra fyrirtækja og falboðnir hæstbjóðanda. RÚV getur ekki verslað, hvað sem það kostar. Alþjóðlegu íþróttahátíðirnar hækka óheyrilega í verði, þannig að innan European Broadcasting Union eiga sífellt fleiri sjónvarpsstöðvar í miklum erfiðleikum með að laga sig að stórhækkuðu verði.
Nýlega var frá því skýrt að um 14% landsmanna hefðu fylgst með landsleik Íslendinga og Dana, sem sýndur var í lokaðri dagskrá á áskriftarstöðinni Sýn. Slíkur viðburður hefði fengið 40-50% áhorf í sjónvarpi Ríkisútvarpsins. Til skamms tíma er þetta vafalaust ábatasamt fyrir einstök sérsambönd en það ætti að vera þeim sem og forystu íþróttahreyfingarinnar í heild verulegt áhyggjuefni, ef æ færri eiga þess kost að fylgjast með íþróttinni og áhugi almennings á henni dvíni þar af leiðandi. Íþróttahreyfingin þarf á því að halda að almenningur í landinu sýni henni áhuga og velvild. Íþróttahreyfingin þarf á Ríkisútvarpinu að halda til að koma áhugaverðu íþróttaefni á framfæri við fólk um land allt í opinni dagskrá og viðhalda þannig áhuga og velvild almennings í garð íþróttastarfseminnar.”