Íslenska ungmennalandsliðið í brids vann í dag Norðurlandamót spilara 25 ára og yngri sem lauk síðdegis í Trelleborg í Svíþjóð. Íslenska liðið endaði með 188 stig en Norðmenn urðu í 2. sæti með 172 stig og Danir í 3. sæti með 171 stig. Íslenska liðið hafði sex stiga forskot á Norðmenn fyrir síðustu umferð og unnu þá Finna, 23:7, en Norðmenn töpuðu fyrir Dönum, 11:19. Alls voru spilaðar 9 umferðir í mótinu og íslenska liðið vann alla leiki sína utan leikinn við Norðmenn, sem tapaðist með minnsta mun, 14:16. Þess má geta að spilararnir í norska liðinu eru allir núverandi Evrópumeistarar í þessum aldursflokki.

Íslenska liðið var skipað Sigurbirni Haraldssyni, Bjarna Einarssyni, Guðmundi Gunnarssyni, Heiðari Sigurjónssyni og Birki Jónssyni en fyrirliði og þjálfari var Anton Haraldsson. Þetta er í annað skipti sem Sigurbjörn vinnur Norðurlandamót 25 ára og yngri en Íslendingar unnu mótið einnig fyrir fjórum árum. Sigurbjörn er raunar næst yngstur í íslenska liðinu, 22 ára gamall, en lang leikreyndastur og er m.a. núverandi Íslandsmeistari í sveitakeppni.

Lokastaðan á mótinu var þessi:

1. Ísland 188 stig
2. Noregur I 172 stig
3. Danmörk I 171 stig
4. Noregur II 161 stig
5. Svíþjóð I 138 stig
6. Finnland 121 stig
7. Danmörk II 100 stig
8. Færeyjar 91 stig
9. Svíþjóð II 84 stig