Fyrirliði Portúgalska landsliðsins, Fernando Couto var á föstudaginn dæmdur í tíu mánaða keppnisbann af aganefnd ítalska knattspyrnusambandsins. Couto sem er einn að máttarstólpum Lazio-varnarinnar reyndist jákvæður eftir lyfjapróf sem hann gekkst undir eftir leik gegn Fiorentina í Janúar. Lyfið sem fannst í líkama hans var eins og hjá öllum öðrum leikmönnum sem hafa verið að fá á sig bann að undanförnu, nandrolone.

Auk Couto, þá var belgíski markvörðurinn Jean Francois Gillet, leikmaður Bari, dæmdur í tíu mánaða bann og tveir leikmenn Piacenza, Þeir Nicola Caccia og Stefano Sacchetti fengu átta og tíu mánaða bann.

Þessir fjórir leikmenn hafa því bæst í hóp hollensku landsliðsmannana Edgar Davids og Frank de Boer sem einnig voru uppvísir af neyslu nandrolone í vetur. Leikbönnin miðast við þá dagsetningu frá því að þeir voru settir í bann undir lok síðustu leiktíðar þannig að líklega ná þeir lokaumferðunum á næsta tímabili.

Allir þessir leikmenn hafa lýst yfir sakleysi sínu og hafa áfrýjað dómnum. Ekki er búist við því að á það verði hlustað, og leikbönnin koma væntanlega til með að standa.