Bang Gang - Something Wrong Bang Gang – Something Wrong

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Barða Jóhannssonar, svo þegar ég sá þessa plötu á tilboðsverði í sjoppu útá landi fyrir nokkrum árum, var ég ekki lengi að skella mér á hana. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum frekar en fyrri daginn.

Fyrsta lagið sem Bang Gang gaf út var Sleep sem kom út á samnefndri smáskífu árið 1995. Hljómsveitin gaf svo ekki út fleira efni fyrr en árið 1998, en þá kom breiðskífan You út. Lagið So Alone af henni varð frekar vinsælt, bæði á Íslandi og erlendis.
Barði, forsprakki Bang Gang, hefur svo tekið þátt í ýmsum verkefnum tengdum tónlist og getið sér góðan orðstír á því, hvort sem það er í popp/rokkiðnaðinum eða við kvikmyndatónlistargerð.

Something Wrong kom út árið 2003 og var henni strax tekið sem poppplötu í heimsklassa. Á henni eru tólf lög sem eru öll nema eitt eftir Barða, og eru einnig meðhöfundar að nokkrum lögunum.

Nokkrir söngvarar koma við sögu á plötunni. Barði syngur sjálfur í nokkrum laganna, en á meðal annarra má nefna Esther Taliu Casey, Daníel Ágúst, Nicolette Suwoton, Phoebe Tolmer og Keren Ann Zeidel, auk fjölda bakraddasöngvara.

Platan er yfirhöfuð ljúf og angurvær poppplata og lögin eftir því. Þó lögin séu flest í svipuðum stíl, verður þetta ekki þreytt og frumleikinn helst til enda. Sum þeirra eru í einföldum útsetningum með gítar- og hljómborðsundirleik, á meðan lög einsog Inside, There was a whisper og Contradictions eru í flóknari strengjaútsetningum eftir sjálfan Þorvald Bjarna.

Lagalistinn:

1. Inside
2. Follow
3. Something wrong
4. It’s allright
5. There was a whisper
6. Forward and reverse
7. Find what you get
8. In the morning
9. Stop in the name of love
10. Everything’s gone
11. Contradictions
12. Look at the sun

Mér finnst þessi diskur svo góður að ég myndi kalla hann skyldueign allra tónlistarunnenda. Fullt hús stiga frá mér!


Kveðja, neonballroom.