Miður skemmtileg atvik úr heimi íþróttanna Hér á eftir mun koma samantekt á örfáum óskemmtilegum atvikum sem gerst hafa í íþróttaheiminum á síðustu árum en ég hef alveg óhemju mikinn áhuga af svona atvikum sem innihalda breytingu frá hinum venjulega lífi íþróttanna. Byrjum ‘etta:

—-

Líklega er þetta frægasta knattspyrnuatvik allra tíma. Það væri samt betra ef það myndi innihalda einhverja knattspyrnu. Um hvað er ég að tala? Jú, ég er auðvitað að tala um það þegar Eric Cantona tók sig til og sparkaði “kung-fu style” í áhorfanda í janúar 1995. Aðdragandi málsins er þannig að Man. Utd. var að keppa við Crystal Palace og þurfti á sigri að halda því baráttan á toppnum við Blackburn var hörð. Cantona varð víst nokkuð æstur og hann endaði á því að tækla einn Crystal Palace-manninn allhressilega og hlaut rautt spjald fyrir vikið. Cantona er að ganga í mestu makindum útaf vellinum þegar hann heyrir hróp úr áhorfendastúkunni sem beindust að móður hans og einhverju dónalegu… Það var maður að nafni Matthew Simmons sem bar ábyrgð á þeim (hefur reyndar haldið fram sakleysi sínu þegar kemur að hrópunum) og hann fékk rækilega að kenna á því. Cantona “snappar”, hleypur að honum þar sem hann stendur fremst á áhorfendapöllunum, hoppar upp og sparkar af miklu afli í bringuna á Simmons! Smellhittir. Cantona fellur við en stendur fljótt upp og reynir að hjóla í Simmons sem ákveður að forða sér í burtu en ekki fyrr en að Cantona hafðu slegið hann þungu hnefahöggi. Leikmenn þustu að Cantona (m.a. Paul Ince) og reyndu að hemja manninn.

Það var lítið rætt um annað en sparkið næstu vikur. Cantona var dæmdur í 8 mánaða keppnisbann en einnig í tveggja vikna fangelsi fyrir líkamsárás. Þeim dómi var síðan áfrýjað og breytt í 120 klukkustunda samfélagsþjónustu sem fólst þjálfun 10 ára krakka í knattspyrnu. Þegar búið var að dæma Cantona var boðað til blaðamannafundar þar sem Cantona lét sín frægustu orð falla. Hann gengur inn í herbergið, sest niður og segir: “When the seagulls… follow the trawler… it's because they think… sardines will be thrown… into the sea”. Heimspeki í hæsta gæðaflokki. Líklegast er að mávarnir (seagull) standi fyrir fjölmiðla og að togarinn (trawler) standi fyrir fræga liðið. Svona lauk þessu, Cantona fór í bann en sneri aftur tvíefldur. Þetta atvik geymir að mínu mati íþróttaljósmynd aldarinnar.

—–

Tennisheimurinn fór á annan endann vorið 1993. Monica Seles, þá 19 ára, og eitt mesta efni sem sést hafði (var nr. 1 á heimslistanum) var að keppa í undanúrslitum Ástralska meistaramótsins. Þá kemur maður að nafni Gunter Parche til sögunnar en hann birtist aftan að Seles þar sem hún situr á bekk og er að hvíla sig fyrir næstu lotu. Næsta sem Seles veit er að hún finnur mikinn sársauka á baki. Þá hafði Parche stungið hana með 25 cm löngum hníf milli herðarblaðanna og það fyrir framan helling af áhorfendum! Sárið varð ekki mjög djúpt (1.5 cm) og það tók aðeins nokkrar vikur að gróa. Parche var handtekinn og kom í ljós að hann var haldinn sjúklegri áráttu í garð Steffi Graf en Seles hafði hirt af henni toppsæti heimslistans og var í banastuði. Þegar Parche var handtekinn hélt hann því fram að hann hafði einungis ætlað að meiða hana en ekki að myrða, koma Seles frá keppni. Hann var því sýknaður af tilraun-til-morðs ákærunni og hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm ásamt því að vera sendur í sálfræðimeðferð og var dómurinn fordæmdur af Seles og fjölskyldu hennar.

Parche tókst áætlunarverk sitt því Seles var rúm 2 ár að jafna sig andlega eftir árásina og Steffi Graf komst í efsta sætið. Seles sneri aftur á völlinn haustið 1995 og byrjaði af miklum krafti og vann Opna ástralska meistaramótið í janúar 1996 en eftir það lá leiðin niður á við og Seles tókst aldrei að ná fyrri styrk þrátt fyrir nokkra sigra.

——-

Cornelius “Neil” Horan er nafn sem þú kannast líklega ekki við. Þetta er írskur prestur sem virðist hafa það takmark í lífinu að vera algjör hálfviti en því takmarki er löngu náð. Hann hefur tvisvar truflað íþróttaviðburði á eftirminnilegan hátt en hefur truflað marga fleiri atburði s.s. Wimbledon mótið fræga í tennis. Fyrri truflunin hans var á Silverstone-brautinni í Bretlandi 2003 en hún er vettvangur Formúlu 1 keppninnar það á bæ. Þar hljóp hann inn á brautina í miðri keppni, klæddur í einhvern grænan búning og í skotapilsi. Einnig hélt hann á einhverjum borða sem innihélt trúarleg skilaboð. Eins og gefur að skilja var þetta stórhættulegt því þarna þustu nokkrir bílar framhjá á 300 km hraða. Ég man nokkuð vel eftir þessu, horfði á keppnina. Horan hljóp aðeins áfram en síðan komu nokkrir verðir á hæla hans og einn vörðurinn gjörsamlega jarðaði hann. Það var magnað móment, svona “óóóóó rúst!!”. Hann var síðan settur í fangelsið þar sem hann sat í 2 mánuði.

Kallinn var síðan mættur á Ólympíuleikana í Aþenu ári síðar og liklegur til afreka. Það er líklega hans þekktasta truflun. Hann var mættur til að “fylgjast” með maraþonhlaupi karla en aðgerðir hans varðandi hlaupið áttu eftir að reynast býsna afdrifaríkar. Hann tók sér stöðu hjá áhorfendum við garð einn í Aþenu þar sem um 35 km voru búnir af hlaupinu og lítið eftir (maraþon er rétt rúmir 42 km) og tilbúinn í slaginn. Fremstur í hlaupinu var Brasilíumaðurinn Vanderlei de Lima og er hann nálgaðist garðinn stökk Horan fram á götuna í veg fyrir Lima og hrinti honum inn í áhorfendahópinn. Lima náði að sleppa úr klóm Horan með hjálp áhorfanda en skaðinn var skeður, hann missti niður mikilvægt forskot á keppinauta sína, um 20 sek en forskotið var lítið fyrir. Hlaupinu lauk þannig að Lima fékk einungis bronsverðlaun fyrir frammistöðu sína. Skiljanlega var Lima verulega ósáttur, taldi hann gullið vera sitt og heimtaði medalíuna gylltu sem hann fékk reyndar aldrei. Þeir sem fylgdust með hlaupinu segja reyndar að Lima hafi verið að hægja á sér og að hann hefði líklega ekki endað fyrstur.



Nú er komið að skautaíþróttum. Tonya Harding var öflug á skatunum í upphafi tíunda áratugarins og var fyrsta bandaríska konan til að ná þreföldu öxulstökki (veit bara ekkert hvað þetta heitir almennilega) í keppni, þ.e. 3 hringir. Harding var hins vegar leiðindakarakter og kenndi öllu öðru um þegar illa gekk hjá henni. Oft hætti hún við að keppa eða “þurfti” að hætta í miðri keppni vegna ýmissa vandamála sem upp komu m.a. vildi hún fá að hefja æfingu upp á nýtt vegna þess að skautinn var laus, einu sinni var búningurinn eitthvað að þvælast fyrir henni o.s.frv. Hún var líka dugleg við að láta bíða eftir sér og var (og er) oft að lenda í e-u rugli, segist hafa fengið dauðahótanir og fleira. Lesið Later Celebrity kaflann um hana á wikipedia.

Hátindur frægðar Harding kom í janúar 1994. Nancy Kerrigan var andstæðingur Harding á skautasvellinu en á æfingu fyrir bandarískt stórmót var hún barin með kylfu í hnéð, sem varð til þess að hún gat ekki tekið þátt á umræddu móti en Harding fór með sigur af hólmi. Við grennslan lögreglu kom í ljós að maðurinn sem barði Kerrigan í hnéð hafði verið ráðinn af fyrrverandi eiginmanni Tonyu Harding og við þetta varð nafn Harding á allra vörum. Fór þetta mál fyrir dómstóla og játaði Harding að hafa hylmt yfir árásina af ótta við að vera send í fangelsi héldi hún fram sakleysi sínu en hún segist saklaus allt til dagsins í dag. Hún dæmd í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi, 500 klst. Samfélagsþjónustu og sektuð um 160.000 $. Einnig fór Bandaríska skautasambandið af stað með sína eigin rannsókn og að henni lokinni var Hardigan dæmd í lífstíðarbann frá keppni auk þess að vera svipt titlinum sem hún vann á umræddu móti.

Þá er þetta komið.