Ísland og Brasilía mætast í Cuiaba 7. mars. Leikurinn er víða umtalsefni. Varð til þess að nú andar köldu milli norska og íslenska knattspyrnusambandsins. Brasilíumenn mótfallnir leiknum því Ísland mætir ekki með sitt sterkasta lið og Romario er ekki í hópnum. Þegar Brasilía sendi beiðni um landsleik til Íslands voru önnur lönd búin að afþakka sama boð. Ísland tók því. Þar sem 7. mars er ekki viðurkenndur landsleikjadagur hjá FIFA fá leikmenn evrópskra félagsliða ekki frí. Í staðinn var horft til átta íslenskra leikmanna í Noregi.

Norska deildin hefst ekki fyrr en í apríl og liðin ekki upptekin við annað en æfingar. Öllum að óvörum settu norsku liðin fótinn fyrir dyrnar og meinuðu leikmönnum sínum þáttöku. Aðeins Árni Gautur Arason frá Rosenborg og Ólafur Stígsson frá Molde fengu leyfi.

Því eru hinir 16 leikmenn hópsins frá íslenskum liðum. Þrír hafa aðeins spilað einn leik með A-liðinu og fimm eru nýliðar. Forráðamenn KSÍ eru ósáttir við þessa niðurstöðu og segja nú anda köldu á milli þeirra og Norðmanna.

“Þeim virðist bara vera sama um aðra, eru dónalegir,” segir Atli Eðvarðsson landsliðsþjálfari. “Sá á kvölina sem á völina. Það er ekki hægt að svekkja sig á þessu. Við höfum gefið eftir þegar rétturinn var okkar megin. Nú er spurning hvort við gerum það aftur.”

Liðið heldur af stað á sunnudagsmorgun og spilar á fimmtudag. Undirbúningstíminn er skammur en Atli vongóður. Það er ógnvekjandi að mæta Brasilíumönnum á heimavelli. “Maður veit aldrei hvernig svona leikir fara. Þeir tapa ekki oft á heimavelli. En oft eru stærstu orrusturnar í minnum hafðar. Þar leggja menn sig mest fram.”

Leikurinn er einnig umdeildur í Brasilíu. Fyrrum fyrirliði landsliðsins, Zico, gagnrýnir yfirmenn harkalega fyrir það að skipuleggja leik á móti Íslendingum. Zico spilaði á HM árin 1982 og 1986.

“Önnur landslið heimsins mæta aðeins liðum í efsta styrkleikaflokki. Brasilía vill spreyta sig á móti B-liði Íslendinga,” sagði Zico. Að hans mati hefði verið lítið mál að fá sterkt lið ef leikurinn hefði farið fram 12. febrúar. “Það vildu þeir ekki út af kjötkveðjuhátíðinni. Þeir vildu ekki spila á öskudaginn! Þetta endurspeglar slaka stjórnun.”

Fernando Henrique Cardoso forseti, 64 prósent Brasilíumanna (skv. skoðanakönnun) og íþróttamálaráðherra Brasilíu eru einnig óánægir. Þjálfarinn Luiz Felipe Scolari valdi ekki Romario í liðið. Margir óttast að hann fái aldrei aftur að leika í landsliðstreyjunni. Þessi umræða kaffærði kynningu Scolari á 18 manna hópnum.

“Romario er ekki í hópnum vegna taktískra ástæðna,” sagði Scolari en neitaði að segja hverjar ástæðurnar eru. Raddirnar sem heimta Romario urðu háværar þegar Brasilía hökti í gegnum undankeppni HM, tapaði sex leikjum. Svo tapaði liðið fyrir Hondúras í Suður-Ameríkubikarnum og datt í þriðja sæti styrkleikalista FIFA.

Romario er í góðu formi, var markahæstur í brasilísku deildinni í fyrra með 21 mark. Formaður knattspyrnusambandsins á að hafa snætt með honum á þriðjudag og boðið honum í HM hópinn. Sagt er að Scolari og Romario sé illa við hvorn annan. “Alls ekki. Mér líkar vel við Romario. En hann er 36 ára og ekki ofarlega á lista þar sem ungir leikmenn ríkja.”

Engin brasilísku stjarnanna, sem spila í Evrópu, mæta Íslendingum í Cuiaba. Allt annað lið mætir Júgóslövum 27. mars og Portúgölum 17. apríl. Þá segir Scolari að HM hópurinn verði næstum fullkomnaður.



Landsliðshóparnir
Ísland

Markverðir
Árni Gautur Arason Rosenborg 19 landsleikir
Ólafur Þór Gunnarsson ÍA 0 landsleikur


Vörn
Kjartan Antonsson ÍBV 1 landsleikur
Þórhallur Dan Jóhannsson Fylki 1 landsleikur
Gunnlaugur Jónsson ÍA 11 landsleikir
Ólafur Örn Bjarnason Grindavík 9 landsleikir
Hjálmar Jónsson Keflavík 2 landsleikir
Valur Fannar Gíslason Fylki 3 landsleikir


Miðja
Grétar Rafn Steinsson ÍA 0 landsleikur
Einar Þór Daníelsson KR 20 landsleikir
Sigurvin Ólafsson KR 5 landsleikir
Sævar Þór Gíslason Fylki 4 landsleikir
Ólafur Stígsson Molde 3 landsleikir


Sókn
Guðmundur Steinarsson Keflavík 0 landsleikur
Grétar Hjartarson Grindavík 0 landsleikur
Þorvaldur M. Sigbjörnsson KA 0 landsleikur
Baldur Aðalsteinsson ÍA 1 landsleikur
Haukur Ingi Guðnason Keflavík 3 landsleikir




Brasilía

Markverðir
Rogerio Ceni frá Sao Paulo
Marcos frá Palmeiras

Vörn Belleti frá Sao Paulo
Juan frá Flamengo
Cris frá Cruzeiro
Anderson Polga frá Gremio
Daniel frá Sao Caetano
Paulo Cesar frá Fluminense
Kleber frá Corinthians


Miðja
Gilberto Silva frá Atletico Mineiro
Kleberson Atletico Paranaense
Vampeta Corinthians
Alex Palmeiras
Kaka Sao Paulo


Sókn
Edilson frá Cruzeiro
Washington frá Ponte Preta
Franca frá Sao Paulo
Marques frá Atletico Mineiro