Menn geta rifist endalaust um hvað Atli átti að gera og hvað ekki en það sem er mest svekkjandi við leikinn er alger skortur á skipulagi - það var ekki lið sem kom fram fyrir Íslands hönd í dag heldur 11 einstaklingar sem voru ekki að virka saman.

Hlutverk þjálfara er alltaf að móta lið úr þeim efnivið sem hann hefur og hver þjálfari heldur upp á ákveðna taktík og er með ákveðna uppstillingu sem hann notar mest en Atli hefur algerlega brugðist að púsla saman liði. Menn voru óvissir hvar þeir áttu að vera og voru ekki með neinar skilgreindar hlaupalínur sem varð til þess að menn vissu nákvæmlega ekkert hvar samherji þeirra var inn á vellinum. Þetta verður til þess að leikmenn þurfa þetta auka sekúndubrot til að líta yfir völlinn þegar þeir eru að senda og þá er maður kominn í þá með það sama. Einnig var áberandi hvað miðjumennirnir okkar voru þjappaðir á lítið svæði í fyrri hálfleik og lítil hreyfing án bolta bein orsök þess. Þetta varð til þess að það varð mjög erfitt að senda út úr pakkanum og gefa mönnum tíma til að líta upp = sendingarnar urðu skelfilegar. Einnig var eins og Skotar væru manni fleiri nánast allan fyrri hálfleikinn vegna þessa.

Eftir markið má segja að menn hafi slept hlekkjunum af sér og Brynjar fór framar á miðjuna sem dreifði Íslenska liðinu betur og þeir fóru að finna menn betur = sendingarnar bötnuðu. Síðan koma þessar skiptingar og gjörbreyting á leikskipulagi á síðustu 15 mín sem leikmennirnir náðu ekki að aðlaga sig að.

Þessi leikur var ein taktísk mistök frá upphafi til enda og í raun það eina sem var að virka var vörnin sem Guðni stjórnaði eins og herforingi en það var ekki Atla að þakka nema það að hafa valið manninn í upphafi.

Atli Eðvaldsson hefur sýnt það að hann er ekki starfi sínu vaxinn. Yfirlýsingar hans um að hann hafi ekki tíma til að skoða andstæðingana og þá íslensku leikmenn sem eru að spila erlendis eru ekki þess verðar að vekja traust að þetta lið nái einhverjum árangri undir hans stjórn í framtíðinni. Í raun er engin ástæða til að hafa hann lengur sem landsliðsþjálfara því hann er ekki að ná árangri núna og er ekki að byggja upp fyrir framtíðina. Það eru nokkrir þjálfarar á Íslandi sem myndu ná betri eða að minnsta kosti ekki verri árangri sem myndu þó helga sig verkefninu 100% en ekki með hangandi hendi í frítíma sínum. Það að reyna og mistakast er alltaf virðingarverðara en að reyna ekki. Atli ætti að sjá sóma sinn í að segja upp og halda í heiður sinn áður en eitthvað virkinlega stórt áfall ríður yfir (t.d. tap gegn Færeyjum) og hann verður rekinn með skömm.